Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fátækt

Mætir menn, m.a. hagfræðingar, halda því fram og með rökum að við Íslendingar séum álíka rík og Norðmenn. Sem sagt við erum rík en þrátt fyrir það er til fólk á Íslandi sem er fátækt. Staðreynd sem gengur bara upp vegna þess að þeir efnameiri horfa í hina áttina og viðurkenna ekki vandann. Í því liggur skömm okkar. Það er einfaldlega ekki hægt að standa í einhverjum rökræðum um málið. Við verðum einfaldlega  að leiðrétta þetta mannréttindabrot strax.

 

Það eru börn sem búa við fátækt á Íslandi þar sem heimili þeirra ná ekki endum saman.  Þessi börn búa við mjög skert kjör. Þau horfa upp á félaga sína vel klædda og ætíð metta, einnig hafa þau ekki möguleika á frístunda- eða íþróttaiðkun. Það eru til öryrkjar og aldraðir sem búa við sára fátækt og eru búnir með launin sín um miðjan mánuðinn. Alltof stór hópur treystir á matargjafir hjálparstofnana og góðhjartaða ættingja. Fjöldi fólks getur ekki leyst út öll lyfin sín og dregur við sig að sækja læknisþjónustu. Það er búið að segja þetta margoft en lítið gerist, einhver ókiljanleg tregða eins og menn haldi að vandamálið hverfi af sjálfu sér eins og þynnka.

 

Við sem þjóð verðum að taka okkur taki. Dögun hefur haft það í kjarnastefnu sinni frá upphafi að útrýma fátækt. Við í Dögun ætlum að útrýma fátækt á Íslandi og við erum ekki til umræðu um neitt annað. Við munum lögfesta framfærsluviðmið. Þessi viðmið verða algild og allir aðilar í þjóðfélaginu verða að fara eftir þeim. Þessi viðmið verða það há að þau duga fyrir mannsæmandi framfærslu. Við ætlum að hækka skattleysismörk og afnema tekjutengingar. Þetta mun gilda um alla sem búa við fátækt af hvaða sökum sem er og þar með talda öryrkja og aldraða.

 

Greinin hefur hefur verið birt í Fréttablaðinu áður.

 


Opið bréf til ASÍ

Opið bréf til ASÍ

Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði hafa sent ASÍ fyrirspurn og spuringin er: Hver er afstaða ASÍ til orða aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands um nauðsyn þess  að hækka vexti til að halda niðri kaupmætti launafólks? Dögun hefur ekki enn fengið svar og vill því senda opið bréf á fjölmiðla til árétta spurningu sína til ASÍ.

Oðrétt segir aðalhagfræðingur Seðalbankans samkvæmt frétt á Eyjunni 11/11 2015 á fundi efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis.

Það er kannski akkúrat það sem við erum að reyna að gera. Vegna þess að staðan sem við erum í er að hagkerfið er að vaxa of hratt miðað við framleiðslugetu. Það skapar þrýsting á laun, verðlag og svo framvegis. Það sem við erum að gera er að draga úr ráðstöfunartekjum heimila, þau eiga þá minna til ráðstöfunar til að fjármagna eftirspurnarneyslu. Við erum að draga úr getu fyrirtækja til að fjárfesta eða fara í útgjaldaáform. Þetta er bara því miður það sem við þurfum að gera til þess að halda aftur af eftirspurninni.”

Samkvæmt Seðlabankanum er verðbólga dagsins í dag undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Á fyrrnefndum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kom fram að fulltrúum Seðlabankans fannst ábótavant að ríkisvaldið dansaði ekki í takt með Seðlabankanum í viðleitni sinni við að halda verðbólgunni niðri. Verðbólgu sem er undir viðmiðunarmörkum. Ófaglærðu fólki getur reynst erfitt að skilja Seðlabankann. Verðbólgumarkmið hans virðast heilög en tengjast ekki hag almennings beinlínis. Í þessu tilfelli eru þau skaðleg þar sem nýunnar launahækkanir launamanna eru skotmark Seðlabankans.

Þess vegna vill Dögun spyrja ASÍ hver skoðun ASÍ er á þessari stefnu Seðlabankans. Hvort einhver viðbrögð séu væntanleg af hálfu ASÍ til stuðnings sínum umbjóðendum.

Framkvæmdaráð Dögunar

xdogun.is

Sími: 511 1944


Sjávarauðlind í þjóðareign

Stjórnmálasamtökin Dögun héldu fund um sjávarútvegsmál fimmtudaginn 12. mars. Fundurinn var fjölsóttur og um margt merkilegur. Stjórnmálasamtökin buðu öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi til fundarins til að segja frá stefnu sinni um sjávarútvegsmál. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sáu sér ekki fært að senda fulltrúa á fundinn.

Gunnar Guðmundsson mætti fyrir hönd Pírata og hafði hann það helst að segja að stefna Pírata væri í mótun og að þeir styðja engar breytingar á kerfinu fyrr en nýtt auðlindaákvæði hefur náð fram að ganga í stjórnarskrá.

Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir mættu fyrir hönd sinna flokka og höfðu margt ágætt að segja um stefnu flokkanna í sjávarútvegsmálum. Þær voru inntar eftir því af hverju svo lítið af þeirra baráttumálum hefði náð fram að ganga á síðasta kjörtímabili. Þær viðurkenndu að þar hefði þær átt við ofurefli að etja eins og fjármálakerfið, LÍÚ og fleiri hagsmunaaðila. Það náðist heldur ekki samstaða innan flokkanna að ráðast gegn þessum hagsmunaöflum. 

Árni Múli fulltrúi Bjartrar Framtíðar vakti sérstaka athygli fundargesta fyrir framsögu sína. Hann sagði að Björt Framtíð væri með sjávarútvegsmálin í nefnd en að stefna þeirra væri að viðhalda núverandi kvótakerfi, hámarka arð af veiðum, bjóða upp aflaheimildir svo þeir bestu gætu keypt. Hann taldi líka rétt að hætta að styðja brothættar byggðir með aflaheimildum en láta byggðirnar fá peninga til að byggja upp aðrar atvinnugreinar.

Ólafur Jónsson var frummælandi fyrir hönd Sóknarhópsins og kynnti þar stefnu hópsins sem er í megindráttum sú að leggja niður aflamarkskerfið(kvótakerfið) og taka upp sóknarmark með allan fisk á markað

Erling Ingvason var frummælandi fyrir hönd Dögunar og hélt hann mjög gott erindi um árangursleysi og óréttlæti kvótakerfisins. Sjá hér.

Einnig er hægt að horfa á fundinn hér.

 


Þrælslund við bankakerfið

Stóru viðskiptabankarnir högnuðust um rúmlega 80 milljarða króna á síðasta ári.

Nokkrir stjórnmálamenn gagnrýna bankana og almenningur tuðar við eldhúsborðið. Bankarnir eru ekki góðgerðastofnanir svo  það þýðir ekkert að kvarta við þá. Það er á valdi stjórnvalda að setja lög sem takmarka völd bankakerfisins. Staðreyndin er því miður sú að stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert til að hafa stjórn á fjármálakerfinu. Miklu fremur mætti segja að þau hafi dansað með fjármálakerfinu.

Af hverju er ekki búið að aðskilja viðskipta og fjárfestingabanka. Hvað varð um loforðin um afnám verðtryggingarinnar og hvar er lyklafrumvarpið?

Bankarnir skulda endurreisnina og þeir skulda ríkisábyrgðina á innistæðum landsmanna. Þannig gæti ríkið fengið hundruð milljarða í ríkiskassann en engin tilraun hefur verið gerð til að rukka inn þessa fjármuni. Það er því nokkuð ljóst að bankarnir stjórna og fara sínu fram.

Hvað veldur?

Ríkið er háð bönkunum um peninga þegar skatttekjur þess eru að þrotum. Þá selur ríkið skuldabréf eða víxla til bankanna til að skapa peninga fyrir sig. Það er bönkunum í sjálfsvald sett hvort þeir kaupi ríkisvíxla eða skuldabréf af ríkinu. Ef bankarnir neita þá vantar ríkinu peninga til að sinna þjónustu sinni. Þar sem bankarnir halda um budduna þá stjórna þeir.

Þessu verður að breyta og það verður bara gert með nýrri löggjöf þar sem valdið til að búa til peninga verður fært frá bönkunum til ríkisins. Krafan um nýja löggjöf verður að koma frá almenningi því ekki virðist löggjafinn hafa burði í sér til þess.

 

 


Uppgjör við hrunið

 

Síðasta vika var um margt stórmerkileg. Það varð ákveðið uppgjör við hrunið sem almenningur hefur kallað eftir allt frá hruni. Fyrst má nefna ákvörðunina um kaup á gögnum úr skattaskjólum. Eftir undarlegt útspil fjármálaráðherra sem byrjaði með gagnrýni hans á skattrannsóknarstjóra en endaði með  ákvörðun um kaup á umræddum gögnum. Þá niðurstöðu má m.a. þakka sterkum viðbrögðum úr samfélaginu og kröfunni um réttlæti. Það var mikið gleðiefni að sjá að baráttan getur skilað árangri og sýnir að við almenningur verðum að halda vöku okkar.

Í lok vikunnar urðu líka önnur tímamót sem hægt er að skilgreina sem uppgjör við hrunið en þá dæmdi Hæstiréttur í Al-Thani málinu svokallaða. Þar fengu menn sem voru í guðatölu fyrir hrun þunga dóma fyrir svindl og að stunda blekkingarleiki sem höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Margir voru búnir að gefa upp alla von um réttlæti og þess vegna varð þarna smá vonarglæta um að eitthvað væri að breytast.

Ég vona svo sannarlega að það sé rétt. Hvað á að breytast? Að mínu mati eigum við ekkert að vera að velta okkur uppúr viðbrögðum gerenda (þeir eru búnir að fá alveg nógu mikla athygli) heldur ættum við að horfa til viðbragða fjármálakerfisins og valdhafanna. Ætla þeir að læra eitthvað af mistökum fortíðarinnar og setja hérna nýjar leikreglur sem setja skorður á græðgi og spillingu fjármálakerfisins. Þetta er verkefni okkar og það er ekki lítið.

 


Umræða um efnahagsmál

Flestum okkar þykir ekkert gaman að gera upp heimilisbókhaldið. Sérstaklega er leiðinlegt að horfast í augu við visareikninginn um hver mánaðarmót. Við gerum þetta nú samt því annars fer illa fyrir okkur. Íslendingar hafa ekki gert upp heimilisbókhaldið eins og Kári Stefánsson bendir okkur á. Við höfum ekki látið þá sem ollu tjóninu taka næga ábyrgð á gjörðum sínum Svipað og ef ég léti nágrannann borga visasukkið mitt. Með þetta í huga og með umræðu um losun gjaldeyrishafta þá rifjaðist upp fyrir mér inngangurinn að efnahagstefnu Dögunar sem ég læt hér fylgja með.

Dögun telur mikilvægt að viðurkenna þann víðtæka vanda sem við er að fást í efnahagskerfinu.

  • Inni í hagkerfinu eru bókfærðar umtalsvert meiri peningalegar eignir heldur en raunhæft er að unnt verði að standa við á komandi árum.   Þar er einkum um að ræða leifar af ósjálfbærum bóluhagnaði þenslutímans í formi vogunarpeninga (jöklabréfa) og hins vegar alltof rífleg innistæðutrygging sem neyðarlögin 2008 bjuggu til úr rústum föllnu bankanna.   Stökkbreyttar skuldir landsmanna vegna afleiðinga Hrunsins eru meiri en unnt verður að greiða og að óbreyttu vex vandinn með sjálfvirkri aukningu skulda í gegn um verðtryggingu lána.
  • Ríkissjóður hefur verið skuldsettur til að leggja bönkunum til verulegt stofnfé við endurreisn og til að greiða fyrir gjaldþrot Seðlabankans -  auk þess sem gjaldeyrisvarasjóður er allur tekinn að láni.   Vaxtakostnaður ríkissjóðs árið 2013 nálgast 90 milljarða sem skerðir velferðarkerfið og lamar fjárfestingargetu ríkisins til skemmri og lengri tíma.
  • Gjaldeyrishöftin og tilraunir Seðlabankans til handstýrðra afsláttarviðskipta búa til og framlengja sjúkt ástand.    Gjaldeyrisbúskapur Íslands leyfir ekki að gert verði upp við „andlitslausa eigendur“ endurreistu bankanna og ekki er heldur mögulegt að gera ráð fyrir því að unnt verði að afnema gjaldeyrishöftin að óbreyttu án gengishruns og gjaldeyriskreppu sem mundi lama Íslenskt efnahagslíf til lengri tíma.   Eignarhald vogunarsjóða á bankakerfinu verður að taka enda.

Eru Íslendingar í skattaskjólum

Íslenskum stjórnvöldum  bjóðast upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Þeir sem bjóða viðkomandi upplýsingar eru erlendir rannsóknarblaðamenn.  Íslensk stjórnvöld þurfa að greiða blaðamönnunum fyrir þessar upplýsingar. Stjórnvöld eru eitthvað hikandi sem er  frekar undarlegt því ýmis lönd eins og Þýskaland hafa keypt þessar upplýsingar og hagnast vel á því.  Löndin hafa greitt ákveðna upphæð fyrir þessar upplýsingar en hafa fengið margfaldar tekjur í staðinn. Íslenska ríkinu sárvantar fé til mennta og heilbrigðismála. Væri ekki einfalt fyrir núverandi  Ríkisstjórn að sækja fé á þennan hátt. Við í Dögun viljum leggja okkar að mörkum  og hjálpa stjórnvöldum í þessari vegferð og þess vegna höfum við komið okkur saman um þetta Áramótaheit.

Áramótaheit Dögunar - Samþykkt landsfundar 8. nóvember 2014.

Skorað er á Alþingi að tryggja að fyrningarfrestir í málum sem snúa að skattaundanskotum til aflandsfélaga og skattaskjóla verði lengdir eins og þörf er, hluti mögulegra brota fyrnist um áramót 2014-2015 að óbreyttu.

Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, gefa hér með íslensku þjóðinni eftirfarandi áramótaheit:

Íslenska ríkinu/Alþingi er heimilt að veita  allt að 1/10 af framlagi ríkisins árið 2015, sem ætlað er að renni til starfsemi stjórnmálasamtakanna Dögunar, til embættis Skattrannsóknarstjóra, til kaupa á gögnum um fjármuni í erlendum skattaskjólum.

Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, skorar hér með á önnur stjórnmálasamtök eða flokka að taka þátt í þessu átaki og bjóða slíkt hið sama.

Formenn allra stjórnmálasamtaka og flokka sem fá framlag frá íslenska ríkinu fá senda þessa áskorun í ábyrgðarpósti. Dögun mun birta svörin jafnóðum og þau berast.

 

Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, býðst einnig til að halda utan um sjóð frjálsra fjárframlaga einstaklinga, lögaðila og fyrirtækja til að kaupa gögn um fjármuni í erlendum skattaskjólum. Þau framlög verða endurgreidd ef ekki reynist þörf fyrir þau eða gefin áfram samkvæmt beiðni gefanda.

 

Reikningurinn er hjá Sparisjóði strandamanna og er númer 1161-05-250244 á kennitölu Dögunar, 670209-1050.

 

Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.


 

 


Dögun og Borgarbanki

Dögun í Reykjavík er að bjóða fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum. Dögun er róttækt umbótasinnað afl sem vill fara nýjar leiðir. Eitt af stefnumálum okkar er að stofna banka í eigu borgaranna. Hingað til hafa bankar á Íslandi stundað spilavítishegðun og almenningur hefur brennt sig illa á bankastarfsemi eins og bankahrunið 2008 er mjög skýrt dæmi um. Í stuttu máli þá fór gróðinn til einkaaðila en tapið til skattgreiðenda. Því viljum við í Dögun breyta.

Við viljum að Reykjavíkurborg stofni Borgarbanka. Þetta er ekki ný hugmynd og við erum ekki að finna upp hjólið. Í Bandaríkjunum í fylkinu Norður Dakóta á fylkið bankann og hann var stofnaður 1919. Þeim banka er bannað að fjárfesta í viðsjárverðum gjörningum og er því eingöngu viðskiptabanki. Hann er auk þess samfélagslegur því hann styður við starfsemi sem venjulegir bankar hafa ekki áhuga á. Bankahrunið 2008 hafði lítil sem engin áhrif á hann því hann var ekki með nein eitruð epli í farteskinu.

Þessi fylkisbanki í Norður Dakóta hefur verið góð mjólkurkýr fyrir fylkið. Sá hagnaður sem þessi banki hefur skapað hefur runnið í sjóð fylkisins og hefur stundum verið svo mikill að þeir hafa getað lækkað skatta. Við í Dögun viljum gera slíkt hið sama. Þannig viljum við m.a. fjármagna starfsemi Reykjavíkurborgar. Við teljum að hagnaður af bankarekstri sé ekki einkamál einkaaðila heldur eigi að nýta hagnaðinn almenningi til hagsbóta.


Lýðræðið og flugvöllurinn í Reykjavík

þessi grein mín birtist í Kvennablaðinu fyrir nokkrum dögum;

 

Dögun í Reykjavík er nýtt stjórnmálaafl sem býður nú í fyrsta skipti fram til sveitarstjórnarkosninga.

Dögun í Reykjavík leggur áherslu á beint lýðræði. Til þess að það verði gerlegt verða íbúarnir að fá fullan aðgang að upplýsingum og tæki til að iðka þátttökulýðræðið. Við viljum að íbúarnir hafi meiri möguleika á að stjórna í nærumhverfi sínu og það er markmið okkar að 10% kjósenda í Reykjavík geti farið fram á íbúakosningu um öll mál.

Lýðræðisleg vinnubrögð stjórnvalda, bæði í landsmálunum og á sveitarstjórnarstiginu hafa því miður einkennst af því að kjósendur virðast gleymdir á milli kosninga og meira virðist vera hlustað á sérhagsmunaaðila en hinn almenna kjósanda. Kjörnir fulltrúar virðast því hafa talið sig einráða við að ráðstafa þeim völdum sem ættu að tilheyra almenningi alltaf og undir öllum kringumstæðum. Ef svo er í raun er ekkert lýðræði til staðar á milli kosninga heldur fáræði. Þessu vill Dögun breyta.

Flugvallarmálið er sorglegt dæmi um misnotkun á valdi. Hvatinn til þess er eindreginn vilji kjörinna fulltrúa til að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, hvað sem það kostar.  Að undirskriftir 70 þúsund einstaklinga hafi engin áhrif á þá sem hafa völdin er mjög kvíðvænlegt. Auk þess sýna skoðanakannanir góðan meirihlutastuðning við flugvöll í Vatnsmýrinni. Ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til að hleypa almenningi að ákvarðanatökunni í þessu hitamáli. Sennilega telja Ráðhússmenn þess ekki þörf. Dögun vill að í þessu máli sem og í öllum öðrum eigi almenningur aðkomu. Rétthugsunin má aldrei fara á það stig að lýðræðisástin takmarkist eingöngu af eigin skoðunum kjörinna fulltrúa. Þess vegna er svo mikilvægt að ákveðinn fjöldi kjósenda geti krafist atkvæðagreiðslu um einstök mál  og ætti niðurstaða úr slíkum atkvæðagreiðslum  ávallt að vera bindandi .

Sameinumst um að koma á öflugu þátttökulýðræði þar sem almenningur er virkur, kynnir sér málin og tekur þátt. Niðurstaðan ræðst af meirihlutanum. Kjörnir fulltrúar eiga að sjá um framkvæmd á vilja meirihlutans. Til að svo megi verða þarf hugarfarsbreytingu hjá öllum aðilum, einnig almenningi. Tækni nútímans gerir þetta vel gerlegt. Hefjum lýðræðið til vegs og virðingar en setjum flokksræðið í rykfallnar geymslur sögunnar.


Vélmenni - Hugsjónamanneskja

´

 

Þegar einn félagi minn frétti að ég væri að taka þátt í framboði Dögunar til sveitarstjórna þá sagði hann við mig að ég væri alltof mikil hugsjónamanneskja fyrir slíkt því að kjósendur vildu bara vélmenni sem tala og tala og ekkert væri að marka. Ég  tók þessum titli vel en var satt að segja svolítið hugsi yfir þessari fullyrðingu. Ég held að þessi fullyrðing um að fólk vilji vélmenni frekar en hugsjónafólk sé röng en lýsi fremur þeim vonbrigðum sem kjörnir fulltrúar hafa valdið kjósendum.

Ég er viss um að það er fullt af hugsjónafólki út um allt land að móta stefnu  fyrir komandi kosningar. Ég er sannfærð um að flest af þessu fólki er hugsjónafólk og vill gera góða hluti fyrir samfélagið. Getur verið að hugsjónafólk breytist í vélmenni fyrir flokk eða hagsmunaöfl  þegar það kemst til valda?  Það er nokkuð ljóst að það er ekki nóg að kjósa fólk á fjögurra ára fresti og gefa því svo frítt spil um framhaldið. Oft er sagt að völd spilli.  Hvernig getum við komið í veg fyrir það?

  Ég held að lausnin felist fyrst og fremst í því að gefa fólki tæki til að veita fulltrúum sínum aðhald. Það þarf að efla beint lýðræði og gefa fólki tækifæri á að koma að ákvarðanatökum. Ég vil að ákveðinn fjöldi kjósenda geti farið fram á  kosningar um einstök mál og að niðurstaða úr þeirri kosningu sé bindandi en ekki ráðgefandi. Aðgengi almennings að upplýsingum er forsenda þess að fólk geti tekið upplýsta afstöðu til málefna. Þess vegna er mikilvægt að upplýsingar séu aðgengilegar öllum en ekki bara embættismönnum og kjörnum fulltrúum. Til þess að koma á þátttökulýðræði þarf auka upplýsingaskyldu stjórnvalda svo íbúarnir standi jafnfætis kjörnum fulltrúum.  Ég hef trú á kjósendum  og ég trúi því að þeir vilji gott hugsjónafólk til að vinna fyrir sig. Þeir geta ekki treyst fallegum kosningaloforðum sem stjórnmálamenn gefa fyrir kosningar og þess vegna þurfa kjósendur verkfæri til að veita valdinu aðhald . Þetta verkfæri er beint lýðræði og  aðgengi að upplýsingum.

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband