Getum við treyst
29.3.2013 | 20:03
Margir kjósendur eru sárir og svekktir með þá flokka sem þeir kusu í síðustu Alþingiskosningum. Fólki var lofað mörgu fögru eins og skjaldborg um heimilin, nýrri stjórnarskrá og já auðvitað átti að koma á betra og sanngjarnara þjóðfélagi. Draumurinn um nýja Ísland fauk út um gluggann á síðustu dögum þingsins. Hvað er nú til ráða hverjum geta kjósendur treyst til að halda áfram með kyndilinn fyrir nýju Íslandi. Stjórnarandstaðan lofar bót og betrun og stjórnarliðar tala um hvað þeir hafa þurft að moka mikinn skít eftir fyrri stjórnir. Getum við treyst nýjum og fallegum kosningaloforðum frá þessum flokkum? Hér verður hver og einn að svara fyrir sig en ég get sagt fyrir sjálfa mig að það get ég ekki lengur. Ef menn sýna ekki í verki það sem þeir segjast ætla að gera þá er ekkert að marka þetta fólk. Við sem erum uppalendur vitum hvað það er mikilvægt að vera góð fyrirmynd og standa við gefin loforð.
Ég er í framboði fyrir Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði og ég býð fram krafta mína til að búa til betra og sanngjarnara samfélag. Við í Dögun setjum heimilin í forgang ,við viljum gagngera endurskoðun á stjórn fiskveiða og við viljum lýðræðisumbætur með því að fólkið fái sína eigin stjórnarskrá. Ég gæti endalaust talið upp það sem við viljum gera en hvernig eiga kjósendur að trúa mér eða öðrum félögum mínum í Dögun. Sjálfsagt munu margir halda því fram að þetta sé allt sama tóbakið og þetta lið vill bara komast að kjötkötlunum. Auðvitað er erfitt að svara svona röksemdafærslu þar sem við höfum ekki fengið tækifæri til að sanna okkur. Frambjóðendur Dögunar eru flest venjulegt fólk sem deilir kjörum með almenningi og mörg okkar höfum verið fastagestir á Austurvelli til að reyna að ná eyrum kjörinna fulltrúa okkar. Núna viljum við ná eyrum ykkar kjósendur góðir. Það hefur verið erfitt að fá þingmenn og aðra ráðamenn til að hlusta á okkur. Við höfum beitt ýmsum aðferðum eins og að berja potta og bumbur, haldið borgarafundi, safnað undirskriftum og margt fleira. Þetta höfum við gert með misjöfnum árangri. Vonandi tekst okkur betur að ná eyrum ykkar.Við eigum kannski ekki greiðan aðgang að fjölmiðlum landsins því við tilheyrum engri valdaklíku og það munu engin sérhagmunaöfl græða neitt á því að kjósa okkur. Við trúum því að það sé komið að okkur sjálfum þ.e. fólkinu í landinu að snúa við blaðinu og breyta. Það er orðið fullreynt með fjórflokkinn, gamla valdastéttin er ófær um að hugsa um hag almennings. Við erum ekki í framboði til að koma einhverjum flokki til valda heldur til að hafa áhrif á þjóðfélagið okkar og þjóna fólkinu í landinu. Þið kjósendur góðir getið hjálpað okkur við það með því að kynna ykkur stefnumál okkar og vonandi komið þið í þessa vegferð með okkur. Saman getum við ef við stöndum saman.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Helga, fróðlegt væri að vita hvaða peningastefnu Dögun hefur hugsað sér fyrir Ísland. Þið ætlið vonandi ekki að skila auðu um þetta mikilvæga atriði, eins og sumir aðrir.
Hér er samantekt um hvað aðrir flokkar hafa að segja um peningastefnuna:
http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1285112/
Kær kveðja.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 29.3.2013 kl. 20:17
Sæll Loftur og takk fyrir innlitið. Þér til upplýsingar set ég hérna smá úrdrdrátt úr efnahagstefnu okkar. Þú getur skoðað stefnu okkar frekar á xt.is
Til að takast á við ósjálfbæra skulda- og eignastöðu í efnahagskerfinu, og gjaldeyrishöft, verði lögð upp samsett aðgerð; með myntskiptum á mismunargengi (mismunandi skiptigengi), eða annars konar leiðréttingum eigna/skulda , með bröttum og tímabundnum skatti á útstreymi gjaldeyris – og með því að leggja á „uppgripaskatt“ (windfall-tax).
Jafnhliða verði leitað allra færra leiða til að koma á heilbrigðum gjaldeyrisbúskap og annað hvort tengja íslenska krónu við körfu erlendra gjaldmiðla – eða taka upp nýja íslenska krónu. Með þessum aðgerðum og í samstarfi við nágrannaríki og mögulegan aðgang að sameiginlegum aðgerðum til að efla fjármálalegt heilbrigði á alþjóðlegum mörkuðum í gegnum EES/ESB verður að stilla íslenska efnahagskerfið inn á sjálfbært jafnvægi.
Það er forgangsmál að afnema yfirlýsingu stjórnvalda um fulla ríkisábyrgð á innstæðum en tryggja að lágmarki innstæður framvegis með þeim hætti sem uppfyllir skuldbindingar Íslands. Stökkbreyting lána vegna hrunsins verði leiðrétt og tryggt að bankar verði ekki í eigu vogunarsjóða og eignarhald fjármálafyrirtækja verði gegnsætt. Alger aðskilnaður verði gerður á milli viðskiptabanka og fjárfestingarbankastarfsemi. Látið verði reyna á möguleikann að eignarhlutur kröfuhafanna í endurreistu bönkunum verði yfirtekinn af ríkinu – til að bjarga gjaldeyrisbúskap og afkomu þjóðarbúsins til skemmri og lengri tíma.
Efnahagslegur stöðugleiki
Dögun vill nálgast stöðugleika í hagkerfinu með því að:
Leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna
Afnema verðtryggingu á lánum til einstaklinga
Setja þak á vexti húsnæðislána (hvati fjármálakerfis til að halda verðbólgu niðri)
Tengja krónuna við körfu erlendra gjaldmiðla
Setja skatt á gjaldeyrisbrask (Tobinskattur)
Aðskilja viðskipta- og fjárfestingabanka
Fela Seðlabankanum stjórn á peningamagni í umferð (hemja útlánaþenslu).
Helga Þórðardóttir, 29.3.2013 kl. 21:11
Helga, að mínu mati segir þessi texti harla lítið um hvort þið aðhyllist fastgengi eða flotgengi, en þetta eru þeir tveir megin kostir sem ráða peningastefnunni. Þarna segir:
Báðir þessir möguleikar geta vísað til fastgengis eða flotgengis.
Ég bendi á, að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar um að ríkisábyrgð sé á innistæðum, hefur enga merkingu. Engin þörf er því »að afnema yfirlýsingu stjórnvalda um fulla ríkisábyrgð á innstæðum«. Það setur hroll að mér að sjá tal um «skuldbindingar Íslands» og tilvísun til EES/ESB.
Með kveðju.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 29.3.2013 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.