Stjórnmálayfirlýsing Frjálslynda flokksins mars 2010

Stjórnmálayfirlýsing Frjálslynda flokksins mars 2010

Því verður ekki á móti mælt að ef stefna Frjálslynda flokksins hefði orðið ofan á við stjórn landsins á síðasta áratug, þá stæði þjóðin nú í allt öðrum og miklu betri sporum.  Frjálslyndi flokkurinn barðist gegn einkavinavæðingunni, verðtryggingunni, skuldsetningu þjóðfélagsins og illræmdu kvótakerfi sem brýtur í bága við mannréttindi.

Eina leiðin fyrir Íslendinga út úr þröngri stöðu er að auka framleiðslu og gjaldeyrisöflun en alls ekki að fara leið AGS og Fjórflokksins um stóraukna skuldsetningu, niðurskurð og hækkun skatta.  Við endurskoðun efnahagsáætlunar AGS verði tekið mið af íslenskum raunveruleika. Beinasta leiðin við öflun aukins gjaldeyris er að gera betur í þeim atvinnugreinum sem þjóðin gerir vel í s.s. sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað rökstutt að hægt sé að ná miklu mun meiri verðmætum í sjávarútvegi án aukins kostnaðar með því að fiskur fari á frjálsan markað, taka í burt hvata til brottkasts, veiðiheimildir verði auknar verulega og bæta nýtingu.  Möguleikar ferðaþjónustunnar eru ótæmandi enda er landið fagurt og gott en almennt glímir atvinnugreinin líkt og aðrar við gríðar háa vexti sem verður að lækka. Nauðsynlegt er að samningar um stóriðju verði gagnsæir og tryggi úrvinnslu afurða. Ýta á  undir almenna nýsköpun í smáu sem stóru í;  líftækni, tækni, landbúnaði og þjónustu. Horfa skal til skynsamlegra lausna óháð kreddum,  við eflingu atvinnulífs s.s. að tryggja iðnaði og garðyrkjubændum rafmagn á hagstæðu verði.

Kreppa er staðreynd á Íslandi en hún er skilgetið afkvæmi sambúðar spilltrar stjórnmálastéttrar og fjárglæframanna.  Frjálslyndi flokkurinn hafnar því að afleiðingarnar af henni lendi með fullum þunga á þeim sem síst skyldi og eiga enga sök. Fjármagnseigendum var bættur strax skaðinn en skuldugur almenningur látinn blæða og blæðir enn.

Allir eiga rétt á mannréttindum og viðunandi lífskjörum til verndar heilsu og vellíðan.  Stöðva verður að fólk sé hrakið út af heimilum sínum sökum; kreppunnar, verð- og gengistryggðra lána. Tryggja verður sanngjarna lausn, lágmarksframfærslu og að sérstök áhersla verði lögð á aðbúnað þeirra sem erfa munu landið.  Endurskoða þarf samspil álagningar skatta og beitingu skerðingarreglna hjá Tryggingarstofnun svo tryggja megi eldri borgurum, öryrkjum og atvinnulausum viðunandi lágmarks laun.

Staða mála í íslensku samfélagi kallar á endurmat á skipulagi samfélagsins  og á það jafnt við um stjórnskipan  og samkrull hagsmunasamtaka.  Frjálslyndi flokkurinn hvetur fólk til virkari þátttöku í kjarabaráttu en verkalýðsforystan er orðin verulega höll undir Fjórflokkinn og  á í óskiljanlegu samkrulli við Samtök atvinnulífsins.  Minni atvinnurekendur og nýliðar í rekstri eiga lítið skjól í SA sem virðast telja það heilaga skyldu að viðhalda óbreyttu kerfi sérhagsmuna. 

Frjálslyndi flokkurinn hefur frá stofnun lagt áherslu á að landið verði eitt kjördæmi.   Ráðherrar skulu víkja af þingi til þess að skerpa á þrískiptingu valdsins.

Frjálslyndi flokkurinn lýsir yfir stuðningi við þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, að vísa þeirri ákvörðun til þjóðarinnar, hvort að þjóðin eigi að greiða skuldir óreiðumanna. Frjálslyndi flokkurinn er fylgjandi beinu lýðræði. Þjóðaratkvæðagreiðslur færa valdið til þjóðarinnar  frá stjórnmálastétt sem bundin er á klafa þröngra sérhagsmuna. 

Tryggja skal rétt minnihluta þingsins til  þess að vísa málum til þjóðarinnar en það leiðir til þess að leiðtogar stjórnarflokka sem ráða sínu þingliði verði ekki einráðir við lagasetningu

Sömuleiðis er það krafa að 10% atkvæðisbærra  manna geti með undirskrift hjá opinberu embætti, s.s. sýslumanni eða ráðhúsi, látið fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál.  Sömuleiðis skal halda í málskotsrétt forseta Íslands.

Festa skal í sessi að stjórnlagaþing verði kallað saman á 25 ára fresti til þess að  tryggja að grundvallarlög lýðveldisins verði tekin til endurskoðunar fjórum sinnum á öld.

Við hrunið hafa mikilvægustu stofnanir landsins misst trúverðugleika sinn og fer Hæstiréttur ekki varhluta af því. Grundvöllur þess að bæta þar úr er að það ríki almenn sátt í samfélaginu um skipan dómara að tilnefning dómsmálaráðherra þurfi samþykki aukins meiriluta Alþingis

Bæta þarf vinnubrögð Alþingis m.a. svo að fundir þingnefnda verði í  heyranda hljóði en það tryggir opin og lýðræðisleg vinnubrögð.

Standa skal vörð um að háskólar og fjölmiðlar ræki hlutverk sitt sem miðstöð og miðlun gagnrýnar hugsunar en mikið hefur skort þar á.  Frjálslyndi flokkurinn leggur til að Háskóli Íslands þiggi ekki stöður eða styrki til einstakra embætta, heldur verði styrkjum veitt í einn pott sem úthlutað verði til rannsókna.  Það yrði til þess að sérhagsmunaöfl, s.s. LÍÚ, geti ekki búið áróður í fræðilegan búning og gengisfellt  háskólastarf.  Tímabært er að taka aðferðir Hafró til gagngerrar endurskoðunar. Uppbygging fiskistofnanna  síðustu áratugina hefur ekki gengið eftir, enda stangast aðferðir Hafró á við viðtekna vistfræði.

Frjálslyndi flokkurinn mun setja sér siða- og umgengnisreglur sem fela m.a. í sér að frambjóðendur undirriti drengskaparheit um að láta af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn ef viðkomandi verður viðskila við hann.

Nú í niðursveiflunni,  er talsverður vandi að afla fjár í gegnum skattkerfið til þess að halda uppi samfélagslegum gæðum  á borð við; menntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, trygga lágmarksframfærslu o.s.f. Hætt er við að aukin skattheimta skrúfi efnahagslífið í enn frekari niðursveiflu og því mikilvægt að fara varlega í skattahækkanir. 

Ísland ætti í ljósi biturrar reynslu  vafasamra fjármagnsflutninga að verða leiðandi á alþjóðavettvangi um upptöku Tóbínskatts á fjármagnsflutninga á milli landa. 

Ekki verður séð að Ísland eigi nokkuð erindi inn í ESB, en sambandið er hvorki vont né gott í eðli sínu heldur stórt hagsmunatengt stjórnkerfi. Sérstaklega í ljósi fiskveiðistefnu sambandsins og harðneskjulegrar afstöðu í garð Íslendinga í kjölfar bankahrunsins.

Íslenska þjóðin getur átt bjarta framtíð en þá verður hún að þora að losa sig úr viðjum séhagsmunabandalaga og vinna sameinuð að aukinni verðmætasköpun og atvinnu í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir síðast.  Já þetta var frábært þing.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2010 kl. 15:20

2 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk sömuleiðis Ásthildur. Þetta  var svo sannarlega málefnalegt og gagnlegt þing. Ég er mjög ánægð með stórnálayfirlýsinguna.og við þurfum núna að vera sugleg að koma stefnunni á framfæri. það hefði verið gaman að hafa meiri tíma í spjall um daginn og veginn en við getum vonandi bætt úr því seinna. Bestu kveðjur á Ísafjörð.

Helga Þórðardóttir, 23.3.2010 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband