Lýðræðið og flugvöllurinn í Reykjavík
30.4.2014 | 20:49
þessi grein mín birtist í Kvennablaðinu fyrir nokkrum dögum;
Dögun í Reykjavík er nýtt stjórnmálaafl sem býður nú í fyrsta skipti fram til sveitarstjórnarkosninga.
Dögun í Reykjavík leggur áherslu á beint lýðræði. Til þess að það verði gerlegt verða íbúarnir að fá fullan aðgang að upplýsingum og tæki til að iðka þátttökulýðræðið. Við viljum að íbúarnir hafi meiri möguleika á að stjórna í nærumhverfi sínu og það er markmið okkar að 10% kjósenda í Reykjavík geti farið fram á íbúakosningu um öll mál.
Lýðræðisleg vinnubrögð stjórnvalda, bæði í landsmálunum og á sveitarstjórnarstiginu hafa því miður einkennst af því að kjósendur virðast gleymdir á milli kosninga og meira virðist vera hlustað á sérhagsmunaaðila en hinn almenna kjósanda. Kjörnir fulltrúar virðast því hafa talið sig einráða við að ráðstafa þeim völdum sem ættu að tilheyra almenningi alltaf og undir öllum kringumstæðum. Ef svo er í raun er ekkert lýðræði til staðar á milli kosninga heldur fáræði. Þessu vill Dögun breyta.
Flugvallarmálið er sorglegt dæmi um misnotkun á valdi. Hvatinn til þess er eindreginn vilji kjörinna fulltrúa til að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, hvað sem það kostar. Að undirskriftir 70 þúsund einstaklinga hafi engin áhrif á þá sem hafa völdin er mjög kvíðvænlegt. Auk þess sýna skoðanakannanir góðan meirihlutastuðning við flugvöll í Vatnsmýrinni. Ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til að hleypa almenningi að ákvarðanatökunni í þessu hitamáli. Sennilega telja Ráðhússmenn þess ekki þörf. Dögun vill að í þessu máli sem og í öllum öðrum eigi almenningur aðkomu. Rétthugsunin má aldrei fara á það stig að lýðræðisástin takmarkist eingöngu af eigin skoðunum kjörinna fulltrúa. Þess vegna er svo mikilvægt að ákveðinn fjöldi kjósenda geti krafist atkvæðagreiðslu um einstök mál og ætti niðurstaða úr slíkum atkvæðagreiðslum ávallt að vera bindandi .
Sameinumst um að koma á öflugu þátttökulýðræði þar sem almenningur er virkur, kynnir sér málin og tekur þátt. Niðurstaðan ræðst af meirihlutanum. Kjörnir fulltrúar eiga að sjá um framkvæmd á vilja meirihlutans. Til að svo megi verða þarf hugarfarsbreytingu hjá öllum aðilum, einnig almenningi. Tækni nútímans gerir þetta vel gerlegt. Hefjum lýðræðið til vegs og virðingar en setjum flokksræðið í rykfallnar geymslur sögunnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.