Uppgjör við hrunið

 

Síðasta vika var um margt stórmerkileg. Það varð ákveðið uppgjör við hrunið sem almenningur hefur kallað eftir allt frá hruni. Fyrst má nefna ákvörðunina um kaup á gögnum úr skattaskjólum. Eftir undarlegt útspil fjármálaráðherra sem byrjaði með gagnrýni hans á skattrannsóknarstjóra en endaði með  ákvörðun um kaup á umræddum gögnum. Þá niðurstöðu má m.a. þakka sterkum viðbrögðum úr samfélaginu og kröfunni um réttlæti. Það var mikið gleðiefni að sjá að baráttan getur skilað árangri og sýnir að við almenningur verðum að halda vöku okkar.

Í lok vikunnar urðu líka önnur tímamót sem hægt er að skilgreina sem uppgjör við hrunið en þá dæmdi Hæstiréttur í Al-Thani málinu svokallaða. Þar fengu menn sem voru í guðatölu fyrir hrun þunga dóma fyrir svindl og að stunda blekkingarleiki sem höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Margir voru búnir að gefa upp alla von um réttlæti og þess vegna varð þarna smá vonarglæta um að eitthvað væri að breytast.

Ég vona svo sannarlega að það sé rétt. Hvað á að breytast? Að mínu mati eigum við ekkert að vera að velta okkur uppúr viðbrögðum gerenda (þeir eru búnir að fá alveg nógu mikla athygli) heldur ættum við að horfa til viðbragða fjármálakerfisins og valdhafanna. Ætla þeir að læra eitthvað af mistökum fortíðarinnar og setja hérna nýjar leikreglur sem setja skorður á græðgi og spillingu fjármálakerfisins. Þetta er verkefni okkar og það er ekki lítið.

 


Bloggfærslur 16. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband