Dögun og Borgarbanki

Dögun í Reykjavík er að bjóða fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum. Dögun er róttækt umbótasinnað afl sem vill fara nýjar leiðir. Eitt af stefnumálum okkar er að stofna banka í eigu borgaranna. Hingað til hafa bankar á Íslandi stundað spilavítishegðun og almenningur hefur brennt sig illa á bankastarfsemi eins og bankahrunið 2008 er mjög skýrt dæmi um. Í stuttu máli þá fór gróðinn til einkaaðila en tapið til skattgreiðenda. Því viljum við í Dögun breyta.

Við viljum að Reykjavíkurborg stofni Borgarbanka. Þetta er ekki ný hugmynd og við erum ekki að finna upp hjólið. Í Bandaríkjunum í fylkinu Norður Dakóta á fylkið bankann og hann var stofnaður 1919. Þeim banka er bannað að fjárfesta í viðsjárverðum gjörningum og er því eingöngu viðskiptabanki. Hann er auk þess samfélagslegur því hann styður við starfsemi sem venjulegir bankar hafa ekki áhuga á. Bankahrunið 2008 hafði lítil sem engin áhrif á hann því hann var ekki með nein eitruð epli í farteskinu.

Þessi fylkisbanki í Norður Dakóta hefur verið góð mjólkurkýr fyrir fylkið. Sá hagnaður sem þessi banki hefur skapað hefur runnið í sjóð fylkisins og hefur stundum verið svo mikill að þeir hafa getað lækkað skatta. Við í Dögun viljum gera slíkt hið sama. Þannig viljum við m.a. fjármagna starfsemi Reykjavíkurborgar. Við teljum að hagnaður af bankarekstri sé ekki einkamál einkaaðila heldur eigi að nýta hagnaðinn almenningi til hagsbóta.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband