Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

SOS frá Íslandi

Að frumkvæði Gunnars Tómassonar, hagfræðings og fyrrverandi ráðgjafa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og fleiri Íslendinga var meðfylgjandi bréf sent til Dominiques Strauss-Khans, framkvæmdastjóra Alþjóðagaldeyrissjóðsins, og José Manuels Barrosos, forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Bréfið var sent til þeirra í ljósi þess lykilshlutverks sem AGS og ESB skipuðu í nóvember 2008 þegar samningaviðræðurnar vegna Icesave hófust.

Á þessum tíma setti AGS fram spár um efnahagshorfur Íslands og gengið var frá samkomulagi um að ef efnahagsþróun landsins yrði umtalsvert verri en þessar spár gerðu ráð fyrir þá gæti Ísland farið fram á viðræður við Bretland og Holland vegna þeirra þátta sem liggja til grundvallar frávikinu og um sjálft viðfangsefnið Icesave. Nýlegt mat AGS á þróuninni á árunum 2009 til 2010 og spár fyrir 2011 til 2013 gefa mun verri mynd en fyrri spár.

Bréfritarar hafa áhyggjur af því að núverandi frumvarp um Icesave-samninginn, sem verður lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl n.k., endurspegli ekki þessa neikvæðu þróun. Því fara bréfritarar þess á leit við AGS og ESB að þessar stofnanir „geri ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands annars mun vanhugsuð úrlausn Icesave-málsins þröngva Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru."

 

Reykjavík 28. mars 2011

Mr. Dominique Strauss-Kahn

Managing Director

International Monetary Fund

Washington, DC 20431

USA

Kæri, Mr. Strauss-Kahn.

Eftir hrun íslenska bankakerfisins í október 2008 féll verg landsframleiðsla (VLF) um 25% á næstu tveimur árum eða úr 17 millörðum bandaríkjadala niður í 12‚8 milljarða bandaríkjadala (USD). Ef spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um 14,8% vöxt vergrar landsframleiðslu næstu þrjú árin gengur eftir mun hún nema 14,7 milljörðum bandaríkjadala árið 2013 og vera 13% lægri en árið 2008.

Horfurnar eru aðeins skárri ef mið er tekið af vergri landsframleiðslu á stöðugu verðlagi í íslenskum krónum . AGS spáir að árið 2013 verði verg landsframleiðsla um 2-3% lakari en árið 2008 sem þýðir að hún verður 4-6% lægri en AGS spáði í nóvember 2008.

Með öðrum orðum þá eru efnahagshorfur Íslands umtalsvert lakari en gengið var út frá við gerð svokölluðu Brussels viðmiða fyrir ICESAVE samninga sem aðilar málsins samþykktu undir handleiðslu viðkomandi stofnunar Evrópusambandsins (ECOFIN) í nóvember 2008.

Jafnframt telur AGS að vergar erlendar skuldir Íslands í lok ársins 2009 hafi verið um 308% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir nærri tvöfalt það 160% hlutfall sem sjóðurinn spáði í nóvember 2008. Í skýrslu AGS um Ísland, dagsettri 22. desember 2010, er því spáð að vergar erlendar skuldir Íslands muni nema 215% af vergri landsframleiðslu í árslok 2013 (sjá töflu 3, bls. 32 í umræddri skýrslu) eða liðlega tvöfalt það 101% hlutfall sem spáð var í nóvember 2008 (sjá töflu 2, bls. 27 í sama riti).

Vergar erlendar skuldir Íslands í lok 2009 voru langt umfram það 240% hlutfall  af vergri landsframleiðslu sem starfsmenn AGS mátu sem „augljóslega ósjálfbært" í skýrslu þeirra sem er dagsett 25. nóvember 2008 (sjá bls. 55 í þessari skýrslu).

Meginmarkmið þess samningaferils um ICESAVE sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2008 var að tryggja uppgjör á flóknum málum sem viðkomandi aðilar, að meðtöldum ESB og AGS, voru einhuga um að leiða til farsællar lausnar samhliða endurreisn íslenska hagkerfisins. 

Við undirritaðir Íslendingar höfum verulegar áhyggjur af því að fyrirliggjandi drög að samkomulagi um ICESAVE samrýmist ekki þessu meginmarkmiði, og vísum í því sambandi til umsagna AGS um þróun og horfur varðandi innlendar hagstærðir og erlenda skuldastöðu Íslands hér að ofan.

 

Því förum við þess virðingarfyllst á leit við ESB og AGS að þessar stofnanir takist á hendur ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands svo að vanhugsuð úrlausn ICESAVE-málsins þröngvi ekki Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

 

Ásta Hafberg, háskólanemandi

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Þórðardóttir, kennari

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, formaður Frálslynda flokksins

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

 

Svör sendist til;

helgatho@gmail.com

Helga Thordardottir

Seidakvisl 7

110 Reykjavik

Iceland

 

 

 

***

 

 


Bréf til ESB

 

Íslandi 18.03 2011

Mr Herman Van Rompuy     

European Council
Rue de la Loi 175
B-1048 Brussels

 

 

Kæri  herra Van Rompuy

 

Haustið 2008 hrundi nánast allt íslenska bankakerfið (90%) á nokkrum dögum og þar með Landsbankinn og útibú hans í London og Amsterdam (Icesave-reikningarnir). Samkvæmt grundvallarreglu EES samningsins virðist jafnréttishugtakið um jafna stöðu allra á markaði vera undirstaða alls samstarfs innan Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í íslenskum lögum nr. 2/1993 en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr:

„að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum" (Áhersluletur er bréfritara) Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.

Í ljósi þessa verður ekki betur séð en breskum og hollenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til að sjá til þess að útibú Landsbanka, í London og Amsterdam, hefði fullgildar tryggingar innlána í Tryggingasjóðum innistæðueigenda í viðkomandi löndum. Annað hefði verið mismunun á markaði annars vegar í óhag fjármagnseigenda en hins vegar til hagsbóta fyrir Landsbankann.

Bretar og Hollendingar tóku Icesave einhliða úr eðlilegum farvegi réttarfars yfir í hið pólitíska umhverfi. Á þeim grundvelli krefja þeir íslenska skattgreiðendur af mikilli hörku um endurgreiðslu þeirra innlána sem tryggð áttu að vera í bresku og hollensku innistæðutryggingakerfi eins og EES reglurnar kveða skýrt á um.

Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að þau hefðu verið beitt ofríki og vildu því fara með málið fyrir dómstóla. Bretar og Hollendingar höfnuðu því en áður höfðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann. Bretar stöðvuðu í framhaldinu starfsemi Kaupþings-banka (Singer & Friedlander) í London og féll þá stærsta fjármálafyrirtæki Íslands.

Vegna harkalegra viðbragða Breta og Hollendinga lokaðist fyrir flæði fjármagns til og frá Íslandi. Með því voru ríkisfjármál Íslands tekin í gíslingu. Þess vegna urðu Íslendingar að samþykkja að semja um Icesave-skuldina til að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Krafa AGS um þetta atriði kom fyrir samstilltan þrýsting Breta, Hollendinga og ESB-þjóðanna að gangast undir Icesave-kröfurnar.

Núverandi Icesave-samningar geta kostað okkur hálf fjárlög íslenska ríkisins. Ef neyðarlögin frá því í október 2008 verða dæmd ógild verða Icesave-kröfurnar tvöföld fjárlög ríkissjóðs. Íslenskur almenningur á erfitt með að sætta sig við að bera þessar byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi einkabanka. Byrðar sem í raun tilheyra tryggingasjóðum Breta og Hollendinga samkvæmt grunnreglum EES um jafna samkeppnisstöðu útibúa Landsbankans í þessum löndum við aðra banka á sama markaðssvæði.

Íslenska þjóðin mun kjósa um nýjasta Icesave-samninginn þann 9. apríl næst komandi. Við höfnuðum þeim síðasta. Þess vegna finnst okkur undirrituðum áríðandi að fá svör við eftirfarandi spurningum fyrir þann tíma.

1.      Hvers virði eru þríhliða samningar (Icesave samningarnir) þar sem tveir aðilar samningsins hafna eðlilegri málsmeðferð og í krafti aðstöðu sinnar neyða þriðja aðilann að samningaborði til að fjalla um málefni sem allar líkur benda til að séu uppgjörsmál Landsbankans við innistæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga?

2.      Hvers vegna var Íslendingum meinað að verja sig fyrir þar til bærum dómstólum um réttmæti krafna Breta og Hollendinga haustið 2008?

3.      Í ljósi þess að Landsbankinn varð að fara eftir breskum lögum hvers vegna var honum þá heimilað að taka við innlánum áður en bankinn var búinn að tryggja sig hjá breska innistæðutryggingasjóðnum?

3.1  Veitti það bankanum ekki óeðlilegt forskot á markaði að vera undanskilinn þeirri kröfu?

3.2  Var hagur breskra neytenda ekki fyrir borð borinn með því að leyfa Landsbankanum að tryggja sig með minni kostnaði en aðrir á markaði?

3.3  Ætlar ESB að láta Breta og Hollendinga komast upp með að brjóta grunnreglur EES samningsins um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði ?

4        Samrýmist það stefnu ESB að þegar einkabanki verður gjaldþrota myndist krafa á skattfé almennings?

5        Er innistæðutryggingakerfi einhvers Evrópulands nógu öflugt til að standa undir falli 90% af bankakerfinu í landi sínu?

6        Hver verða viðbrögð ESB ef íslenskur almenningur hafnar nýjustu Icesave samningunum þann 9. apríl n.k?

 

 

 

 

 

Virðingarfyllst og með ósk um góð svör

 

Ásta Hafberg, háskólanemi

Baldvin Björgvinsson, raffræðingur / framhaldsskólakennari

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður

Elinborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, núverandi nemi

Elías Pétursson, fv. framkvæmdarstjóri

Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur 

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Haraldur Baldursson, tæknifræðingur 

Helga Garðasdóttir,  háskólanemi

Helga Þórðardóttir, kennari

Inga Björk Harðardóttir, kennari/myndlistakona

Karólína Einarsdóttir, líffræðingur og kennari

Kristbjörg Þórisdóttir, kandídatsnemi í sálfræði

Kristján Jóhann Matthíasson, fv sjómaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson,  djákni í Glerárkirkju

Rakel Sigurgeirsdóttir,  framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Steinar Immanúel Sörensson, hugmyndafræðingur

Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm, eftirlitsmaður

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

 

Svör og eða spurningar skal senda til

 

Gunnars Skúla Ármannssonar

Seiðakvísl 7

110 Reykjavík

Ísland

gunnarsa@landspitali.is

 

 

Afrit sent til ýmissa ráðamanna ESB og EFTA, viðkomandi ráðuneyta Bretlands, Hollands og Íslands auk evrópskra fjölmiðla.

 

 


Af hverju Nei- Myndband

Hvers vegna segi ég nei, nei og aftur Nei

Að skuldum einkafyrirtækis sé velt yfir á almenning er rangt og þess vegna er það prinsipmál fyrir mér að segja nei.

Icesave er ólögvarin krafa. Bretar og Hollendingar neyddu okkur til samninga í krafti valds síns, Ég óttast ekki dómstólaleiðina því við höfum lögin og réttlætið með okkur.

Það er andsnúið hlutverki okkar sem foreldra að samþykkja skuldir fjárglæframanna sem börnin okkar borga.

Við verðum að spyrja okkur hvers vegna það ætti að vera ríkisábyrgð á sjúku fjármálakerfi.

Almenningur úti í heimi horfir til okkar og vonar  að við segjum Nei

 


Mikkamúsarpeningar eða Liljupeningar

Það er greinilegt af þessari frétt að Jón hefur ekki lesið síðustu bloggfærsluna mína sem ég skrifaði sérstaklega fyrir hann þar sem hann hafði lýst því yfir að hann vissi ekkert um Icesave. Sök sér að halda því fram  við hlustendur útvarps Sögu en að segja frá þessu við austurrísku fréttastofuna APA finnst mér heldur langt gengið. Þetta er vonandi ekki einhver apafréttastöð. Ennþá heldur Jón að við getum bara losnað við málið með því að segja já. Þá fyrst byrjar ballið því þá þurfum við að fara að borga og ég hefði haldið að hann væri farinn að skilja hvað það er erfitt að skera  niður í velferðarkerfinu og þó það séu bara nokkrir milljarðar. Ég vil minna Jón á að við þurfum strax að borga 26 milljarða í vexti bara á þessu ári. Annars fannst mér merkilegt hvað Jón er hræddur við að Jóhanna  gæti þurft að segja af sér ef samningnum yrði hafnað og líka að þá ættum við erfitt með að komast inn í ESB. Ætli Samfylkingin hafi sent hann út með þetta veganesti?

Ekki finnst mér gæfulegt að borgarstjóri okkar Reykvíkinga fari út í heim og kalli gjaldmiðil okkar Mikkamúsarpeninga. Eitthvað heyrði ég um að Árni Páll hefði líka talað niður krónuna úti í hinum stóra heimi. Þetta eru kannski samantekin ráð hjá þeim eða kannski horfði Jón Gnarr á Silfrið um helgina og hlustaði á Lilju Mósesdóttur fjalla um upptöku nýs gjaldmiðils. Hver veit nema að þau séu í liði?


mbl.is Bölsýnn borgarstjóri í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr og Icesave fyrir dummies

Jón Gnarr var í viðtali á útvarpi Sögu í vikunni. Hann var spurður um afstöðu sína til Icesave og var hann helst á því að við þ.e.þjóðin þyrftum að þrífa upp æluna eftir útrásavíkingana. Eftir skammir frá hlustendum vegna þessarar afstöðu fór hann að draga í land og viðurkenndi að hann vissi ekkert um Icesave málið og vegna tímaskorts  þyrfti  hann Icesave kynningu fyrir dummies. Ég vil taka fram að þetta var hans orðalag. Ég hef mikla meðaumkun með honum og ætla því að draga fram helstu staðreyndir málsins honum til upplýsingar.

Nokkrar upplýsingar um Icesave

Íslendingar voru neyddir til samninga við Breta og Hollendinga.

Íslendingar fengu ekki að leita réttar síns fyrir dómstólum haustið 2008.

Icesave er ólögvarin krafa. Það er óheimilt að veita ríkisábyrgð á Innistæðutryggingasjóð.

Ein af grundvallarreglum EES samstarfsins  er að raska ekki samkeppni á markaði og þess vegna áttu Bretar að setja Landsbankann í London strax inn í breska innistæðutryggingasjóðinn áður en fyrsta innistæðan var stofnuð þar.

Icesave krafan er  670 milljarðar í erlendri mynt.

Íslendingar eru að ábyrgjast milljarða evra með því að að segja já

Ef við samþykkjum Icesave þá erum við lofa framtíðarskatttekjum Íslendinga til Breta og Hollendinga til allt að 35 ára.

Við vitum ekki hver upphæðin verður því eignarsafn Landsbankans er óljóst.

Þar sem upphæðin er ekki föst tala er það stjórnarskrárbrot að samþykkja lögin

Það er mikil gjaldeyrisáhætta sem fylgir þessum samningi. Skuldin hækkar gríðarlega ef íslenska krónan fellur.

Icesave hverfur ekki við það að segja já við samningnum. Strax á þessu ári þurfa íslenskir skattgreiðendur að borga 26 milljarða í vexti. Þetta er allt í erlendum gjaldeyri. Þess vegna kemur Icesave ef við segjum já

Það eru miklar líkur á því að að vinnum dómsmál ef þessi deila fer fyrir EFTA dómstólinn. 

Ef við töpum dómsmáli getur dómstóllinn ekki dæmt okkur í skaðabætur heldur yrði þetta svokallaður viðurkenningardómur.  Íslendingar yrðu að skilgreina skyldur sínar fyrir íslenskum dómstólum.

 

Mínar hugleiðingar og rökstuðningur minn fyrir því að segja Nei

 

Ég vil ekki að skuldum einkafyrirtækis sé velt yfir á almenning.

Almenningur á ekki að borga fyrir sukk bankaelítunnar

Landsbankinn var einkabanki og þess vegna á hann að bera ábyrgð á sínum skuldum sjálfur.

Mér finnst Icesavereikningarnir vera óupplýst sakamál sem þarf að rannsaka af þartil bærum dómstólum

Mér finnst fáránlegt að almenningur  beri ábyrgð á öllum bankainnistæðum.

Mér finnst fáranlegt að það eigi að vera ríkisábyrgð á sjúku fjármálakerfi.

Almenningur út í heimi horfir til okkar og vonar að við segjum Nei.

Það er andsnúið hlutverki okkar sem foreldra að samþykkja skuldir fjárglæframanna sem börnin okkar þurfa að borga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband