Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Getum við treyst


Margir kjósendur eru sárir og svekktir með þá flokka sem þeir kusu í síðustu Alþingiskosningum. Fólki var lofað mörgu fögru eins og skjaldborg um heimilin, nýrri stjórnarskrá og já auðvitað átti að koma á betra og sanngjarnara þjóðfélagi. Draumurinn um nýja Ísland fauk út um gluggann á síðustu dögum þingsins. Hvað er nú til ráða hverjum geta kjósendur treyst til að halda áfram með kyndilinn fyrir nýju Íslandi. Stjórnarandstaðan lofar bót og betrun og stjórnarliðar tala um hvað þeir hafa þurft að moka mikinn skít eftir fyrri stjórnir. Getum við treyst nýjum og fallegum kosningaloforðum frá þessum flokkum? Hér verður hver og einn að svara fyrir sig en ég get sagt fyrir sjálfa mig að það get ég ekki lengur. Ef menn sýna ekki í verki það sem þeir segjast ætla að gera þá er ekkert að marka þetta fólk. Við sem erum uppalendur vitum hvað það er mikilvægt að vera góð fyrirmynd og standa við gefin loforð.

Ég er í framboði fyrir Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði og ég býð fram krafta mína til að búa til betra og sanngjarnara samfélag. Við í Dögun  setjum heimilin í forgang ,við viljum gagngera endurskoðun á stjórn fiskveiða og við viljum lýðræðisumbætur með því að fólkið fái sína eigin stjórnarskrá. Ég gæti endalaust talið upp það sem við viljum gera en hvernig eiga kjósendur að trúa mér eða öðrum félögum mínum  í Dögun. Sjálfsagt munu margir halda því fram að þetta sé allt sama tóbakið og þetta lið vill bara komast að kjötkötlunum. Auðvitað er erfitt að svara svona röksemdafærslu þar sem við höfum ekki fengið tækifæri til að sanna okkur. Frambjóðendur Dögunar eru flest venjulegt fólk sem deilir kjörum með almenningi og mörg okkar höfum verið fastagestir á Austurvelli til að reyna að ná eyrum kjörinna fulltrúa okkar. Núna viljum við ná eyrum ykkar kjósendur góðir. Það hefur verið erfitt að fá þingmenn og aðra ráðamenn til að hlusta á okkur. Við höfum beitt ýmsum aðferðum eins og að berja potta og bumbur, haldið borgarafundi, safnað undirskriftum og margt fleira. Þetta höfum við gert með misjöfnum árangri.  Vonandi tekst okkur betur að ná eyrum ykkar.Við eigum kannski ekki greiðan aðgang að fjölmiðlum landsins því við tilheyrum engri valdaklíku og það munu engin sérhagmunaöfl græða neitt á því að kjósa okkur. Við trúum því að það sé komið að okkur sjálfum þ.e. fólkinu í landinu að snúa við blaðinu og breyta. Það er orðið fullreynt með fjórflokkinn,  gamla valdastéttin er ófær um að hugsa um hag almennings. Við erum ekki í framboði til að koma einhverjum flokki til valda heldur til að hafa áhrif á þjóðfélagið okkar og þjóna fólkinu í landinu. Þið kjósendur góðir getið hjálpað okkur við það með því að kynna ykkur stefnumál okkar og vonandi komið þið í þessa vegferð með okkur. Saman getum við ef við stöndum saman.


Frambjóðandi

Þá er það staðfest, ég er orðin frambjóðandi Dögunar  í þriðja sæti í Reykjavík suður.  Framboðslistar Reykjavíkurkjördæmanna  voru samþykktir á félagsfundi  á  föstudaginn.  Ég vil þakka félögum mínum í Dögun fyrir að treysta mér í þetta mikilvæga verkefni sem framundan er þ.e að koma stefnumálum okkar á framfæri.

 

 Við erum mörg sem höfum  unnið að þessu framboði í langan tíma.  Dögun átti eins árs afmæli 18.mars síðastliðinn en það var ekki upphafið því vinna að mótun framboðsins á sér rætur allt frá haustinu 2011. Hugmyndin var að reyna að sameina krafta margra hópa og finna það sem gæti sameinað okkur . Við vildum gera hlutina alveg frá grunni og byrjuðum því að búa til mjög lýðræðisleg lög sem settu okkur  ákveðinn vinnuramma.  Við lögðum gríðarlega mikla vinnu í að búa til kjarnastefnu flokksins  en það eru þau stefnumál sem sameina okkur og við leggjum mesta áherslu á að koma í framkvæmd.

Síðastliðið ár höfum við reynt að láta í okkur heyra og unnið enn frekar að stefnumálum okkar.  Félagsmenn Dögunar hafa komið að því að móta stefnu okkar í málefnahópum.  Við höfum leitað lausna víða og auðvitað erum við ekki  að finna upp hjólið.   Það sem hefur einkennt þessa stefnumótunarvinnu er að við höfum leitað lausna með hagsmuni almennings í fyrirrúmi og við þorum að fara óhefðbundnar leiðir. Við ætlum okkur að ögra sérhagsmunaöflunum. Auðvitað munu þeir sem valdið hafa reyna að gera allt til að láta rödd okkar ekki heyrast og gera okkur ótrúverðug. Ég hlakka til að vinna með öllu því góða fólki sem er með mér í Dögun. Á framboðslistum okkar er  ekki endilega fína og fræga fólkið heldur margt hugsjónafólk sem hefur staðið í eldlínunni undanfarin ár og barist fyrir réttlátara þjóðfélagi. Ég er stolt af því að fá tækifæri til að vinna með þessum eldhugum. Mikilvægasta verkefnið framundan er þó að koma að gagni fyrir land og þjóð.


Landsfundur Dögunar..VIÐ

Landsfundur Dögunar hófst í dag. Stjórnmálasamtökin Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði voru stofnuð fyrir ári síðan. Reyndar var meðgangan öllu lengri. Í dag var upplifunin sú að hér væri á ferðinni eitthvað ekta. Hvað rekur allan þennan hóp af  fólki  á föstudagseftirmiðdegi, eftir að hafa greitt í stöðumæla samviskusamlega, til að sitja á fundi og ræða lausnir sem eiga  fyrst og fremst að gagnast þjóðinni. Þetta og margt fleira gefur okkur von um að eitthvað jákvætt sé að gerast. Dögun er afl sem vill virkilega breyta.

Við í Dögun viljum margt og um það má lesa á heimasíðu okkar en án stuðnings almennings erum við áhrifalaus. Þess vegna þurfum við ykkar stuðning svo að við verðum virkilega VIÐ. Ef við stöndum saman sem VIÐ þá er allt mögulegt, jafnvel nýtt Ísland.

Núna um helgina munum við taka ákvarðanir um mörg af stefnumálum Dögunar. Þess vegna er mikilvægt að almenningur kynni sér niðurstöðu Landsfundar og kanni hvort hann geti ekki samsamað sig  stefnu okkar.

Innan Dögunar eru bæði gamlar og nýjar hetjur. Einstaklingar sem hafa barist ártugum saman fyrir réttlæti og eru alsettir skrámum eftir baráttu áranna. Þeir búa að reynslu, þolgæði og viðsýni. Samtímis eru yngri hetjur með eldmóðinn og óþolinmæðina. Síðan höfum við hóp sem er svona mitt á milli. Við erum hópur sem vill bjóða sig fram í einlægni og gefa þjóðinni kost á að kjósa eitthvað annað en hefðbundna spillingu og svik fjóflokksins. Það má segja að fjórflokkurinn hafi átt að sinna sínu hlutverki fyrir væntingar almennings en hann brást. Við í Dögun erum reiðubúin að taka að okkur hutverkið. Við erum að bjóða okkur fram til að berjast fyrir réttlæti. Stöndum saman, öðruvísi er það ekki hægt, þ.e.a.s. ef við viljum breytingar okkur öllum til hagsbótar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband