Mikilvægt aðhald almennings

Undanfarið höfum við fengið að heyra það að kreppan sé búin og að nú sé allt á uppleið. Hvergi sé eins mikill hagvöxtur enda alveg einstök þjóð. Nú eigum við að vera þakklát og bugta okkur og beygja og þakka Steingrími og Jóhönnu fyrir allt þetta góða sem þau hafa gert fyrir okkur. Ég er  frekar jákvæð manneskja og langar því voða mikið til að trúa því að þessi mikli hagvöxtur sé að skila okkur hagsæld og bjartari tímum. Ég er bara ekki að skynja þetta jákvæða viðhorf til ríkisstjórnarinnar í kringum mig. Fólk talar um svikin loforð og að ástandið í þjóðfélaginu sé farið að minna óþægilega mikið á 2007. Fólkið sem tók þátt í hrunadansinum er komið til baka eftir góðar afskriftir hjá bönkunum. Aftur á móti situr skuldsettur almenningur eftir með sárt ennið og hefur ekki fengið leiðréttingu sinna mála.

Svona skynja ég umræðuna í kringum mig og þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki einhvern veginn hægt að koma þessum skilaboðum til ríkisstjórnarinnar. Stjórnvöld virðast lifa í  draumaheimi, allavega eru þau ekki  að fá rétta mynd af því sem er að gerast hjá almenningi. Erum við kannski ekki nógu dugleg að láta þau heyra frá okkur og veita þeim nauðsynlegt aðhald?

Ef þú ert ekki sátt/ur með ástandið er mikilvægt að þú látir í þér heyra. Ábyrgðin er okkar, við getum ekki  ætlast til þess að einhver annar geri hlutina fyrir okkur. Á miðvikudagskvöldið 12. september gefst þér tækifæri til að koma skilaboðum til stjórnvalda með því að mæta á Austurvöll  kl.19:30.

 


Réttlæti velferðarráðherra

Hvernig getur velferðarráðherra deilt velferð með svo misjöfnum hætti? Hann lætur reikna út lágmarks framfærsluviðmið fyrir almenning en gerir ekkert meira með það. Ráðherrann ætti að kappkosta að allir hafi lágmarksframfærslu og eigi því fyrir nauðþurftum. Hann hefur ekki gert það en í staðinn þá hækkar hann laun eins starfsmanns um mörg hundruð þúsund. Hvernig getur ráðherrann réttlætt þessa ákvörðun gagnvart þeim sem lifa í dag undir lágmarkskjörum? Hvort er mikilvægara í velferðaþjóðfélagi að fólk eigi fyrir grunnframfærslu eða að nokkrir einstaklingar lifi í lúxus?

Bréf til þingmanna

Reykjavík 25. apríl 2012

Til þingmanna

Við undirrituð skorum á ykkur að sýna Grikkjum samkennd og setja saman þingsályktunartillögu um að Alþingi Íslendinga lýsi yfir stuðningi við grísku þjóðina sem líður fyrir aðför fjármálaaflanna.

Það er löngu orðið tímabært að þjóðþingin í Evrópu bregðist við neyðarhrópum grísks almennings; neyð þjóðar sem stafar af aðgerðum fjármálakerfisins. Ykkur til upplýsingar viljum við vísa í tvær góðar heimildir um aðdragandann og ástandið í Grikklandi:

1) Grein tónskáldsins Mikis Theodorakis “The Truth about Greece” þar sem hann rekur það sem máli skiptir til að skilja stöðu Grikkja í dag.

2) Heimildamynd blaðakonunnar Alexandra Pascalidou, Vad är det för fel på grekerna? (Hvaða vandamál hrjáir Grikki?) um síversnandi aðstæður almennings sem eru tilkomnar fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af grískum stjórnvöldum að kröfu fjármálaaflanna.

Þögn þjóðþinga Evrópu sem hafa daufheyrst við neyðarhrópum grísks almennings er skammarleg. Þess vegna viljum við höfða til samkenndar ykkar þingmanna um að bregðast við kalli hans og leggja fram og samþykkja þingsályktunartillögu þar sem Alþingi Íslendinga fordæmir aðgerðir fjármálaaflanna gegn Grikkjum.

Undirskriftir:
Anna Ólafsdóttir Björnsson, tölvunarfræðingur
Árni Þór Þorgeirsson
Ásthildur Sveinsdóttir, þýðandi
Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi
Elín Oddgeirsdóttir
Elinborg Kristín Kristjánsdóttir, háskólanemi
Fanney Kristbjarnardóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur
Helga Þórðardóttir, kennari
Héðinn Björnsson, jarðeðlisfræðingur
Hjalti Hrafn Hafþórsson
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Jón Jósef Bjarnason, ráðgjafi
Jón Þórisson
Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari
Valdís Steinarsdóttir, skyndihjálparleiðbeinandi


Stofnfundur breiðfylkingar um lýðræði og almannahag

Tíminn frá hruni hefur verið okkur strangur skóli. Að gjaldþrota einkabankar séu endurreistir á öxlum skattgreiðenda, að sambræðingur nýju og gömlu bankanna skuli síðan mergsjúga lántakendur miskunnarlaust, að kosin sé ríkisstjórn vegna kosningaloforða sem síðan eru aldrei efnd. Allir þessir atburðir sýna glöggt hversu almenningur er valdalaus og berskjaldaður fyrir valdhöfunum.

Þessu viljum við breyta.

Við sem komum að myndun nýs stjórnmálaafls sem ber vinnuheitið Breiðfylkingin höfum reynt að tileinka okkur lýðræðið. Þess vegna var Breiðfylkinign ekki búin til um eina helgi heldur hefur ferlið verið langt og opið. Mikil umræða, margir fundir um ýmis álitmál. Notast hefur verið við forskrift Lýðræðisfélagsins Öldunnar við gerð laga þessa stjórnmálaafls. Kjarninn í lýðræðinu er að dreifa valdi og er það staðfastur ásetningur Breiðfylkingarinnar að koma valdinu betur fyrir hjá almenningi þannig að ekki sé hægt að ráðskast með þjóðina nema að leita samþykkis hennar áður. Við teljum að fjöldi hugsandi einstaklinga á Íslandi takmarkist ekki við töluna 63 og þar kemur þú inn í myndina.

Lýðræði krefst þátttöku og felur í sér að maður verður að sýna sig og segja frá hvað maður vill eða vill ekki.

Við sem höfum unnið að myndun Breiðfylkingarinnar höfum starfað saman með einum eða öðrum hætti í mismunandi grasrótar- eða flokksstarfi allt frá hruni og sumir hverjir mun lengur. Við trúum því að hægt sé að breyta Íslandi til betri vegar og neitum að gefast upp fyrr en það er fullreynt. Við viljum því koma fram með þær lausnir sem við teljum að séu til bóta fyrir almening á Íslandi. Við teljum að almenningur sé reiðubúinn til að standa upp og breyta um stefnu. Hverfa frá stefnu lánadrottna og fámennisvalds framkvæmdavaldsins. Við teljum að almenningur vilji sjá raunverulegt lýðræði þar sem hann er spurður álits. Þar sem skuldsettir einstaklingar eru ekki fóður fyrir lánastofnanir heldur fullgildir einstaklingar í þjóðfélagi okkar. Að auðlindir allra landsmanna séu nýttar í þágu fjöldans en ekki fárra.

Til að kynnast þeim lausnum sem við höfum sett saman má lesa þær á viðkomadi síðu: https://www.facebook.com/events/123409491120508/

Hugmyndirnar eru ekki endanlegar og þess vegna viljum við að þú mætir og segir þitt álit og takir þátt. Við viljum sem breiðasta samstöðu á seinni stofnfundi Breiðfylkingarinnar þar sem margar hendur vinna gott og létt verk. Í raun er það algjörlega undir viðbrögðum almennings hvernig Ísland þróast á næstu árum, vertu því með og taktu þátt í móta framtíð barnanna sem munu landið erfa, það er einfaldlega skylda okkar.

Stofnfundur "Breiðfylkingarinnar" verður sunnudaginn 18. mars 2012, á Grand hótel í Reykjavík kl 14:00.

 


VERÐTRYGGINGIN ER AÐ KÆFA HEIMILIN

Forystumenn núverandi ríkisstjórnar, þau Jóhanna og Steingrímur, hafa margsinnis lofað að afnema verðtrygginguna. Þau hafa svikið það jafn oft. Verðtryggingin gagnast fyrst og fremst fjármagnseigendum og lánadrottnum. Hún gerir alla vandaða lánastarfsemi af hálfu lánadrottna óþarfa því þeir geta aldrei tapað á sínum lánum vegna verðtryggingarinnar. Að sama skapi setur verðtryggingin lánþegann í vonlausa stöðu því hann getur á engan hátt gert sér grein fyrir greiðslubyrðinni. Mér finnst í hæsta máta óeðlilegt að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferðarstjórn komi svona fram við lántakendur.


Það er nokkuð víst að það er enginn meirihluti fyrir afnámi verðtryggingarinnar á Alþingi að óbreyttu. Núverandi fyrirkomulag er að leggja þúsundir heimila í rúst. Ef fram heldur sem horfir munu fleiri heimili verða gjaldþrota með skelfilegum afleiðingum. Þrátt fyrir það vill Alþingi ekki koma heimilunum til bjargar.
Almenningur vill afnema verðtrygginguna. Það er  nauðsynlegt að við komum þeim skilaboðum  skýrt til Alþingismanna.

Borgarafundur verður haldinn í Háskólabíói mánudaginn 23. janúar þar sem verðtryggingin verður rædd og áhrif hennar á hag heimilanna. Verðtryggingin er að kæfa heimilin og það vita allir sem lifa við slíkt ástand. Nú er um að gera að hafa kröftugan fund því það er í okkar valdi að skapa þann áhuga hjá þingmönnum sem þarf til að þeir afnemi verðtrygginguna.

Lýsing
Borgarafundur þar sem staða lánþega verður í brennidepli. Auk reynslusagna verður farið í það hvernig verðtryggingin virkar og bent á lausnir.

 



FRAMSÖGUMENN Á FUNDINUM 23. jan.:

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt
Karl Sigfússon, verkfræðingur og millistéttarauli

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Pallborðið verður tvískipt en þar verða eftirtaldir:

PALLBORÐ I

Karl Sigfússon, verkfræðingur og millistéttarauli
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt
Sverir Bollason, skipulagsverkfræðingur

PALLBORÐ II

Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi
Marinó G. Njálsson, ráðgjafi
Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður VR

Fundarstjóri: Rakel Sigurgeirsdóttir
Pallborðsstjóri: Eiríkur S. Svavarsson


Nupo, peningarnir hans og Samfylkingin

Ein meginástæðan fyrir stuðningi margra landsmanna við Nupo eru peningarnir hans. Þeir voru nefndir erlend fjárfesting en hvað er erlend fjárfesting? Eru það peningar sem koma frá Kínverja eða einhverjum frá útlöndum? Þar sem íslenska ríkið er í miklum peningaskorti sem kemur fram í aukinn skattheimtu og niðurskurði er augljóst að aukið magn peninga er vel þegið. Vegna þess að Ísland skuldar mikið í erlendum peningum er gott að fá erlendan pening í kassann.

Peningar eru nauðsynlegur hluti af tilveru okkar. Peningar flytja verðmæti frá einum stað til annars og auðvelda þannig viðskipti með vörur sem er búið er að framleiða. Ef við framleiðum ekki neitt þá þurfum við ekki peninga. Í raun á framleiðslan að koma fyrst en síðan peningamyndun til að flytja verðmæti framleiðslunnar. Ef verktaki grefur skurð þá á hann erfitt með að taka skurðinn inn í Bónus og kaupa sér mjólk fyrir skurðinn, þess vegna þarf hann peninga.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga og þess vegna eru þeir svo takmarkandi.

Ef Ögmundur skildi peninga og vildi byggja ferðamannaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum þá myndi hann gera það sjálfur sem ráðherra. Hann myndi bjóða út verkið og þegar verktakanum miðaði áfram myndi Ögmundur(hið opinbera) búa til peningana sjálfur og afhenda verktkanum þá. Í raun væru peningarnir hans Ögmundar ekki greiðsla. Peningarnir hans Ögmundar væru verkfæri sem gerði verktakanum mögulegt að flytja verðmæti framleiðslu sinnar út í þjóðfélagið(samanber skurðinn og mjólkina). Þegar verktakinn væri búinn að versla sér aðrar vörur í Bónus með peningunum hans Ögmundar þá væri hann búinn að fá greitt fyrir framleiðslu sína með öðrum vörum, ekki peningum.

Greiðsla verktakans eru aðrar vörur sem aðrir framleiða í þjóðfélaginu.

Peningar gera þessi viðskipti einfaldari.

Þess vegna eru peningar verðlausir í sjálfu sér.

Þar sem bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga geta þeir skapað þær aðstæður með skuldsetningu sem veldur því að margir eru reiðubúnir að þiggja peninga hvaðan svo sem þeir koma og með hvaða afleiðingum sem er. Dæmið um Nupo fjallar í raun um það. Þar sem Ögmundur má ekki búa til peninga en vinir Nupo mega það, bankarnir, þá getur Nupo komið og keypt landið okkar.

Þar sem peningar eru verðlausir þá keppist bankavaldið og vinir þess  við að  kaupa sér raunveruleg verðmæti eins og Grímsstaði á Fjöllum. Aðstæður ráðamanna skapast því ekki af vinstri eða hægri pólitík, eingöngu þjónkun við bankaveldið eða þá vanþekkingu á því hvað peningar eru.

Lög landsins eru hluti af lýðræði okkar og ætlum við að láta bankavaldið og vini þess nauðga því.?


Mun Jón Bjarnason svara tilboði SÍF?

Föstudaginn 11. nóvember fóru fram mótmæli fyrir utan Sjávarútvegsráðuneytið. Samtök íslenskra fiskimanna stóðu fyrir þessum mótmælum. Mótmælendur vildu minna stjórnvöld á svikin loforð um að hætta að brjóta mannréttindi á íslenskum þegnum.  Sjómennirnir sætta sig ekki við níðingsverk íslenska ríkisins. Þeir fá ekki að stunda atvinnu sína nema að greiða stórfé til manna út í bæ. Sjómennirnir eru reiðubúnir til að greiða  sanngjarnt auðlindagjald fyrir fisveiðiauðlindina og þá til eigendans. Sjómenn vildu sýna vilja sinn í verki og afhentu Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra ákveðið tilboð í aflaheimildir fyrir hönd félagsmanna í S.Í.F.

Ég vil vekja athygli á þessu tilboði þar sem ég hef hvergi séð það í fjölmiðlum.Mér finnst það ábyrgðar hlutur að stjórnvöld láti hjá líða að svara þessu góða boði þar sem þetta er bæði sanngjarnt og ekki veitir af að auka tekjur ríkissjóðs. 

Tilboð Samtaka íslenskra fiskimanna:

 Stjórn Samtaka íslenskra fiskimanna S.Í.F óskar eftir , fyrir hönd félagsmanna sinna,að leigja til sín aflaheimildir og leggur því fram eftirfarandi tilboð sem tillögu að bindandi samningi.

Þorskur   10.000.000 kg  á 100 kr/kg.........................samtals 1.000 Mkr.

Ýsa          5.000.000 kg   á   75 kr/kg........................samtals     375 Mkr.

Ufsi          5.000.000 kg    á   50 kr/kg.........................samtals  250  Mkr.

 Heildarverðmæti samnings                 ........................samtals  1.625 Mkr

 

Almennt:     Aflaheimildir  þessar verða ekki bundnar við einstök skip, en öllum félögum í S.Í.F verður

                  heimilt að veiða samkvæmt skilmálum samningsins uns leigðu magni hefur verið landað.

Eftirlit :       Öllum afla verði landað til sölu á innlendum  fiskmörkuðum, en frjálst sé að landa í hvaða höfn

                  sem er.  Fiskistofa hefur eftirlit með framkvæmd samningsins, enda skal halda sérstaka

                  dagbók um veiðar samkvæmt þessum samningi.   

 

Gildistími samnings:   Frá undirritun samnings til og með 30. apríl 2012

 

Greiðslufyrirkomulag:  Leigugjald hvers róðrar verði dregin frá söluverði afla á markaði, einungis verði 

                                 greidd leiga fyrir landaðan afla.

                 

 

 


Bréf til ráðstefnugesta

 

Íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa boðað til ráðstefnu í Hörpunni fimmtudaginn 27.október. Þar munu fróðir menn ræða ástandið á Íslandi og hvernig til hefur tekist með samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég ásamt öðru góðu fólki taldi mikilvægt að þessir sérfræðingar fengju að heyra álit fólksins í landinu. Þess vegna tókum við okkur til og skrifuðum þeim þetta bréf. Þeir sem fá þetta bréf eru viðkomandi aðilar : Joseph Stiglitz, Poul Tomsen,Julie Kozach, Paul Krugman, Simon Johnson,Nemat  Shafik og Martin Wolf

 

Reykjavík 23. október 2011

Kæri herra/frú

Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Iceland´s Recovery-Lessons and Challenges, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næst komandi. Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.

Almennt

Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.

Ríkisfjármálin

Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011. Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með. Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.

Sveitarfélög

Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.

Fjármálakerfið

Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet. Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra. Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.

Almenningur

Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman. Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.

Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir. Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.

Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og margir hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum. Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort sem er. Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli árið 2010.

Niðurstaðan

Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því mjög undarlega á almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að byggja upp raunhagvöxt samfélagsins. Byrðum fjármálakreppunnar hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsett heimili. Ríkisstjórnin hefur markvisst unnið gegn almennri leiðréttingu lána og innleitt sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum sjálfdæmi varðandi það hverjir fá leiðréttingu og hversu mikla. Flest ef ekki öll úrræði við skuldavanda heimila og smærri fyrirtækja hafa miðast við að viðhalda greiðsluvilja.

 

Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa skapað aukna misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ullu hruninu. Þessir halda líka fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn sitja uppi með forsendubrestinn. Því er svo komið að óréttlætið ógnar félagslegum stöðugleika í landinu. Kjörnir fulltrúar fara eftir kröfum fjármálaaflanna á kostnað hagsmuna almennings.

 

Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins.

 

Virðingarfyllst,

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásta Hafberg, nemandi í viðskiptastjórnun

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri

Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður

Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent

Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur

Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður

Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi

Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur

Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur

Helga Þórðardóttir, kennari

Indriði Helgason, rafvirki

Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir

Þórarinn Einarsson, aktívisti

Þórður Á. Magnússon, framkvæmdarstjóri

Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni: Iceland´s Recovery-Lessons and Challenges sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október

 

 


Eru skuldarar réttdræpir

Ég vil vekja athygli á mjög athyglisverðum borgarafundi í Háskólabíói mánudaginn 26. september kl. 20. Þessi fundur verður vonandi upphafið af andstöðuvori á þessu hausti. Sú niðurstaða byggist reyndar á okkur sjálfum.

Frummælendur verða Sturla Jónsson sem hefur lúslesið lagasöfn landsins sem snúa að lántökum og meðrferð slíkra mála. Við þann lestur hefur hann uppgötvað ýmis lögbrot sem framin eru á lántakendum.  Honum hefur gengið erfiðlega að fá góð gagnrök við fullyrðingum sínum hjá lærðum. Þess vegna er m.a. boðað til þessa fundar til að ræða þessi máli. Ennþá hefur ekki tekist að fá meðmælenda við beitingu núverandi laga og stefnir í að niðurstaðan verði að á Íslandi fari menn ekki eftir lögum heldur hefðum.

Jóhannes Björn, rithöfundur og höfundur bókarinnar Falið Vald, mun ræða um fjármálkerfið, spillinguna og klikuskapinn og skýra væntanlega fyrir okkur á hverju beiting laga nærist á Íslandi. Björn Þorri Viktorsson Hæstaréttarlögmaður sem hefur látið til sín taka varðandi lánamál heimilanna mun segja okkur frá sinni sýn á þessi mál. Ragnar Þór Ingólsfsson stjórnarmaður í VR hefur ígrundað lífeyrissjóðakerfið okkar og hagsmunatengslin í kringum það kerfi. Hann mun fræða okkur um það og hlutverk lífeyrissjóðakerfisins sem lánadrottins á Íslandi.

Fundurinn verður örugglega mjög merkilegt innlegg í umræðu dagsins. Hann fjallar um hagsmunamál allra lántakenda og réttarstöðu þeirra. Hann gæti orðið upphafið að syllu sem ekki gefur eftir í baráttu þeirra sem finnst að réttur hafi verið brotinn á sér sem lántakenda á Íslandi.

Mætum og sýnum borgarlega virkni.

 

 borgarafundur_26_09_2011.jpg

 

Undirskriftasöfnun Hagsmunasamtök Heimilanna.


Icesave-ælan

 Þessa grein sendum við Rakel Sigurgeirsdóttir á Pressuna fyrir nokkru en hún hefur ekki enn þá ekki birst svo við birtum hana á blogginu okkar.

 

Æla er magainnihald sem líkaminn hefur ákveðið að losa sig við vegna þess að það er líkamanum skaðlegt. Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður, hefur líkt Icesave við ælu en ætlar samt að kyngja henni. Gunnar Tómasson, hagfræðingur, telur aftur á móti að hún sé best komin í dallinum.

Gunnar skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominiques Strauss-Khan og forseta Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuels Barrosos. Við vorum ellefu sem skrifuðum undir þetta bréf.  Þar bendir Gunnar Tómasson á að Icesave-ælan gæti reynst þjóðinni hættuleg.

Í bréfinu kemur fram að horfur Íslands séu verri en menn gerðu ráð fyrir við gerð hinna svokölluðu Brussels-viðmiða í nóvember 2008. Þar var gert ráð fyrir að taka ætti tillit til efnahagsaðstæðna Íslands við gerð Icesave-samninganna.

Nú hefur komið fram að á næstu árum verða tekjur landsins minni og skuldir hærri en gert var ráð fyrir. Gunnar Tómasson bendir á að í núverandi Icesave-samningi er ekki tekið mið af þessu staðreyndum. Álit sitt byggir hann á nýútkominni skýrslu AGS. Hann vann þar árum saman og skilur því manna best tungutak þeirrar stofnunar.

Gunnar bendir á þá staðreynd að skuldir Íslands eru það miklar að ekki er hægt að standa við Icesave-samninginn. Hann bendir  reyndar á að skuldirnar gætu vel verið ósjálfbærar og það án Icesave. Þess vegna telur Gunnar Tómasson að Icesave-ælan sé best komin í dallinum og ekki sé á það hættandi að kyngja henni. Timburmennirnir eftir fylliríið fyrir 2008 eru Tryggva Þór hins vegar svo þungbærir að honum virðist Icesave-ælan jafnvel svalandi.

Að ætla okkur hinum að kyngja ælunni með honum er engan veginn við hæfi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband