Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Hvað fengu Framsóknarmenn mikið?
10.4.2009 | 00:34
Eftir annasaman dag gluggaði ég aðeins á netið. Mikið í gangi vegna rekstrafé hins pólitíska arms stóreignamanna Íslands. Minniháttar greiðslur fyrir lítil viðvik er að gera allt vitlaust.
Ef við tölum í fullri alvöru þá eru tíðindi að gerast. Ríkisútvarpið er að segja okkur frá sérkennilegri fléttu.
1. 20 desember 2006 er einkavæðingarefnd falið að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.
2. Á þeim sama fundi lá fyrir bréf frá Glitni að hann vildi kaupa.
Hvernig vissi Glitnir um þetta og var fundurinn haldinn vegna áhuga einkaaðila á orkulindum okkar.
3. 29 desember fær Sjálfstæðisflokkurinn 30 milljónir frá FL grúpp.(=Glitnir)
4. Um vorið kaupir GGE (=FL=Glitnir) hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.
Sjálfstæðismenn fengu 30 milljónir fyrir greiðasemina en hvað fengu Framsóknarmenn mikið?
Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra framsóknarflokksins var með í þessu því hann og Árni Matt fólu einkavæðingarefnd að selja hlut ríkisins. Því hlýtur Framsókn að hafa fengið sinn skerf samkvæmt helmingaskiptareglunni. Sorglegt ef satt, því meiri byltingasinna hef ég ekki kynnst en Jóni við eldhúsborð föður míns í den.
Húseigendur í útrýmingarhættu?
4.4.2009 | 23:07
Núna er búið að samræma öll úrræði fyrir þá sem geta ekki greitt skuldir sínar af fasteignum. Úrræðin verða þau sömu og hjá Íbúðarlánasjóði. Það rumska smá vangaveltur í þessu samhengi. Ekki sjást nein merki þess að afskrifa eigi skuldir. Það á bara að aðlaga og lengja svo skuldin verði greidd, fyrr eða síðar. Hér er um grófa mismunun að ræða því skuldir hafa verið afskrifaðar hjá mörgum öðrum en venjulegum húseigendum. Þar að auki er tilurð skuldarinnar mjög vafasöm. Verðbólguhækkunin sem við höfum upplifað er ekki vegna meiri neyslu okkar á viðkomandi tímabili. Hækkun íbúðarlána er að miklu leiti orsökuð af röngum ákvörðunum hjá lánastofnunum en ekki lántakenda. Það voru bankarnir sem skuldsettu þjóðina 12 falda þjóðarframleiðslu. Það voru bankarnir sem lánuðu gegn haldlausum veðum. Það voru bankarnir sem tóku stöðu gegn krónunni. Hinum varkára bankamanni var úthýst úr íslenskum fjármálheimi og því hækka lánin okkar.
Því væri mun nær að taka upp samræmdar aðgerðir sem miða að því að lánastofnanir greiði til baka þá fjármuni sem hafðir hafa verið af okkur húseigendum. Að öðrum kosti mun hinn almenni húseigandi deyja út sem fyrirbæri.
Samræmd úrræði vegna greiðsluerfiðleika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Biðreikningur húseigenda.
4.4.2009 | 00:19
Frjálslyndi flokkurinn vill reyna að leysa vandamál þeirra sem eru með verðtryggð fasteignalán. Flestir eru því sammála að verðtryggingin sé böl sem beri að afnema. Menn eru enn þvæla því fyrir sér hver lausnin sé.
Frjálslyndi flokkurinn vill að lánagreiðendur borgi aldrei meira en en 5% verðtryggingu auk vaxta. Þetta gildi frá s.l. áramótum. Það sem útaf stendur fari á sérstakan biðreikning. Síðar þegar um hægist um og ráðrúm gefst til verður biðreikningurinn gerður upp. Þá verður meginreglan sú að menn greiði af honum eftir getu en afgangurinn sennilega afskrifaður. Ávinningurinn er mikill því fólk getur verið áfram í húsunum sínum áhyggjulaust og haldið áfram að ala önn fyrir sér og sínum. Lánastofnanir losna við að eignast fjöldann allan af eignum sem þær eiga í vandræðum með að koma í verð á nauðungaruppboðum.
Það er vel hugsanlegt að þegar tillit er tekið til allra þátta að megnið af biðreikningnum verði afskrifað eða leiðrétt í fyllingu tímans. Hugsunin er sú að sú verðbólga sem geisar núna er ekki raunveruleg, því um gamla verðaukningu er að ræða. Auk þess er verðbólgan sem er að mælast núna tilkomin að hluta til vegna þess að bankarnir tóku stöðu gegn krónunni og juku þar með verðbólguna. Það er ekki sök húseigenda og því ekki réttlátt að þeir beri þær byrðar
Biðreikningurinn gefur okkur ráðrúm til að meta alla þessa þætti. Þeim sem hugnast ekki eða telja sig ekki í þörf fyrir þessa leið geta sagt sig frá henni. Aftur á móti er aðferðin altæk því allir munu vera þátttakendur frá upphafi og sjálfsagt njóta góðs af.
Bónus og kvótagreifarnir.
1.4.2009 | 17:37
Bónus og kvótagreifar.
Það er auðvelt fyrir borgarbarn að skilja óréttlæti kvótakerfisins ef maður gefur sér bara smá tíma. Núna er það lífsspursmál fyrir okkur á mölinni því bankarnir sem áttu að framleiða ómælt úr engu eru farnir. Því verðum við að fara aftur í slorið. Áður fyrr gaf sjávarútvegurinn vel af sér, gull hafsins, menn mokuðu inn gjaldeyri fyrir íslenska þjóð. Núna er öldin önnur. Menn fiska reyndar enn vel. Fyrirtækin eru bara á hausnum, sjávarútvegurinn á Íslandi skuldar morð fjár. Sérkennileg staða hjá iðnaði sem aflar vel og selur sínar afurðir, dæmið ætti að ganga upp ekki satt?
Inn í þessa aldagömlu jöfnu viðskipta, framleiða og selja, var sett smá hjáleið. Kvótakerfið og framsal þess. Svipað og að ég væri kvótagreifi og ætti alla væntanlega viðskiptavini í Bónus. Jóhannes í Bónus yrði að borga mér 5000 kall fyrir hvern viðskiptavin sem verslaði hjá honum. Því yrði Jóhannes að kaupa af mér kvóta af viðskiptavinum. Ef 25 þúsund manns versluðu í Bónus á dag þá þyrfti Jóhannes að borga mér 125 milljónir á dag fyrir kvótann.
Við þessar aðstæður gengur ekki að reka fyrirtæki. Þau safna bara skuldum vegna kvótakaupa. Útgerðarmaðurinn þarf ekki eingöngu að kaupa bát, net, olíu og slíka hluti heldur þarf hann að greiða kvótagreifanum fyrir fá að veiða fiskinn sem við öll eigum. Dæmi eru um að menn hafi greitt allt að fimmtán ára ársveltu, þ.e. að fyrstu fimmtán ár útgerðarinnar fóru í að greiða fyrir kvótann. Eftir situr sjávarútvegurinn með skuldirnar en kvótagreifinn hefur allt sitt á þurru, ástæðan er sú að hann hefur engan kostnað af því að eiga óveiddan fisk.
Í kreppunni kristallast heimska kvótakerfisins. Núna þarf íslensk þjóð tekjur. Aðal mjólkurkúin okkar, sjávarútvegurinn, sem hefði getað bjargað okkur er stórskuldugur. Hvernig á atvinnugrein í slíkri stöðu að skila hagnaði til þjóðarbúsins? Frjálslyndi flokkurinn hefur ætið varað við þessari vitleysu og vill breyta þessu kerfi. Kvótinn á að færast aftur til þjóðarinnar sem getur síðan leigt hann á hógværu verði án möguleika á braski. Það gerir nýliðun mögulega sem er ekki í dag. Ein mesta breytingin er að hjáleiðin, kvótaeigreifar, myndu ekki fá ómælda fjármuni í eigin vasa bara fyrir að hafa umráðarétt yfir óveiddum fiski. Þá er von til þess að sjávarútvegurinn verði aftur sá bjargvættur sem hann áður var.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Lásu þeir stefnuskrána okkar?
28.3.2009 | 17:10
Grein sem birtist eftir mig í Morgunbalðinu 27 mars 2009.
Reiðin var mikil í vetur og kröfur mótmælenda skýrar. Fyrir utan stjórnarskipti vildi fólk afnám verðtryggingar, kvótann til fólksins og lýðræðisumbætur. Allt mjög kunnuleg baráttumál Frjálslynda flokksins til margra ára.
Í málefnahandbók flokksins fyrir síðustu kosningar er sterklega varað við skuldum fyrirtækja landsins, á þeirri forsendu að ekki sé til innistæða til endurgreiðslu þeirra. Í stefnuskrá flokksins er lögð áheyrsla á valddreifingu og gegnsæi, þ.e. aukið vald til almennings. Því voru þær kröfur sem heyrðust um borg og bí mjög kunnugar kjósendum Frjálslynda flokksins - því þær höfðu fundið sér stað í stefnu flokksins mörg undanfarin ár. Því eru það mikil ósannindi að halda því fram að Frjálslyndi flokkurinn sé eins máls flokkur. Slagorð sem notað er af andstæðingum okkar og er dæmigert fyrir ómálefnalega gagnrýni. Segir í raun meira um þá en okkur.
Afnám verðtryggingar er réttlætismál. Verðtryggingin er hönnuð til að berja niður lántakendur, gerir þá valdalausa og án nokkurrar samningsaðstöðu um lánakjör sín. Fjármagnseigandinn sem lánar hefur allt í hendi sér, samningstaðan er hans. Hann getur ekki tapað vegna verðtryggingarinnar. Auk þess þarf hann ekki að leggja sig neitt fram í sínum rekstri því tap er ekki á dagskrá fyrirtækja sem lána á slíkum kjörum. Þar sem ábyrgð er engin verður óráðssía og spilling. Frásagnir af bruðli og lúxus lánastofnanna Íslands eru glögg dæmi þess. Til að hámarka óskammfeilnina tóku bankarnir að auki stöðu gegn lántakendum við kaup og sölu á gjaldeyri. Frjálslynda flokknum finnst það grafalvarlegar ranghugmyndir, ef valdhafar ætla sér að setja fjármagnseigendur í forgang fram yfir skilvísan almenning. Það væri til að hámarka óréttlætið gagnvart heimilum landsmanna. Frjálslyndi flokkurinn fagnar því að aðrir stjórnmálaflokkar eru að tileinka sér gamla stefnu okkar um afnám verðtryggingar.