Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Hrós

Verðlaunaafhending 31 janúar 2011

 Hróshópurinn hélt athöfn í Ráðhúsinu í dag þar sem hópurinn veitti ýmsum grasrótarhópum viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Það var gaman hitta allt þetta jákvæða fólk og þarna gafst líka tækifæri fyrir hópana að kynna starfsemi sína. Það er alveg ótrúlegt hvað margir hafa lagt mikla vinnu í margs konar grasrótarstarf til góðs fyrir samfélagið. Ég flutti þessa ræðu við þetta tækifæri.

 

Í dag erum við saman komin til að gleðjast og hrósa félögum okkar fyrir dugnað og elju við að sinna skyldum sínum sem ábyrgir borgarar. Við vitum öll hvað það skiptir miklu máli að fá hrós sérstaklega þegar unnið er mikið og óeigingjarnt starf.

Þegar allt hrundi  haustið  2008 voru margir sem vöknuðu upp við vondan draum. Það var þó nokkur fjöldi íslendinga sem reif sig upp úr sjónvarpssófanum og ákvað að gera eitthvað í málunum  að minnsta kosti að reyna að skilja hvað fór úrskeiðis. Ég var ein af þeim sem ákvað að taka þátt og hóf að starfa með opnum borgarafundum. Borgarafundirnir  og ekki síst undirbúningsfundirnir voru eitt af því lærdómsríkasta sem ég hef tekið þátt í . Upp úr þessu spruttu margir hópar eins og Hagsmunasamtök Heimilanna og Lýðveldisbyltingin og svo framvegis. Fólk í öllum þessum mismunandi hópum var að reyna að skilja hvað fór úrskeiðis og að finna lausnir.

Til að geta gert betur verðum við að rýna í fortíðina og söguna því sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig. Það sem blasti við okkur í rústunum haustið 2008 voru tvær staðreyndir framar öðru. Gæðum landsins hafði verið freklega misskipt . Mörg okkar vissum það fyrir en stærðargráðan var ný. Hitt sem var augljóst var að ekki var hægt að halda svona áfram. Þar stöndum við í dag og allur sá fjöldi grasrótarhópa sem er  saman kominn hér í dag er til marks um að við erum öll að reyna að koma á réttlæti í þjóðfélginu hver með sínum hætti.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig bankakerfið hrundi og almenningur líður stórlega fyrir það. Við sem erum komin saman hér í dag viljum öll breyta þjóðfélaginu, þær tilraunir sem við höfum tekið þátt í hingað til hafa hreyft við ýmsu en við erum ekki komin alla leið. Byltingin er eftir. Ég tel að flestum okkar sé að verða það allt ljósara að bylting er það sem við þurfum. Sú bylting þarf fyrst og fremst að eiga sér stað í huga almennings. Hvað það er sem setur byltingu í gang er erfitt að skilgreina en það er örugglega til bóta að þeir sem vilja breytingu standi saman.Við verðum að gera okkur grein fyrir því að bylting og grasrót ætti að vera  sjálfsprottin og það er hættulegt ef einhver ætlar að eigna sér slíkt.

Óveðursskýin hrannast upp, sífellt er erfiðara að ná endum saman og þeim fjölgar stöðugt sem gera það ekki og þurfa því að leita sér aðstoðar. Stjórnvöld standa ekki með almenningi heldur sérhagsmunahópum og fjármagnsöflunum. Þegar almenningur þarf aðstoð er ríkiskassinn tómur en þegar banki þarf aðstoð þá er kassinn fullur. Ekki kemur til greina að leiðrétta lán almennings en þegar kemur að þörfum þeirra sem komu okkur í þennan skít þá er ekkert sjálfsagðara en að aðstoða þá og jafnvel veita þeim skattaafslátt og afskriftir. Síðan spranga þessir menn ennþá inn og út úr bönkum og ríkisstofnunum eins og ekkert hafi í skorist. Yfirráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi hafa gert muninn á hægri og vinstri pólitík að engu. Verkalýðsforustan virðist beita sér meira fyrir kjörum fjármagnsins í lífeyrissjóðunum en kjörum hins vinnandi manns. Þegar fréttist af sérkennilegri samvinnu verkalýðsfélaga við atvinnurekendur til að koma höggi á gagnrýninn fulltrúa verkamanna virðist fokið í flest skjól.

Við sem viljum að réttlætið nái völdum á Íslandi, ætlum við að bíða í 10 eða 20 ár eins og Argentínumenn, Chílemenn, Túnisbúar eða Egyptar. Margar þjóðir í okkar sporum hafa gefið stjórnvöldum sínum tækifæri til að sanna sig allt þangað til að stór hluti þegnanna átti ekki fyrir mat því lítill hluti þjóðarinnar sat á öllum auðnum. Stefnum við ótrauð á sömu endastöð eða ætlum við að stíga af vagninum áður, hvar er þessi gáfaða og vel menntaða íslenska þjóð í dag?

Hlutverk og ábyrgð grásrótarinnar hefur vaxið frá hruni. Á meðan við rífumst um smáatriði þá gefum við elítunni tækifæri til þess að ræna okkur. Þess vegna verðum við að halda hópinn og styrkja hvert annað í báráttunni fyrir réttlæti. Lifi réttlætið og veitum von.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband