Hér er svarbréfið til Strauss Kahn

 Hér kemur svarbréfið sem ég og fjórtán aðrir áhyggjufullir Íslendingar sendum Dominique Strauss Kahn framkvæmdastjóra AGS. Við höfum hist á mörgum fundum og reynt að kynna okkur stöðu þjóðarbúsins eftir bestu getu. Í stuttu máli erum við mjög áhyggjufull og teljum að við þurfum að leita svara hjá sérfræðingum fyrir utan landsteinana. Vonandi fáum við áheyrn hjá Srauss Kahn í þetta sinn. Bréfinu fylgja gröf sem ég gat ekki sett inn en þau en ég mun vonandi bæta úr því seinna.

 

Hr. Dominique Strauss Khan                                                                          

framkvæmdastjóri

Alþjóðagjaldeyrisjóðurinn

Washington, D.C., 20431

U.S.A.

 

Ágæti Strauss Kahn:

Við þökkum fyrir svarbréf yðar frá 12.11 2009.

Fyrst viljum við segja að okkur er það fullkomlega ljóst að aðkoma utanaðkomandi sérfræðinga að málum Íslands á sínum tíma var nauðsynleg bæði vegna stærðar vandans og þess að íslenskir ráðamenn gerðu sér ekki fulla grein fyrir alvarlegri stöðu landsins.  Þær hörmungar sem íslensk þjóð er að ganga í gegnum er að okkar mati staðfesting á vanhæfni stjórnsýslunnar og íslenskra bankamanna.

Varðandi svör þín vegna ICESAVE deilunnar viljum við taka eftirfarandi fram.

Í viljayfirlýsingunni milli Íslands og AGS frá október 2008, grein 9, kemur greinilega fram vilji AGS í  málinu. Þar eru íslensk stjórnvöld skylduð til að ræða við Breta og Hollendinga eingöngu á forsendum þeirra og án þess að Ísland ætti í raun nokkra von vegna aðstöðumunar þjóðanna. Með þessu blandaði sjóðurinn sér í milliríkjadeilu. Í annan stað eru Íslendingar skyldaðir í sömu grein  til að endurgreiða fyrrnefndum þjóðum forfjármögnun þeirra á ICESAVE. Forfjármögnun sem þær höfðu ekkert samráð við Ísland um og ákváðu algjörlega upp á sitt einsdæmi. Í þriðja lagi er það okkar mat að Íslendingar hafi verið neyddir með ICESAVE samkomulaginu til þess að brjóta þá meginreglu EES reglnanna að einkabankar og gjaldþrot þeirra skulu aldrei njóta ríkisábyrgðar á EES svæðinu („In order to avoid distortions of competition, public credit institutions must not include in their own funds guarantees granted them by the Member States or localauthorities“ (1)(2) ). Í fjórða lagi kemur fram í fyrrnefndri viljayfirlýsingu frá október 2008, grein 24, að samningar við Norðurlöndin séu fyrirhugaðir og því hafi skilyrði þeirra um Icesave væntanlega ekki verið upp á borðum þegar AGS skyldaði Íslendinga til að klára ICESAVE deiluna. Norðurlöndin fóru einfaldlega eftir þeirri línu sem lögð hafði verið af AGS í viljayfirlýsingunni frá október 2008 milli Íslands og AGS. Í kjölfar svarbréfs þíns til okkar spunnust nokkrar umræður á Íslandi og í Noregi. Efnahags- og viðskiptaráðherra  Íslands telur þig hafa „..skautað dálítið létt yfir þessa tengingu“(3).  Ráðuneytisstjórinn í norska fjármálaráðuneytinu kveður heldur fastar að og segir skilning þinn ekki réttan varðandi hlut Norðmanna í töf á endurskoðun áætlunar AGS. Norðmenn benda sérstaklega á að stjórn AGS hafi farið að vilja Breta og Hollendinga í stjórn AGS í þessu máli (4)(5).

Ekki má skilja orð okkar svo að við teljum ábyrgð íslenskra stjórnvalda og bankamanna léttvæga hvað þá að við viljum hlaupast undan réttmætum skuldbindingum okkar. En réttmæti krafna fyrrnefndra „vina“þjóða eru einmitt vefengdar af mörgum sérfræðingum. 

Óbærileg skuldastaða Íslands er það sem veldur okkur mestum áhyggjum.

Við óttumst að Íslendingar geti ekki staðið í skilum með vexti og afborganir ásamt því að halda uppi norrænu velferðarsamfélagi. Mat okkar er stutt af mörgum vel þekktum sérfræðingum m.a. fyrrverandi starfsmönnum AGS. Það sem eykur á áhyggjur okkar er að AGS virðist ekki vilja viðurkenna þennan vanda, hvað þá að útskýra á sannfærandi hátt það mat sitt að skuldirnar séu bærilegar. Sem dæmi um misræmi má nefna að AGS taldi, í nóvember 2008,  að Ísland gæti í mesta lagi staðið undir skuldsetningu sem nemur 240% af VLF. Í dag teljið þið Ísland þola 310%. Hvað breyttist? Margt bendir til að skuldsetning Íslands muni nálgast 400% af VLF á næsta ári og nægir í því sambandi að benda á hættuna á því að neyðarlögunum verði hnekkt fyrir dómstólum. Mun AGS þá meta 400% skuldsetningu af VLF bærilega, eða er markið enn hærra ef það hentar umræðu framtíðarinnar?

Einnig vekja áætlanir AGS og stjórnsýslunnar um viðskiptajöfnuð komandi ára upp fleiri spurningar en svör (mynd 1). Hvernig má það vera að áætlaður viðsnúningur í viðskiptajöfnuði er í engu samræmi við reynslu okkar úr fortíðinni, hvorki til langs né skamms tíma? Mun AGS td. leggja til verulegar takmarkanir á innflutningi neysluvara í framtíðinni?

Ef fram fer sem horfir mun Ríkissjóður Íslands nota um 25% af tekjum sínum í vaxtagreiðslur af erlendum lánum. Mismunur á greiddum vöxtum og áföllnum upp á milljarðatugi munu leggjast á höfuðstól erlendra lána og þar með auka enn á  byrðar framtíðarinnar. (mynd 2). Ef fram fer sem horfir munu skattahækkanir og niðurskurður draga allan þrótt úr íslensku hagkerfi. Lífskjör munu versna og hætta er á miklum fólksflótta úr landi. Þessa dagana flytja 14 Íslendingar á dag til Noregs, það jafngildir að 2.800 Frakkar flyttu til Noregs á degi hverjum.  Þótt vanhæfni stjórnsýslu og bankamanna á Íslandi hafi átt stóran þátt í hruninu teljum við ekki að það réttlæti þær aðferðir sem AGS notar á Íslandi.

Það hljóta að vera einhver mörk á þeim byrðum sem hægt er að leggja á þjóð vegna í glæpsamlegs klúðurs valdhafa, braskara og stórfyrirtækja.

 Af reynslu undanfarinna mánaða er það orðin einlæg skoðun okkar að skortur á skýrum upplýsingum byggðum á staðreyndum sé stórt vandamál á Íslandi. Í alvöru upplýsingagjöf felst t.d. að segja okkur satt og skýrt frá stöðu mála á hverjum tíma og leggja fram til umræðu áætlanir til skemmri og lengri tíma. Bæði íslensk stjórnvöld og AGS virðast forðast að draga fram sanna mynd af nánustu framtíð Íslands. Upplýsingagjöf AGS um endurgreiðslur skulda Íslands bera með sér ósamræmi milli áætlana byggðum á rauntölum fortíðarinnar og reiknikúnstum stjórnsýslu og AGS.

Þrátt fyrir endurtekna fundi, ýmissa hópa, með Mr. Rozwadowski teljum við svör hans ekki fullnægjandi. Þar sem vaxandi óróleika gætir meðal þjóðarinnar og krafan um skýr svör verður sífellt almennari, ítrekum við því ósk okkar um fund með þér.

Tilvitnanir..

1)       DIRECTIVE 2000/12/EC OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL

2)       Directive 94/19/EC of the European Parliament

3)       http://www.althingi.is/altext/raeda/138/rad20091116T153314.html

4)        http://www.stortinget.no/no/Saker-og-publikasjoner/Publikasjoner/Referater/Europautvalget/2009-2010/091021/

 

http://www.stortinget.no/no/Saker-og-publikasjoner/Publikasjoner/Referater/Stortinget/2009-2010/091119/ 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð

Dugleg eruð þið og eigið þakkir skildar.

Ég þakka allavega fyrir mig og mína.

Guð veri með ykkur baráttufólk.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.12.2009 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband