VERÐTRYGGINGIN ER AÐ KÆFA HEIMILIN
21.1.2012 | 19:57
Forystumenn núverandi ríkisstjórnar, þau Jóhanna og Steingrímur, hafa margsinnis lofað að afnema verðtrygginguna. Þau hafa svikið það jafn oft. Verðtryggingin gagnast fyrst og fremst fjármagnseigendum og lánadrottnum. Hún gerir alla vandaða lánastarfsemi af hálfu lánadrottna óþarfa því þeir geta aldrei tapað á sínum lánum vegna verðtryggingarinnar. Að sama skapi setur verðtryggingin lánþegann í vonlausa stöðu því hann getur á engan hátt gert sér grein fyrir greiðslubyrðinni. Mér finnst í hæsta máta óeðlilegt að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferðarstjórn komi svona fram við lántakendur.
Það er nokkuð víst að það er enginn meirihluti fyrir afnámi verðtryggingarinnar á Alþingi að óbreyttu. Núverandi fyrirkomulag er að leggja þúsundir heimila í rúst. Ef fram heldur sem horfir munu fleiri heimili verða gjaldþrota með skelfilegum afleiðingum. Þrátt fyrir það vill Alþingi ekki koma heimilunum til bjargar.
Almenningur vill afnema verðtrygginguna. Það er nauðsynlegt að við komum þeim skilaboðum skýrt til Alþingismanna.
Borgarafundur verður haldinn í Háskólabíói mánudaginn 23. janúar þar sem verðtryggingin verður rædd og áhrif hennar á hag heimilanna. Verðtryggingin er að kæfa heimilin og það vita allir sem lifa við slíkt ástand. Nú er um að gera að hafa kröftugan fund því það er í okkar valdi að skapa þann áhuga hjá þingmönnum sem þarf til að þeir afnemi verðtrygginguna.
Lýsing
Borgarafundur þar sem staða lánþega verður í brennidepli. Auk reynslusagna verður farið í það hvernig verðtryggingin virkar og bent á lausnir.
FRAMSÖGUMENN Á FUNDINUM 23. jan.:
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt
Karl Sigfússon, verkfræðingur og millistéttarauli
Marinó G. Njálsson, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi
Pallborðið verður tvískipt en þar verða eftirtaldir:
PALLBORÐ I
Karl Sigfússon, verkfræðingur og millistéttarauli
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt
Sverir Bollason, skipulagsverkfræðingur
PALLBORÐ II
Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi
Marinó G. Njálsson, ráðgjafi
Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður VR
Fundarstjóri: Rakel Sigurgeirsdóttir
Pallborðsstjóri: Eiríkur S. Svavarsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl Nafna mín; æfinlega !
Röðin er komin; að þeim : Steinþóri Pálssyni (Landsbanka) - Höskuldi Ólafssyni (Búnaðarbanka = undir felunafninu Aríon), og Birnu Einarsdóttur (Íslandsbanka); auk slangurs af Sparisjóða- og Lífeyrissjóða stjórum, að finna til Te vatnsins, á eigin skinni.
Stjórnmála hyskið; þarf vitaskuld að hirta - eftir; sem áður.
Gangi ykkur vel; með fyrirhugaðan fund ykkar, fornvinkona góð.
Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 22:30
Frábært Helga mín, vildi að ég væri á staðnum, þá myndi ég mæta, verð með ykkur í huganum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2012 kl. 23:21
Takk fyrir stuðninginn Óskar og Ásthildur. Það er von mín að þessi fundur verði fjölmennur og veki athygli. Fólk verður að fara að vakna til vitundar um það að það erum við sjálf sem verðum að standa saman og breyta Íslandi því Alþingi ætlar ekki að breyta neinu eins og það er í dag.
Helga Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 00:00
Algjörlega sammála þér Helga mín eins og svo oft áður, við þurfum að fara að vakna og spyrna við fótum, þess vegna met ég mikils baráttu ykkar í grasrótinni sem hafið unnið mikið og merkilegt starf, sem er örugglega geymt en ekki gleymt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 00:03
Steingrimur færði erlendum voguarsióðum verðtryggða íslenska skuldara. Hvað er hægt að segia um það.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.1.2012 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.