Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Magma Energy-AGS-HS orka,; núna verðum við að segja hingað og ekki lengra!!!

Nú ætla Íslendingar að selja frá sér mjólkurkúnna. Magma Energy með forstjórann Ross í fararbroddi ætlar að eignast orkuna á Suðurnesjum.Þeir ætla að dæla orkunni upp hratt og örugglega, græða helling og vera löngu farnir af landi brott áður en 130 árin verða liðin.

Þegar maður les um Ross hefur hann aðallega keypt fyrirtæki og byggt þau upp. Þegar rétti tíminn er kominn til að selja, selur hann hæstbjóðendum. Það sem kemur honum á fætur á morgnana er vonin um gróða. Hvort hann grillar á kvöldin veit ég ekki. Hann mun því hámarka HS orku og selja fyrirtækið svo. Að hámarka þýðir að skera niður allan kostnað eins og laun. Að hámarka er að hækka verð vörunnar, það dregur að kaupendur, marg endurtekið í S-Ameríku.

Að selja frá sér sína mjólkurkú er ekki skynsamlegt. Þá getum við nefnilega ekki aflað okkur tekna til að endurgreiða skuldir okkar.

Að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neiti okkur um að eiga áfram HS-Orku byggir á því að þá getum við ekki endurgreitt lánin til AGS. Þá verðum við áfram þrælar þeirra og neyðumst til að sitja og standa eins og þeim þóknast. Þar með er afgangurinn af auðlindum okkar líka farinn. Þar með verður búið að einkavæða allt, heilbrigðismál, menntamál, vatn, rafmagn-allt. 

Við verðum að snúa vörn í sókn, ef við stöndum saman þá sigrum við.


Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar segir fyrirvarana engu breyta

Mér brá satt best að segja nokkuð við að hlusta á fullyrðingar Björns Vals Gíslasonar alþingismanns VG í sjónvarpsfréttum kvöldsins. Hann gefur í skyn að fyrirvararnir séu bara eitthvað sjónarspil sem engu breyta. Ég veit ekki hverju maður á að trúa lengur. Ég veit að reyndar hefur Björn Valur verið á sjó undanfarnar vikur  svo hann er kannski eitthvað úti að sigla ennþá. Hann er hins vegar ekki bara óbreyttur þingmaður þar sem hann er varaformaður fjárlagnefndar. Er hann að tala í nafni stjórnarinnar? Ég er eins og margir Íslendingar alveg orðin uppgefin á þessu blessaða Icesavemáli en ég geri mér jafnframt grein fyrir alvöru þess. Ég var svo sannarlega að vona að þessir fyrirvarar væru einhver lausn og væru jafnframt alveg öruggir. Ég vil ekki gefast upp og þess vegna krefst ég þess að þingmenn klári málið. Klári það, þannig að það sé ekki neinum vafa undirorpið að Icesaveskuldirnar  setji okkur ekki  á hausinn og að fyrirvararnir haldi.
mbl.is Munum tala eins lengi og þarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakobína ver málstað almennings á Íslandi í norskum miðli

Það er gott til þess að vita að það eru ekki allir Íslendingar sem láta sér nægja að þusa í kaffiboðum og í bloggheimum. Það eru æ fleiri farnir að skilja að það þýðir ekki að treysta á að íslensk stjórnvöld standi með hagsmunum almennings. Jakobína Ingunn Ólafsdóttir bloggvinkona mín er ein af þeim sem hefur látið í sér heyra víða og nú síðast í viðtali við ABC Nyheter. Þar gagnrýnir hún Kristínu Halvorsen ráðherra fyrir ódrengilega framkomu við Íslendinga. Takið eftir athugasemdum Normanna.

Góður fundur

Fundurinn á Austurvelli var stórgóður. Ræðumenn fundarins voru frábærir  en þó verð ég að viðurkenna að Einar Már er í mestu uppáhaldi hjá mér. Egill og KK voru líka góðir og náðu svo sannarlega að fá fólkið með sér. Það fór ekki framhjá mér að þarna var svolítið annað mannval en á flestum þeim mótmælafundum sem ég mætt á undanfarið. Ég var satt best að segja mjög ánægð með það. Mér finnst það einmitt sýna fram á það að það séu fleiri að vakna til vitundar um það að við verðum að standa saman sem þjóð. Við megum ekki eilíft skipa okkur í fylkingar eftir flokkum. Hér eru of alvarleg mál á ferðinni til þess að við höfum efni á því. Mikið er gert úr nærveru Davíðs Oddssonar og finnst mér það satt best að segja hálf fáránleg umræða. Látum nú ekki alla umræðu snúast um þessa einu persónu. Hafa ekki hægrimenn rétt á því að mótmæla. Annars finnst mér þetta hægri og vinstri orðið svo útþynnt en það er nú önnur saga. Við erum jú öll Íslendingar hvar í flokki sem við stöndum og höfum rétt á því að berjast fyrir réttlátara samfélagi.

Austurvöllur-Fimmtudag-13 ágúst!!

Það er boðað til mótmæla við Austurvöll á fimmtudaginn. Margir aðilar og hópar sameinast um þessi mótmæli. Um er að ræða einstaklinga og félög sem eru andsnúin ríkisábyrgð á IceSave samningnum. Ég hvet sem flesta að mæta.

IceSave málið er mjög sérstakt mál, að minnsta kosti hér innanlands. Ferill ríkisábyrgðarinnar ber þess merki að hún hefði átt að samþykkjast á Alþingi í einum hvelli. Reyndar varð hvellur en ekki sá sem forkólfar Ríkisstjórnarinnar höfðu vonast eftir. Hugmynd þeirra var að koma þessu máli frá til að geta snúið sér að öðrum mikilvægari þjóðþrifamálum. Jóhanna vildi rós í hnappagatið áður en hún heimsækir vina sína í Brussel. Steingrímur ætlaði sér að stýra fjármálum ríkisins í einhvers konar Hróa Hattar stíl. Til allrar hamingju, fyrir okkur Íslendinga, þá gerðist einhver svo ósvífinn að spyrja hvort við hefðum efni á þessum IceSave greiðslum. Um það snúast þessi mótmæli, hvort Ísland fari á hausinn í náinni framtíð. Þetta er kjarnaatriðið.

Bretar eiga sér langa sögu í slíkum milliríkjasamskiptum sem við upplifum núna. Við getum rifjað upp Ópíum stríðin við Kínverja á þar síðustu öld, þá var fyrst reynt að semja en síðan var herinn sendur. Bretar hafa haft betur eins og vænta má, reyndar er smá skuggi á sigurgöngu nýlenduveldis þeirra. Í þrígang hafa þeir þurft að hverfa af vettvangi með herveldi sitt. Þá héngju nokkrir þorskhausar á spýtunni. Í raun er sigur okkar Íslendinga í þorskastríðunum mjög merkilegur.

Af þessum sökum eru margir erlendir aðilar sem fylgjast grannt með þessum slag. Við munum skapa visst fordæmi með lyktum þessa máls. Þess vegna er ábyrgð okkar mikil. Ég tel að að öllum erlendum aðilum sem kynna sér málið sé ljóst að við eigum ekki að borga. Þetta er fyrst og síðast kúgun af hálfu Bretanna og þannig er litið á málið, séð að utan.

Því vekur það furðu að "hið mikla samviskubit" virðist vera innlend framleiðsla okkar Íslendinga. Þegar ráðist er á þjóð þá eru venjuleg viðbrögð þegnanna að standa saman gegn innrásinni. Bretum hefur tekist að kljúfa fylkingu okkar því þeir vita að sundraðir föllum vér. Auk þess þyrstir þá í hefnd vegna Þorskastríðanna. Nú skiptir öllu máli að við stöndum saman því þá sigrum við.

Mætum öll á Austurvöll.

 

 


Síðan hvenær hefur maður orðið ríkur á því að taka lán

Síðustu vikur hef ég mikið velt því fyrir mér hvers vegna stjórnvöld leggja ofurkapp á það að taka lán í útlöndum. Þessi lán eiga síðan að liggja inni á einhverjum reikningum í útlöndum sem einhvers konar merkimiði um það að við séum rík þrátt fyrir allt. Ég sem venjuleg húsmóðir hef bara engan veginn skilið þessi rök. Lánum fylgja vextir sem auka útgjöld heimilisins. Ég varð því nokkuð glöð þegar ég uppgötvaði að fleiri en ég væru hugsandi yfir þessari stefnu stjórnvalda Jón Steinsson lektor í hagfræði við Columbía háskóla segir nefnilega að allt of mikið sé gert úr mikilvægi þess að byggður sé upp stór íslenskur gjaldeyrisvarasjóður með lánum frá AGS. Sjá hér.

Takk fyrir góða skemmtun á unglingalandsmóti

Skemmtilegu Unglingalandsmóti var að ljúka á Sauðárkróki . Ég byrjaði daginn á því að mæta í sundlaugina og vera tímavörður í sundkeppninni. Það var mjög gaman að fylgjast með gleðinni og keppnisandanum sem ríkti hjá sundköppunum.

 Að keppni lokinni fór ég í frábæra gönguferð um gamla bæinn með leiðsögn. Það kom glöggt fram að það er stórmerkileg saga í hverju koti hér á Króknum. Til að mynda var fyrsti holskurður á Íslandi framkvæmdur á Sauðárkróki.

Við Sigurjón bróðir fórum með krakkana á lokaskemmtunina í kvöld. Hljómsveitin Von hélt uppi fjörinu í stóra tjaldinu. Þetta er frábær hljómsveit og gleðin skein og hverju andliti bæði hjá yngri kynslóðinni og þeim eldri. Síðan fóru fram mótsslit á íþróttaleikvanginum þar sem herlegheitunum lauk með glæsilegri flugeldasýningu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband