Ég sætti mig ekki við niðurskurð AGS á velferð
15.5.2010 | 16:39
Sagan kennir okkur að þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur löndum til hjálpar í kreppum versna kjör almennings verulega. AGS gengur út frá því að lánadrottnar fái sitt og að því loknu nær þjóðin hallalausum fjárlögum með niðurskurði. Niðurstaðan er þá sú að sukkararnir í bankakerfinu sleppa og almenningur borgar allan skaðann. Þetta er margendurtekin saga í mörgum löndum og getur hver sem er kynnt sér þá sögu á netinu. Aftur á móti virðist enginn íslenskur blaðamaður hafa kynnt sér þessa sögu í þaula.
Íslenska ríkisstjórnin ætlar greinilega að fylgja fyrirmælum AGS út í ystu æsar. Árni Páll er sendur út af örkinni til að segja landslýð sannleikann fyrir haustið. Nú verður enn meira skorið niður og fólki sagt upp störfum. Fátækt mun aukast enn frekar og sjúkdómar munu stjórna örlögum okkar í ríkara mæli sökum niðurskurðar í velferðarmálum.
Velferðakerfi Reykjavíkurborgar mun ekki fara varhluta af þessari stefnu AGS í boði ríkisstjórnarinnar. Reykjavíkurborg hefur ekki tök á því að fjarlægja meinvaldinn,AGS, og verður því að búa sig undir afleiðingarnar. Því er mjög mikilvægt að almenningur velji sér fulltrúa í borgarstjórn sem skilja samhengið og eru reiðubúnir til að berjast fyrir velferðinni með kjafti og klóm.
Við í Frjálslynda flokknum munum berjast með öllum okkar mætti fyrir viðhaldi velferðarinnar í Reykjavíkurborg.
Velferðarþjónustan skorin niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimspeki, Sveitarstjórnarkosningar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Eins og staðan er i dag þá er ríkið rekið með tæplega 100 milljarða halla, sem er fjármagnaður af AGS. Ég er alveg sammála þér að við eigum að sparka AGS í burtu, og þess vegna eigum við að reyna að reka ríkið með hagnaði. Þetta krefst annað hvort 25% niðurskurð á öll útgjöld ríkissins, eða 20% aukna skattlagningu. En já burt með AGS, það þarf að reka ríkið með hagnaði sem fyrst!!
Bjarni (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 09:43
Það er náttúrulega augljóst að versnandi kjör almennings eru AGS að kenna. Núverandi 100 milljarða eyðsla á ári og uppsöfnuð 5.000 milljarða eyðsla fyrri ára umfram tekjur á þar engan hlut að máli. Hvernig er hægt að ætlast til þess að við berum ábyrgð á skuldum "þjóðarinnar", við einstaklingarnir, "þjóðin" er allt annað fólk, ég held það búi í útlöndum, kemur mér ekkert við hvað það fólk skuldar.
AGS gengur út frá því að lánadrottnar fái sitt og að við náum hallalausum fjárlögum. Þetta er margendurtekin hryllingssaga í mörgum löndum og getur hver sem er kynnt sér þá sögu á netinu.
AGS ætti að skammast sín fyrir að láta okkur fá peninga til að halda þó einhverju í rekstri. Og ætlast svo til að við greiðum skuldir okkar, hver hefur heyrt aðra eins vitleysu. Það er nærri því eins glæpsamlegt og hótunin um að lána okkur ekki ef við semjum ekki áætlun um hvernig við ætlum að rétta af hallan og greiða til baka.
Gera þeir sér ekki grein fyrir því að við þurfum engin sjúkrahús, eldsneyti á bílana okkar, sykur, hveiti, skóla og pillur. Við hefðum það mun betra ef við færum aftur í að lifa sældarlífi forfeðra okkar. Mjölskip einu sinni á ári fyrir Danskt söfnunarfé og við erum í góðum málum.
Og hér í Reykjavík munum við spara stórar upphæðir og viðhalda velferðarkerfinu, nei efla velferðarkerfið til muna.
Grasalækningar koma í stað AGS fjármaðnaðra lyfja og plástra.
Fyrir hverja 100 starfsmenn borgarinnar sem vinna launalaust má bjóða öldruðum frítt fæði.
Fyrir aðra 100 má gefa öllum öryrkjum hest og kerru, við þurfum ekki AGS fjármögnuð ökutæki.
Og fyrir nokkur þúsund verðum við með eitt besta velferðarkerfi í heimi.
Því er mjög mikilvægt að almenningur velji sér fulltrúa í borgarstjórn sem skilja samhengið.
sigkja (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.