Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Hvernig við ætlum að berjast við vandamál framtíðarinnar-XF.IS

Sveitastjórnarkosningar verða 29 maí en þær verða ákveðinn prófsteinn fyrir þjóðina. Vaxandi vantrú gætir hjá almenningi til stjórnmála og er það í raun mjög skiljanlegt. Við verðum þó að velja okkur fulltrúa og núna þurfum við að vanda valið.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki gengið fyrir mútum eins og ráðandi stjórnmálaöfl. Frjálslyndir eru ekki nefndir á nafn í rannsóknarskýrslu Alþingis í tengslum við eitthvað misjafnt atferli. Bókhald flokksins hefur frá upphafi verið opið.

Mikil endurnýjun hefur átt sér stað í flokknum, ný forysta valin og margir nýir félagsmenn bæst í hópinn. Við komum því til leiks með hreinan skjöld.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur mælt með kröftugum niðurskurði sem lendir oftast á velferðarmálum. Frjálslyndi flokkurinn hafnar þessari leið og ætlar að verja velferðina.

Með vaxandi fátækt er hætta á því að sum börn eigi þess ekki kost að njóta máltíða með skólasystkinum sínum. Þess vegna vill Frjálslyndi flokkurinn innleiða gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Reynslan hefur kennt okkur að borgararnir þurfa meiri völd, ekki bara á fjögurra ára fresti. Því teljum við að 10% kosningabærra mann geti farið fram á kosningu um mikilvæg málefni. Salan á HS orku er eitt slíkt dæmi. Auk þess teljum við að gagnsæi þurfi að vera algjört þegar fulltrúar okkar sýsla með fjármuni almennings. Það þarf að vera auðvelt að rekja öll útgjöld og hver ber ábyrgð á þeim.

Reykjavíkurborg verður að auka mannaflsfrekar framkvæmdir til að hemja atvinnuleysið. Sjávarútveg og iðnað þarf að efla og samtímis að skapa aukin verðmæti með þekkingu og nýsköpun. Orkuveita Reykjavíkur er því miður mjög skuldug og leita verður allra leiða að halda OR í eigu Reykvíkinga. Frjálslyndi flokkurinn telur mjög brýnt að óháð rannsóknarnefnd rannsaki sveitarstjórnarstigið.


Ræða mín í dag á Austurvelli.

Alþingi götunnar 24 apríl 2010.

Kæru þingmenn götunnar,

Vonandi munu laukarnir  hér á Austurvelli bera tilætlaðan ávöxt!

Örfáir útrásar og bankadólgar ásamt spilltum stórnmálamönnum hafa komið okkur á kaldan klakann.         Þessir menn unnu myrkraverk sín í reykfylltum bakherbergjum.

Þetta höfum við fengið staðfest í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þetta létum við gerast vegna þessa að því var haldið að okkur að hér væri allt best og við ættum bara að njóta og taka þátt í veislunni.      Þeir sem voguðu sér að gagnrýna þessa sukkveislu voru kallaðir kverúlantar.

Hvernig er komið fyrir okkur í dag . Megum við fylgjast með og hafa skoðun á því sem stjórnvöld eru að sýsla án þess að vera gerð tortryggileg. Hvernig er með gagnsæið ?

Á síðustu vikum hefur það orðið augljóst að samstarf ríkisstjórnar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer fram fyrir luktum dyrum. Eingöngu nokkrir Íslendingar semja við sjóðinn og okkur er síðan kynntur gerður hlutur. Þetta segir okkur að stjórnarhættir hafa ekkert breyst á Íslandi. Við sitjum enn í sömu súpunni, það eru bara Jóhanna og Steingrímur í stað Geirs og Ingibjargar.

Núna hafa þau skrifað undir viljayfirlýsingu sem ég vil fjalla aðeins um. Í henni kemur meðal annars þetta fram;

Eftir sumarið  mun Ríkisstjórn Íslands ekki bæta við neinum úrræðum til viðbótar, handa skuldsettum Íslendingum.  

Eftir sumarið verða skuldsettir Íslendingar að bjarga sér sjálfir.

Þetta eru fyrirmæli Alþjóðafgaldeyrissjóðsins og ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur skrifað upp á að hún muni framfylgja þeim .

Hver er raunveruleikinn?

Þúsundir heimila ná ekki endum saman um hver mánaðarmót. Fjöldi einstaklinga sem tilheyrðu miðstétt færast nú yfir í stétt fátækra. Þessi þróun hefur verið vaxandi frá hruni og mun aukast.

Í haust mun öllum frystingum eða frestunum á greiðslum skulda verða lokið. Þá mun veruleikinn sýna sig. Þá mun koma í ljós hverjir geta staðið í skilum og hverjir ekki.

Samkvæmt AGS á að senda þá sem ekki geta staðið í skilum hratt í gegnum þrotameðferð. Hugsanlega munu margir sem kjósa ekki gjaldþrot flytja úr landi, eignalausir, en enn skulda bankanum sínum og þurfa að halda áfram að borga svikabankanum á Íslandi .        Þökk sé Steingrími, Jóhönnu og AGS.

Þetta eru kröfur AGS. Þetta þarf að gerast til þess að excel skjöl þeirra gangi upp.

Það er augljóst að lyklafumvarp Lilju Mósesdóttur  á engan tilverurétt í plönum AGS. 

Það er augljóst að það er enn verið að teyma okkur áfram á asnaeyrunum. AGS, ESB, ríkisstjórnin eða Alþingi eru engir frelsandi englar. Allir þessir aðilar virðast tala máli lánadrottna gegn lántakendum.

Alþingi götunnar talar máli lántakenda auk nokkurra lausagangskatta á Alþingi. Núna verður slíkum köttum að fjölga úr öllum flokkum. Að öðrum kosti munu excel skjöl Alþjóðagjaldeyrssjóðeins ráða hér öllu á landinu okkar.

Hvernig líður börnunum okkar í excel skjölum lánadrottnanna.

Þau eiga sér drauma, um heimilið sitt sem foreldrar þeirra skópu. Um nærumhverfið, vinina, skólann, leikvöllinn og framtíð sína sem íslenskir borgarar. Hvað hafa þau til saka unnið.

Hvaða máli skiptir þessi börn að lánadrottnar heimsins  vilja fá  allt sitt endurgreitt. Eiga þessi börn að gjalda þess að foreldrar þeirra trúðu svikulum kosningaloforðum? Áttu foreldrarnir að sjá í gegnum Steingrím til að geta skapað börnum sínum lífvænlega framtíð. Hvers eiga þessi börn að gjalda?

Fórnarkostnaður íslenskra barna er sá sami og margra annarra í þessum heimi.

Stærsti hluti barnadauða heimsins stafar af ofurskuldsetningu þjóða  sem spilltir  stjórnmálamenn hafa orsakað.

 

 

Ef börn í landi okkar búa svo illa að foreldrar þeirra ná ekki endum saman,

ef ekki er hægt að sinna nauðþurftum þarf eitthvað að gera.

Sem foreldri, ef barn þitt er svangt, á ekki möguleika á fötum eða öðrum nauðsynjum þá þarft þú að gera eitthvað í málinu.

Ef heimilið er sett í þrot, fjölskyldan sprengd og sundruð þá þurfa foreldrar að gera eittthvað.

Foreldrar, tilgangur ykkar er að koma afkvæmum ykkar á legg og gera þau að góðum og gegnum þjóðfélagsþegnum .

Foreldrar, berjist fyrir börnin ykkar.  Berjist en án baráttu  mun ekkert breytast!!


Stjórnmálayfirlýsing Frjálslynda flokksins mars 2010

Stjórnmálayfirlýsing Frjálslynda flokksins mars 2010

Því verður ekki á móti mælt að ef stefna Frjálslynda flokksins hefði orðið ofan á við stjórn landsins á síðasta áratug, þá stæði þjóðin nú í allt öðrum og miklu betri sporum.  Frjálslyndi flokkurinn barðist gegn einkavinavæðingunni, verðtryggingunni, skuldsetningu þjóðfélagsins og illræmdu kvótakerfi sem brýtur í bága við mannréttindi.

Eina leiðin fyrir Íslendinga út úr þröngri stöðu er að auka framleiðslu og gjaldeyrisöflun en alls ekki að fara leið AGS og Fjórflokksins um stóraukna skuldsetningu, niðurskurð og hækkun skatta.  Við endurskoðun efnahagsáætlunar AGS verði tekið mið af íslenskum raunveruleika. Beinasta leiðin við öflun aukins gjaldeyris er að gera betur í þeim atvinnugreinum sem þjóðin gerir vel í s.s. sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað rökstutt að hægt sé að ná miklu mun meiri verðmætum í sjávarútvegi án aukins kostnaðar með því að fiskur fari á frjálsan markað, taka í burt hvata til brottkasts, veiðiheimildir verði auknar verulega og bæta nýtingu.  Möguleikar ferðaþjónustunnar eru ótæmandi enda er landið fagurt og gott en almennt glímir atvinnugreinin líkt og aðrar við gríðar háa vexti sem verður að lækka. Nauðsynlegt er að samningar um stóriðju verði gagnsæir og tryggi úrvinnslu afurða. Ýta á  undir almenna nýsköpun í smáu sem stóru í;  líftækni, tækni, landbúnaði og þjónustu. Horfa skal til skynsamlegra lausna óháð kreddum,  við eflingu atvinnulífs s.s. að tryggja iðnaði og garðyrkjubændum rafmagn á hagstæðu verði.

Kreppa er staðreynd á Íslandi en hún er skilgetið afkvæmi sambúðar spilltrar stjórnmálastéttrar og fjárglæframanna.  Frjálslyndi flokkurinn hafnar því að afleiðingarnar af henni lendi með fullum þunga á þeim sem síst skyldi og eiga enga sök. Fjármagnseigendum var bættur strax skaðinn en skuldugur almenningur látinn blæða og blæðir enn.

Allir eiga rétt á mannréttindum og viðunandi lífskjörum til verndar heilsu og vellíðan.  Stöðva verður að fólk sé hrakið út af heimilum sínum sökum; kreppunnar, verð- og gengistryggðra lána. Tryggja verður sanngjarna lausn, lágmarksframfærslu og að sérstök áhersla verði lögð á aðbúnað þeirra sem erfa munu landið.  Endurskoða þarf samspil álagningar skatta og beitingu skerðingarreglna hjá Tryggingarstofnun svo tryggja megi eldri borgurum, öryrkjum og atvinnulausum viðunandi lágmarks laun.

Staða mála í íslensku samfélagi kallar á endurmat á skipulagi samfélagsins  og á það jafnt við um stjórnskipan  og samkrull hagsmunasamtaka.  Frjálslyndi flokkurinn hvetur fólk til virkari þátttöku í kjarabaráttu en verkalýðsforystan er orðin verulega höll undir Fjórflokkinn og  á í óskiljanlegu samkrulli við Samtök atvinnulífsins.  Minni atvinnurekendur og nýliðar í rekstri eiga lítið skjól í SA sem virðast telja það heilaga skyldu að viðhalda óbreyttu kerfi sérhagsmuna. 

Frjálslyndi flokkurinn hefur frá stofnun lagt áherslu á að landið verði eitt kjördæmi.   Ráðherrar skulu víkja af þingi til þess að skerpa á þrískiptingu valdsins.

Frjálslyndi flokkurinn lýsir yfir stuðningi við þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, að vísa þeirri ákvörðun til þjóðarinnar, hvort að þjóðin eigi að greiða skuldir óreiðumanna. Frjálslyndi flokkurinn er fylgjandi beinu lýðræði. Þjóðaratkvæðagreiðslur færa valdið til þjóðarinnar  frá stjórnmálastétt sem bundin er á klafa þröngra sérhagsmuna. 

Tryggja skal rétt minnihluta þingsins til  þess að vísa málum til þjóðarinnar en það leiðir til þess að leiðtogar stjórnarflokka sem ráða sínu þingliði verði ekki einráðir við lagasetningu

Sömuleiðis er það krafa að 10% atkvæðisbærra  manna geti með undirskrift hjá opinberu embætti, s.s. sýslumanni eða ráðhúsi, látið fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál.  Sömuleiðis skal halda í málskotsrétt forseta Íslands.

Festa skal í sessi að stjórnlagaþing verði kallað saman á 25 ára fresti til þess að  tryggja að grundvallarlög lýðveldisins verði tekin til endurskoðunar fjórum sinnum á öld.

Við hrunið hafa mikilvægustu stofnanir landsins misst trúverðugleika sinn og fer Hæstiréttur ekki varhluta af því. Grundvöllur þess að bæta þar úr er að það ríki almenn sátt í samfélaginu um skipan dómara að tilnefning dómsmálaráðherra þurfi samþykki aukins meiriluta Alþingis

Bæta þarf vinnubrögð Alþingis m.a. svo að fundir þingnefnda verði í  heyranda hljóði en það tryggir opin og lýðræðisleg vinnubrögð.

Standa skal vörð um að háskólar og fjölmiðlar ræki hlutverk sitt sem miðstöð og miðlun gagnrýnar hugsunar en mikið hefur skort þar á.  Frjálslyndi flokkurinn leggur til að Háskóli Íslands þiggi ekki stöður eða styrki til einstakra embætta, heldur verði styrkjum veitt í einn pott sem úthlutað verði til rannsókna.  Það yrði til þess að sérhagsmunaöfl, s.s. LÍÚ, geti ekki búið áróður í fræðilegan búning og gengisfellt  háskólastarf.  Tímabært er að taka aðferðir Hafró til gagngerrar endurskoðunar. Uppbygging fiskistofnanna  síðustu áratugina hefur ekki gengið eftir, enda stangast aðferðir Hafró á við viðtekna vistfræði.

Frjálslyndi flokkurinn mun setja sér siða- og umgengnisreglur sem fela m.a. í sér að frambjóðendur undirriti drengskaparheit um að láta af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn ef viðkomandi verður viðskila við hann.

Nú í niðursveiflunni,  er talsverður vandi að afla fjár í gegnum skattkerfið til þess að halda uppi samfélagslegum gæðum  á borð við; menntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, trygga lágmarksframfærslu o.s.f. Hætt er við að aukin skattheimta skrúfi efnahagslífið í enn frekari niðursveiflu og því mikilvægt að fara varlega í skattahækkanir. 

Ísland ætti í ljósi biturrar reynslu  vafasamra fjármagnsflutninga að verða leiðandi á alþjóðavettvangi um upptöku Tóbínskatts á fjármagnsflutninga á milli landa. 

Ekki verður séð að Ísland eigi nokkuð erindi inn í ESB, en sambandið er hvorki vont né gott í eðli sínu heldur stórt hagsmunatengt stjórnkerfi. Sérstaklega í ljósi fiskveiðistefnu sambandsins og harðneskjulegrar afstöðu í garð Íslendinga í kjölfar bankahrunsins.

Íslenska þjóðin getur átt bjarta framtíð en þá verður hún að þora að losa sig úr viðjum séhagsmunabandalaga og vinna sameinuð að aukinni verðmætasköpun og atvinnu í landinu.


YFIRLÝSING ALÞINGIS GÖTUNNAR

Yfirlýsing Alþingis götunnar.

Við erum hér saman komin í dag til að stofna Alþingi götunnar.

Hagsmunir fjármagnseigenda og innanbúðarmanna hafa ráðið för á Íslandi eftir hrun eins og fyrir hrun. Hagsmunir almennings hafa ekki hljómgrunn hjá stjórnvöldum nema í aðdragenda kosninga.

Kjör aldraðra, öryrkja og fatlaðra voru skorin niður strax. Skuldsetning heimila og fyrirtækja er látin vaxa óáreitt, með gjaldþrotum og nauðungaruppboðum. Launakjör skorin niður, uppsagnir og skattahækkanir. Allt kunnulegir fylgifiskar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þegar kemur að kreppulausnum.

Þeir sem djarfast spiluðu á útrásartímanum, halda gróðanum en tapið er lagt á herðar almennings.

Stjórnlagaþing, lýðræðið, rödd og vald almennings er haft að háðung og spotti.

Hingað og ekki lengra, okkur er nóg boðið. Öll helstu kosningaloforðin svikin. Hvers vegna erum við gleymd daginn eftir kjördag? Erum við engin ógn við notalega tilveru ykkar í glerhúsinu? Baksvipur ykkar finnst okkur kuldalegur.

Við fylkjum liði með almenningi sem flykkist út á göturnar víða um heim, í Grikklandi, í Lettlandi og höfnum því að gróði nýfrjálshyggjunnar sé einkavæddur en tapið þjóðnýtt.

Þess vegna stofnum við Alþingi götunnar, til að snúa ykkur við í roðinu, til að þið hlustið á okkur, okkur sem kusum ykkur á þing. Valdið er okkar, þegnanna. Þið starfið í umboði okkar. Þannig er lýðræðið, er einhver týra logandi hjá stjórnvöldum eða var enginn að gæta eldsins?

Við krefjumst þess að höfuðstóll lána sé leiðréttur, verðtryggingin afnumin, skuldir fyrnist við þrot, þeir sem bera ábyrgð á kreppunni axli líka birgðarnar en ekki bara við skilvísir Íslendingar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendur úr landi og manngildið sett ofar fjármagninu, auðlindir landisns verði í ævarandi eigu þjóðarinnar og að við fáum verkfæri til að hafa hemil á ykkur, þingmönnum okkar.

Þetta er hlutverk Alþingis götunnar. Ég set hér með Alþingi götunnar og lýsi yfir stofnun þess hér á Austurvelli 6. mars árið 2010. Alþingi götunnar er hér með sett.

Declaration of the Parliament of the people.

We are gathered here today to assemble the Parliament of the people

Before and after the finance crash in Iceland, the interest, the needs of the finance world have been first priority of our governments. The politicians have not been looking after the interest of their employer, the people of Iceland, except in the time up to elections.

For the old and handicapped this has meant that all state support has been cut down drastically. Mortgages and loans on homes and smaller businesses have been growing out of proportions until an auction is the only solution. Wages are cut, taxes higher and layoffs are happening regularly. All those things are known consequences following the”help” that the IMF provides to nations in need.

The ones, who played the boldest game in the finance wonder, keep the profit while the loss rolls over on the shoulders of ordinary people.

Our hopes for a new constitution and a real democracy, the voice and the power of the people are only met with a sardonic grin.

Now we say stop, here and not further, we have had enough. All the promises of our politicians have been broken. Why are we forgotten the day after an election? Are we no threat to your being? We don’t like that you give us a cold shoulder.

We, like the people in Greece and Latvia, take the streets and say no to the privatization of neo libarism failures while the losses are pulled over the heads of ordinary people.

By that reason we conduct the Parliament of the people. We want you to listen to us, us the people who voted for you, your employers. The power lies by us. That is democracy

We demand that loans and mortgages will be lowered to a reasonable amount, that by a auction the rest debt is zeroed out, that the people who hold the main responsibility for the finance crash shoulder the burden of it, not with us who always worked and paied. We demand the departure of the IMF and that people will be valued higher than profit and money. We demand that our recourses will be forever the property of the Icelandic nation and that we will be given tools to keep you on track, our politicians.

Those are the goals of the Parliament of the people. I hereby declare the foundation of the Parliament of the people Austurvöllur 6th of March 2010.

 

 

 


Sameinumst um að kjósa EKKI aftur þá þingmenn sem samþykkja Icesave

Við erum 70% þjóðarinnar sem viljum ekki Icesave. Við munum ekki gleyma þeim þingmönnum sem samþykkja þessi lög gegn vilja okkar. Nöfn þeirra verða skráð okkur til áminningar og upprifjunar. Þeir setja lánadrottna skör hærra en þjóðina sína. Því munum við aldrei kjósa þá aftur.
mbl.is Icesave á Alþingi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frásögn af fundi í Seðlabanka Íslands 4 desember 2009

Frásögn af fundi í Seðlabanka Íslands 4 desember 2009.

Fundur með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Franek og Flanagan, með hóp Íslendinga sem sent hafa Strauss-Kahn bréf.

Fundinn sátu fyrir hönd íslenska hópsins: Gunnar Sigurðsson, Heiða B.Heiðarsdóttir, Ásta Hafberg, Einar Már Guðmundsson, Helga Þórðardóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Lilja Mósesdóttir, Elías Pétursson, Ólafur Arnarson.

Fundurinn sem stóð í tæpar tvær klukkustundir var að sumu leyti upplýsandi og þökkum við fulltrúum AGS fyrir hann.

Eftirfarandi grundvallaratriði voru tekin fyrir. Farið var kerfisbundið í gegnum neðantalin atriði á fundinum. Lögð voru fram gögn máli okkar til stuðnings. Reynt var með öllum ráðum að fá fram skýr svör byggð á staðreyndum.

1. Að vöruskiptajöfnuður Íslands verði jákvæður um það bil 160 milljarða á ári næstu tíu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum hvernig þetta gæti orðið að veruleika.

2. Að tekjur ríkisins aukist um 50 milljarða á ári næstu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum að þetta væri mögulegt.

3. Að landsframleiðsla aukist næstu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum að þetta væri mögulegt.

4. Hversu hátt skuldaþol Íslands af vergri landsframleiðsu getur orðið? Flanagan snéri sig út úr því og gaf ekki skýrt svar.

 

Fyrrnefnd grundvallaratriði eru forsendur þess að áætlun AGS gangi upp. Okkar mat er að engar forsendur séu til staðar svo viðkomandi grundvallaratrið verði að raunveruleika. Af því leiðir að áætlun AGS er brostin. Flanagan tókst ekki að hnika til sannfæringu okkar. Því miður þá sjáum við ekki neina vitglóru í áætlun AGS.

Flanagan tókst ekki að hrekja gagnrýni okkar á sannfærandi hátt ‚óþægilegar spurningar leiddi hann hjá sér.

 

 

 

1.      Vöruskiptajöfnuður.

 

Við bentum á að í sögulegu samhengi væru engin fordæmi fyrir jákvæðum vöruskiptajöfnuði í þessu magni í svo langan tíma. Eini raunhæfi möguleikinn er að minnka innflutning verulega.

Flanagan taldi ekki gagnlegt að bera fortíðina saman við framtíðina. Flanagan telur fortíðina ekki í raun ekki marktæka vegna hinna miklu breytinga sem hrunið hefði í för með sér á tekjustoðum landsins. Við bentum honum á að fyrir bankabólu þá hefðum við verið með hagkerfi sem líktist því sem hann væri að lýsa, hann virtist ekki telja það eiga við.  Hann taldi að kreppan myndi leiða til langvarandi jákvæðs viðskiptajöfnuðar, sem stenst ekki í sögulegu samhengi. Hann gat ekki bent á neinar áætlanir sem gætu skapað þennan vöruskiptajöfnuð. Hann ræddi ekki um minnkun á innflutningi. Hann taldi kvótakerfið koma í veg fyrir aukin útflutning á fiski í tonnum talið. Einhver óljós orð hafði hann um orkufrekan iðnað.

Niðurstaðan eftir að hafa hlustað á hann var sú að hann taldi þetta gerast, en gat ekki skýrt hvernig.

 

Síðar á fundinum hrökk upp úr Flanagan hvernig vöruskiptajöfnuðurinn er fenginn. Skuldir  Íslands voru lagðar saman og síðan var vöruskiptajöfnuðurinn stilltur af þannig að Ísland gæti staðið í skilum. Þetta er vel þekkt aðgerð í Excel forritinu og kallast „goalseeking“

 

2.      Tekjur ríkisins.

 

Flanagan nefndi auknar skatttekjur. Við bentum honum á að árið 2008 hefði verið eitt besta skattaár Íslands sögunnar. Forsendur til að afla mikilla skatta á árinu 2008 voru einstaklega hagstæðar. Þær forsendur eru brostnar að okkar mati í dag. Bankarnir hrundu, laun hafa lækkað, atvinnustarfsemi í lágmarki o.sv.fr. Hvernig við getum gert ráð fyrir að fá jafngóðar skatttekjur árið 2010 og árið 2008? Þar að auki hvernig eiga skatttekjur að aukast um 50 milljarða á hverju ári í mörg ár. Flanagan hafði ekkert svar við því. Hann gat ekki skýrt út fyrir okkur hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu.

 

3.      Landsframleiðslan.

Flanagan var spurður út í áætlanir þeirra varðandi vöxt landsframleiðslu, hann taldi þær varlegar. Hann var spurður út í hvernig þessar áætlanir voru gerðar, svör virðast benda til þess að þar sé um svipaða „EXCEL“ aðferðafræði og í öðrum áætlunum þeirra. Flanagan sagði einnig að ljóst væri að Ísland þyrfti að breytast úr þróuðu þjónustusamfélagi í framleiðslu þjóðfélag með áherslu á útflutning. Þessu mundi sjá stað á næstu misserum í mjög minnkandi hlut verslunar og þjónustu til innanlandsnota í veltu samfélagsins.

 

 

4.      Skuldaþol sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

 

Var rætt nokkuð og taldi hann möguleika á að Ísland stæðist hærra skuldaþol að gefnum vissum forsendum. Sú forsenda var að eignir væru fyrir hendi, virtist í máli hans litlu skipta þó þær eignir væri ekki endilega í eigu þeirra sem skulda. Bentum við honum á að td eignir lífeyrissjóðanna væru ekki aðgengilegar, lífeyrissjóðirnir væru eignir fólksins en ekki eignir ríkis né fyrirtækja. Þessi ábending virtist skaprauna Flanagan. Hvort það er vegna þess að þetta voru nýjar upplýsingar fyrir honum eða þá að hann vissi að ekki væru til neinar eignir hjá lífeyrissjóðunum til ráðstöfunar upp í skuldir, var ekki ljóst.  Hann taldi að erlendar eignir lífeyrissjóðanna væru gjaldeyrisskapandi, og virtist telja að sá gjaldeyrir væri til ráðstöfunar fyrir ríkið. Hvernig hann kemst að þessari niðurstöðu er óljóst.

 

 

Önnur atriði sem komu fram á fundinum:

 

Mjög mikil hætta á fólksflótta, Flanagan hafði áhyggjur af því. Hann telur að ekki sé hægt sé að gera mikið við því.

 

Flanagan sagði að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að skera ekki niður norræna velferðarkerfið. Það kom fram að það væri ekki stefna AGS.

 

Hann taldi að gengi íslensku krónunnar myndi ekki batna næstu tíu árin. Af því leiðir að lán Íslendinga í erlendum gjaldeyri munu ekki skána neitt næstu 10 árin. Af því leiðir líka að sú kjaraskerðing sem til er kominn vegna gengisfalls er kominn til að vera. Sem gæti leitt til þess að Ísland verði láglaunaríki sem framleiði hráefni og lítt unna vöru fyrir betur stæð lönd til fullvinnslu. Svolítið svona þriðja heims dæmi...

 

Það er á dagskrá stjórnar AGS að koma til Íslands.

 

Flanagan fullyrti það að niðurstaða Icesave deilunnar væri ekki forsenda aðstoðar AGS.

 

Bretar, Hollendingar og Norðurlöndin hafi krafist of hárra vaxta á of skömmum tíma. Flanagan hélt því fram að AGS hefði komið þar að málum og fengið þessa aðila til að stilla kröfum sínum í hóf.

Flanagan fullyrti einnig að Svíar væru í forsvari Norðulandanna þegar kemur að málefnum Íslands og að þeir hefðu sett lausn Icesave-deilunnar á oddinn sem forsendu lánafyrirgreiðslu og aðstoðar.

 

Flanagan fullyrti að ríkisstjórnin ákveði sjálf hvernig niðurskurði og skattahækkunum sé háttað. Einnig ákveður ríkisstjórnin sjálf hversu langan tíma hún tekur í skatta- og niðurskurðaraðgerðir.

 

Einnig kom fram á fundinum að ef hægt væri að hnekkja neyðarlögunum þá yrðum Íslendingar opinberlega gjaldþrota sem ríki.

 

Þegar Flanagan var spurður hvar áætlun AGS hefði gefist vel þá nefndi hann bara Tyrkland. Reyndar stjórnaði hann aðgerðum þar. Spurningunni er því ósvarað hvort það er Flanagan sem er svona klár eða stefna AGS.

 

Flananagan var spurður hvort hann myndi búa áfram á Íslandi eða ekki ef hann væri Íslendingur. Hann svarði því til að ef hann væri Íslendingur í dag og hefði kost á atvinnu erlendis myndi hann flytja.

 

Til skýringar er hér mynd sem sýnir áætlanir SÍ og AGS um vöruskiptajöfnuð í sögulegu samhengi síðustu tíu ára


Þessir menn standa með okkur Íslendingum

 Mig langar til að vekja athygli ykkar á þessari frábæru grein sem þessir þrír heiðursmenn skrifuðu í hollenskt dagblað. Þetta er grein sem enginn má láta fram hjá sér fara. Mikið væri nú gott að fá þessa höfðingja til að aðstoða ráðamenn okkar við endurreisn Íslands.

 

Hér er greinin sem þeir Gunnar Tómasson, Michael Hudson og Dirk Bezemer skrifuðu í de Volkskrant

Er innheimta hlutverk ESB?

Ísland er prófsteinninn. Um það er ekki deilt að skuldir jukust langt úr hófi fram við „útlánavæðingu" síðustu áratuga. Á nýliðnu Greenspan tímabili var lánsfjármögnuð neyzla og síhækkandi verði fasteigna, hlutabréfa og annarra fjáreigna talin vera jafngildi „verðmætasköpunar". Við erum reynslunni ríkari núna. Verð fasteigna og hlutabréfa er hrunið en skuldirnar standa eftir. Núna, þegar bólan er sprungin, blasa við okkur tvenn viðfangsefni. Hvernig endurreisum við framleiðslukerfið eftir áralanga útlánavæðingu? Og hvernig gerum við upp skuldirnar?

Á því síðarnefnda er mikilvægur evrópskur flötur. Hvernig standa evrópuríki að innbyrðis skuldauppgjöri? Spurningin er sérstaklega mikilvæg fyrir minni ríki sem tóku lán í erlendri mynt og eru núna í miklum vanda. Lánardrottnar þeirra eru ríki sem gáfu bönkum lausan tauminn til að skuldsetja heilar þjóðir á gullöld „útlánavæðingarinnar". Afleiðingin blasir við í erfiðri skuldastöðu Íslands gagnvart Bretlandi og Hollandi, Lettlands gagnvart Svíþjóð, og Ungverjalands gagnvart Austurríki. Og dæmin verða væntanlega fleiri.

Vandinn er sá að stjórnvöld frumkvöðla „útlánavæðingarinnar" virðast fúsari til innheimtustarfa fyrir þá og aðra þegna sína en þátttöku í uppbyggjandi átaki við að leysa úr skuldavanda Evrópu og heimsins alls. Jafnframt reyna þau að fá alþjóðastofnanir til að leggja málstað þeirra lið með hótunum um að stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða innganga í ESB sé í veði. Það er eftirtektarvert að í almennri umræðu í Hollandi og víðar virðist vera litið á slíka fjárkúgun sem sjálfsagðan hlut væntanlega í ljósi þess að 'skuld er skuld'. Skuldarar hafa notið lífsins með okkar peningum og ber því að borga reikninginn, með ströngum aðhaldsaðgerðum ef svo ber undir.

            Þessi skýra og einfalda afstaða horfir fram hjá ýmsum óþægilegum staðreyndum.  Í fyrsta lagi hafa lánastofnanir hagnast vel á óhóflegri skuldsetningu þjóða.  Útreikningar fyrir Lettland sýna að tekjur erlendra banka af vöxtum og fasteignum voru hærri hvert ár frá 1995 til 2008 en sem nam lánum þeirra til Lettlendinga.  Það var því hreint útstreymi á fjármagnsreikningi.  Viðkomandi bankar (aðallega sænskir) hafa nú þegar hirt hagnað sinn en eftirláta Lettlandi áframhaldandi skuldagreiðslur.  Undir forsæti Svíþjóðar hvetur ESB til strangra aðhaldsaðgerða af Lettlands hálfu svo að komist verði hjá greiðslufalli.

Í öðru lagi er orsök vandans að hluta til hegðun banka og erlendra lánardrottna í aðdraganda kreppunnar. Nýlega voru birt skjöl sem sýna að stórir Kaupþingshluthafar stuðluðu að hruni bankans með úttekt á andvirði stórra ótryggðra lána til þeirra sjálfra. Aðgerðir Hollendinga og Breta voru ekki síður skaðlegar. Íslenzk stjórnvöld höfðu níu mánuði til að semja um uppgjör við innstæðueigendur skv. ESB tilskipun 94/19/EC. Það hefði hugsanlega leitt til farsællar lausnar ef hollensk og brezk stjórnvöld hefðu kosið að miðla málum. Í staðinn ákváðu þau að lítt hugsuðu máli að borga eigin ríkisborgurum út innstæður þeirra og sendu reikninginn, ásamt hótunum, til Íslands. Gordon Brown beitti jafnframt hryðjuverkalögum til að frysta reikninga sem féllu undir íslenzka lögsögu. Þar með glataðist að fullu það sem e.t.v. hefði mátt bjarga. Með hliðsjón af slíkri hegðun þvert gegn tilskipunum ESB er það hámark hræsni þegar hollenski utanríkisráðherrann Maxime Verhagen hvatti Ísland 21. júlí sl. að „sýna í verki að það taki ESB tilskipanir alvarlega".

Í þriðja lagi skal varast að láta sem hér sé um venjulega deilu milli lánardrottna og skuldara að ræða.  Fyrir Ísland líkt og Lettland snýst málið um það hvort komist verði hjá algjöru efnahagshruni.  Hagkerfið fer einfaldlega í greiðsluþrot ef innheimta á skuldina að fullu.  Verg landsframleiðsla Íslands 2008 var 12.3 milljarðar evra.  Vegna kreppunnar mun hún e.t.v. verða innan við 8 milljarða í ár, og aðeins að hluta í gjaldeyri.  Hollenskar og brezkar kröfur nema samtals 4 milljörðum evra, eða meira en 50% af VLF.  Samtals er áætlað að erlendar heildarskuldir Íslands nemi um 240% af VLF.  Engin þjóð hefur áður endurgreitt erlenda skuld af þessari stærðargráðu.  Ísland skortir auk þess útflutningsgetu til að afla nauðsynlegs gjaldeyris til að endurgreiða skuldina.  Ísland ætti því ekki annarra kosta völ en að fjármagna afborganir með nýjum lántökum.  Viljum við knýja skuldsettar þjóðir inn á slíka tortímingarbraut?  Viljum við að Ísland, Lettland og aðrar þjóðir nái að rétta sig við, eða kjósum við að leggja þeim augljóslega óbærilega skuldabyrði á herðar? 

Í það minnsta hljótum við að huga skynsamlega að eigin hag.  Íslenzkt hagkerfi í skuldafjötrum mun aldrei geta endurgreitt nema hluta skuldarinnar.  Spurningin er hvort við höldum fast við óraunhæfar kröfur eða stefnum að raunhæfu uppgjöri?  Og hvað með evrópska samhygð sem Verhagen utanríkisráðherra og aðrir hollenskir stjórnmálamenn styðja?  Verður hún sett skör lægra en kröfur lánardrottna?

Það verður ekki komist hjá því að hugsa til Þýzkalands á þriðja áratug síðustu aldar.  Keynes var þá sem hrópandinn í eyðimörkinni og varaði við því að Þýzkaland gæti ekki staðið undir kröfum bandamanna um stríðsskaðabætur.  En Þýzkaland var knúið til að takast þær á herðar og stóð í skilum um hríð með lántökum, enda ekki annarra kosta völ.  Þetta jók einungis greiðslubyrði landsins og rak aðþrengda þjóð í útbreidda arma öfgafullra stjórnmálamanna.  Nítíu árum síðar vitum við lok þeirrar sögu.  Við aðstæður sem kröfðust vizku og framsýni reyndust þjóðir bandamanna ótrúlega skammsýnar.

Við vitum ekki hvert aðþrengdir Íslendinga, Eystrasaltsbúar eða Ungverjar kynnu að snúa á komandi tíð.  Á þessum punkti í samtímasögunni vitum við það eitt að vandinn er okkar allra.  Við tókum öll þátt í því að skuldsetja hagkerfi úr hófi fram, og okkur ber því að vinna úr vandanum saman.  Það hefur ekki gengið vel til þessa.  Vaxandi spennu gætir í samskiptum þjóða og stuðningur við Evrópusambandið fer minnkandi í nýjum og væntanlegum aðildarríkjum.  Hvað mun barnabörnunum finnast um okkur eftir nítíu ár? ***

Höfundar:

Dirk J. Bezemer, lektor, University of Groningen, Hollandi

Michael Hudson, prófessor, University of Missouri, Bandaríkjunum

Gunnar Tómasson, hagfræðingur


Vinnubrögð Alþingis

Vinnubrögðin á hinu háa Alþingi virðast vera nokkuð undarleg þessa dagana. Mönnum virðist mikið í mun að komast í frí og vilja drífa mikilvæg mál í gegn sama hvað það kostar. Greinilegt er að öllum brögðum er beitt til að keyra þingmál sem hraðast í gegn. Frásögn Margrétar Tryggvadóttur er dapurt dæmi um vinnubrögð Ríkisstjórnarinnar. Sjá hér. Gott er að hafa fólk á þingi sem segir okkur frá því sem er að gerast á þessum vinnustað þar sem  ákvarðanir eru teknar sem skipta okkur almenning máli. Þar sem Icesave samningurinn gæti valdið þjóðargjaldþroti ætla ég að vona að þingmenn vandi sín vinnubrögð í hvívetna.

Skyldulesning um IceSave.

Herdís Þorgeirsdóttir prófessor í lögum skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag. Margt gott kemur fram hjá henni.

Ógn við öryggi og sjálfstæði þjóðar – og framtíð evrópsks samstarfs

mynd
Herdís Þorgeirsdóttir

Herdís Þorgeirsdóttir skrifar:

Fámenn þjóð á hjara veraldar stendur ein andspænis voldugum nágrannaríkjum, þjóðum sem hún til langs tíma hefur álitið vinaþjóðir. Þessari þjóð sem háð hefur harða lífsbaráttu á mörkum hins byggilega heims í meira en þúsund ár er gert að kokgleypa samning um óviðráðan­legar skuldir sem kunna að gera út af við efnahagslegt sjálfstæði hennar og skerða grundvallarréttindi þeirra sem áttu engan þátt í að stofna til þeirra. Skuldir sem urðu til í útrás fjármálafyrirtækja, sem uxu ríkinu yfir höfuð þegar þau tóku þátt í darraðardansi óheftrar markaðshyggju.

Íslenska ríkið hafði gengið til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir með undirritun EES-samningsins 1993, sannfært um að evrópskt efnahagssvæði myndi stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda eins og segir í inngangsorðum samningsins. Þar áréttuðu þessi ríki náin samskipti sín, sameigin­legt gildismat frá fornu fari og evrópska samkennd.

Bretar og Hollendingar eru stofnaðilar að Evrópuráðinu og ásamt Íslendingum í hópi fyrstu Evrópuþjóðanna til að undirrita Mannréttindasáttmála Evrópu 1950. Á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar strengdu þessar þjóðir heit um að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríki.

Þegar lagður var grunnurinn að stofnun Evrópuráðsins 1949 sagði Winston Churchill forsætisráðherra Breta að þessi ríki hefðu ekki tekið höndum saman gegn öðrum kynþáttum eða þjóðum heldur gegn kúgun og harðstjórn sem birtist í alls konar dulargervum. „Við verðum að hefja okkur yfir hömlulausar, eigingjarnar hvatir sem hafa sundrað þjóðum Evrópu og breytt þeim í rústir," sagði hann. Nú sextíu árum síðar stöndum við andspænis tveimur voldugum þjóðum sem í bandalagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru að gera atlögu að íslenskum almenningi, börnum okkar og framtíð. Þær krefjast þess að stjórnvöld geri samninga fyrir hönd barna okkar og barnabarna, samninga sem munu bera fámenna þjóð ofurliði. Bretar eru komnir langan veg frá þeim hugsjónum sem birtast í ræðu Churchills eftir stríð og minna má Hollendinga á óráðsíu og sífelld gjaldþrot Rembrandts. Sem betur fer voru skuldunautarnir ekki utanlands því þá hefðu meistaraverkin verið flutt úr landi.

Er það skylda okkar að greiða fyrir þessa reikninga? Ef svarið er afdráttarlaust já hví hræðast þessar þjóðir dómstólaleiðina eða alþjóðlegan gerðardóm? Hví ganga þessar þjóðir á skjön við þann grunn, sem Evrópusambandið byggir tilverurétt sinn á sem eru hin sameiginlegu gildi Evrópu? Ef þær gera það þá liðast Evrópusambandið í sundur. Evrópusambandið með sinn innri markað og markmið um hagsæld hefur staðfest með breytingum á Rómarsáttmálanum að virðing fyrir grundvallarréttindum er forsenda fyrir því að annað gangi, líka fjármálamarkaðir. Bandalag var lykilorðið í stofnun Evrópubandalagsins.

Minni á orð Roberts Schumans, eins af stofnendum Evrópuráðsins og kola- og stálbandalagsins, forvera Evrópubandalagsins, manns sem skildi út á hvað evrópsk samvinna ætti að ganga, ekki út á „hernaðarbandalag og ekki aðeins út á efnahagslegu einingu heldur fyrst og fremst út á hið siðmenntaða bandalag í víðtækasta skilningi þess orðs." Forystumenn Evrópuríkja sem nota eða nýta sér tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að kúga fámenna þjóð eru komnir svo langt frá þeim stórhuga mönnum sem stofnuðu Evrópuráðið, þeirri siðmenntuðu hugsun sem þar réði för, að þeir eiga meira sameiginlegt með rústunum en hugmyndinni um réttar­ríkið og virðingu fyrir mannréttindum. Sú leið sem hér hefur verið farin sýnir að fleira hefur skemmst í alþjóðavæðingu viðskipta en fjárhagslegir hagsmunir. Forystumenn þessara þjóða eru að koma fram við íslensku þjóðina af fádæma óvirðingu.

Íslenska þjóðin stofnaði ekki til þessara skulda. Hvaðan kemur henni skyldan til að greiða skuldir sem einkaaðilar stofnuðu til eftir að bankarnir fóru úr ríkis­eigu? Einkavæðing fyrirtækja og afnám miðstýringar og reglna var fylgifiskur alþjóðlegra viðskipta og fjármagnsflæðis yfir landamæri. Stjórnvöld kváðust vera að draga úr eigin áhrifum með því að gefa markaðinum svigrúm. Þær voru lágværar raddirnar - einstakra fræðimanna, sem bentu á hættur þessarar þróunar þar sem stórfyrirtæki myndu vaxa ríkjum yfir höfuð - fjármálareglur fylgdu ekki ógnvænlegri hnattvæðingu sem studd var af Alþjóðagjaldeyris­sjóðnum og Alþjóðaviðskiptastofnunni sem hafa vanrækt að gefa því gaum hvaða samfélagslegu áhrif framganga þeirra hefur á samfélög.

Setning Evróputilskipana sem var liður í að mynda sameigin­legan markað fyrir banka- og verðbréfaþjónustu innan EB áttu að koma á samræmdum reglum og eftirlitskerfi sem ætlað var að efla öryggi fjármálaþjónustu, verjast kerfisáhættu, auka neytendavernd og stuðla að skilvirkum og samkeppnishæfum markaði á þessu sviði. Stofnaður var tryggingarsjóður innistæðueigenda með lögum 98/1999 og skyldu aðildarfyrirtæki ekki bera ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram lögbundin framlög til hans.

Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa bent á sterk lögfræðileg rök um að íslensku þjóðinni beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn í útibú íslensku bankanna fyrir hrunið. Þeim rökum hefur ekki verið hnekkt. Þeir benda á að ríkisábyrgð verði ekki til úr engu. Til þess að ríkisábyrgð stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar nú vegna tryggingarsjóðsins.

Það má benda á atriði sem veikja stöðu íslenskra stjórnvalda, eins og skort á eftirliti með útibúum erlendis; yfirlýsingar ráðamanna í samtölum í miðju fátinu þegar hér verður kerfishrun og neyðarlög eru sett. En skuldbindur slíkt komandi kynslóðir? Ríkisábyrgð verður ekki til í samtölum manna á milli. Setning hryðjuverkalaga á íslenskan banka er einnig stórfellt álitamál í þessu samhengi. Þessi álitaefni æpa á meðferð dómstóla eða óháðra úrskurðaraðila.

Þetta eru þó ekki aðeins lögfræðileg álitaefni, þau snúast einnig um pólitík en fyrst og síðast um siðferði í samskiptum á milli þjóða. Einn þekktasti lögspekingur 20. aldarinnar, Louis Henkin, sagði að alþjóðalög vikju alltaf fyrir þjóðarhagsmunum. Engin þjóð beygir sig undir lög sem ógna öryggi hennar og sjálfstæði. Þjóðir gera samninga sín á milli og grundvallarregla í þjóðarétti er að samninga beri að virða. En ekki nauðasamninga. Ekki samninga sem er fyrirséð að ekki er hægt að standa við. Icesave-samningarnir eru eins og Versalasamningarnir þar sem sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar, Bandaríkin, Bretar og Frakkar sömdu um þær stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar skyldu borga án þess að Þjóðverjar kæmu að þeim samningum.

Með þessum samningum er gerð aðför að einstaklingum sem byggja þetta land til frambúðar. Öryggi íslensku þjóðarinnar og sjálfstæði er ógnað. Forsvarsmenn þessara ríkja setja inn í samninginn að þeim verði gert kleift að gera fjárnám í eigum íslensku þjóðarinnar ef hún getur ekki staðið í skilum. Ásælast forsvarsmenn þessara nágrannaþjóða náttúruauðlindir okkar? Hve langt eru þeir ekki komnir frá þeim hugsjónum sem evrópsk samvinna byggir á? Hvar er evrópska samkenndin? Vilja þeir að ungir Íslendingar yfirgefi landið sitt þannig að því blæði? Vilja þeir hneppa næstu kynslóð í fjötra skulda? Vilja þeir draga niður lífskjör heillar þjóðar til framtíðar? Vilja þeir Gullfoss, Geysi og Þingvelli? Við myndum aldrei gera kröfu um Shakespeare og Rembrandt. Á maður að trúa því að eftir 60 ár af evrópsku samstarfi þá standi aðeins ein evrópsk þjóð með íslensku þjóðinni - og hún er enn fámennari.

Við getum þráttað endalaust um að setning neyðarlaga eða að gallar í evópskri löggjöf hafi kallað yfir saklausa þjóð ábyrgð. Á meðan blæðir okkur út. Þessar voldugu þjóðir treysta sér ekki til að fara dómstólaleiðina eða kalla á úrskurð óháðra aðila utan lögsögu hlutaðeigandi ríkja. Þó er ljóst að hin lögfræðilegu álitaefni snúast ekki um tæknilegar útfærslur á lagaákvæðum heldur grundvallarspurningar í þjóðarétti.

Hví taka þessar þjóðir þá ekki allt eignasafnið sem á að duga langleiðina fyrir Icesave-innistæðunum og láta áhættuskiptin eiga sér stað hér og nú? Þær hafa mannafla og aðstöðu til að gera sem mest úr þessum eigum innan sinnar lögsögu. Þessar fjölmennu evrópsku þjóðir þurfa ekki að óttast að með því móti bresti stíflan og enginn muni lengur taka mark á Evrópusambandinu og að hinn innri markaður muni hrynja. Ábyrgð þeirra er mikil. Nú reynir á hvort þar eru stjórnspekingar í ætt við þá sem hófu evrópska samvinnu upp úr rústum mikilla hörmunga fyrir meira en hálfri öld. Raunveruleg stjórnkænska er að þora að gera hið ómögulega og takast það. Lymska er heigulsháttur. Íslendingar efast sumir hvort þeir eigi, svo vitnað sé í Shakespeare „að þreyja þolinmóðir í grimmu éli af örvum ógæfunnar eða vopn grípa mót bölsins brimi og knýja það til kyrrðar." Hvorugt kann góðri lukku að stýra - hvorki fyrir Íslendinga né fyrir evrópska samvinnu. Voldugar evrópskar þjóðir hafa í hendi sér framtíð evrópskrar samvinnu. Ef hún hefst á atlögu gegn fámennri þjóð með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru það váleg tíðindi fyrir framtíð Evrópu.

Höfundur er prófessor og doktor í lögum frá lagadeildinni í Lundi.


Den tid den sorgen-ég vissi bara ekki betur!

Nú eiga Alþingismenn okkar að samþykkja eða fella Icesave samninginn hans Svavars. Þeir eiga að kjósa án þess að sjá samninginn. Hvað knýr þá til þess? Hvað knýr heila þjóð til að láta slíkt viðgangast? Er það íslenska veiðimannaeðlið. Þetta reddast eða réttara sagt að fresta vandanum. Er það óskin um að láta ekki trufla sig við daglega iðju, búðarráp og slíka hluti. Er það of erfitt að vera raunsær, skynsamur, fyrirhyggjusamur, nákvæmur eða ábyrgur. Veiðimenn lifa fyrir stundina. Bretar eru það ekki því semja þeir ekki af sér. Mér finnst tími til kominn að við tileinkum okkur hegðun borgara. Það er gaman að vera veiðimaður og láta hverjum degi nægja sínar þjáningar en núna er mál að linni. Við verðum að sýna ábyrgð, barnanna okkar vegna. Fullveldis Íslands vegna. Vaknið kæru samborgarar. Hugsa, horfa og framkvæma svo, takið afstöðu, hvað viljið þið? Fljótum ekki að feigðarósi í annað sinn.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband