Baráttudagar í október-ár frá hruni

Ég vil þakka aðstandendum ráðstefnunnar fyrir góðan dag. Erindin voru fræðandi og öll umgjörð notaleg. Á morgun höldum við áfram að ræða um framtíð Íslands. Mætið endilega á Hverfisgötu 105.Ég mun tala á morgun kl 11 um nýja stefnu fyrir Ísland. Stórt verkefni en ég ætla að gera mitt besta á 15 mínútum. Alveg til í góðar ábendingar fyrir morgundaginn.

Tökum þátt í baráttudögum-stöndum saman

Baráttudagar í Október

- Grasrótahreyfingar funda um nýtt Ísland Mynd_0251310

Á morgun (laugardag 10. okt.) ætla grasrótahreyfingar úr öllum flokkum að funda í MÍR salnum á Hverfisgötu (við hliðina á lögreglustöðinni) í tilefni af bankahruninu.

1. málstofa byrjar kl. 10:00 með yfirskriftinni

"Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar"

Þórarinn Hjartarson

Þórður Björn Sigurðsson

Davíð Stefánsson

2. málstofa kl 13:00 til 15:00

"Hver fer með völdin á Íslandi?"

Jakobína Ólafsdóttir...Hver stjórnar Íslandi

Gunnar Skúli Ármannsson ...Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Haraldur Líndal...Skuldastaða Íslands

3. málstofa kl 16.00 til 18.00

"Átök og verkefni framundan"

Andrea Ólafsdóttir

Lilja Mósesdóttir

Þorleifur Gunnlaugsson.

Ráðstefnan mun standa fram á sunnudag.

Ný stefna fyrir Ísland

4. málstofa kl 11.00 til 13.00

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Helga Þórðardóttir

Vésteinn Valgarðsson

Þorvaldur Þorvaldsson


Framsóknarflokkurinn stendur í lappirnar og ver hagsmuni Íslendinga

Þökkum fyrir það sem vel er gert. Auðvitað eigum við ekki að gefast upp. Allt er betra en að vera háð lánveitingu frá AGS. Frábært framtak hjá Framsókn.
mbl.is Mikill velvilji í garð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er hetjan mín- góð grein

 Mig langar að halda áfram að benda ykkur á góðar greinar sem maður má ekki láta fram hjá sér fara.

Umrædd grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er fyrirsögnin Hvar er hetjan mín. Greinin er skrifuð af Aldísi Baldvinsdóttur lögfræðingi á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna. Aldís er greinilega frábær penni og það var virkilega gaman að lesa þessa grein þó að hún lýsi grafalvarlegum hlut. Hún fjallar um þá hörmulegu stöðu sem skuldarar þessa lands eru í og skilningsleysi stjórnvalda á stöðu þeirra.Ég hvet ykkur til að komast yfir Moggann í dag og lesa þessa grein og meta sjálf. Svo er stóra spurningin ,verða svona góðar greinar birta í framtíðinni undir forystu Davíðs Oddssonar. Ég ætla að vera bjartsýn og vona það besta þar til annað kemur í ljós.

 


Látum frekar þorskinn éta upp fjárlagahallann

Ég vil vekja athygli ykkar á grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær þar sem sagt er frá því að allt sé morandi af þorski í Barentshafinu. Þessar niðurstöður vekja athygli þar sem veiðin þar hefur verið langt umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarstofnunarinnar. Geta íslenskir fiskifræðingar ekki lært eitthvað af þessum niðurstöðum? Er ekki betra að veiða þorskinn heldur en að láta hann drepast í sjónum. Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur lengi bent á þá staðreynd að Íslandsmið þoli meiri veiði og þá sérstaklega þorskurinn. Hann hefur haldið því fram að til þess að halda uppi vexti og koma í veg fyrir að þorskurinn éti sjálfan sig út á gaddinn verðum við að veiða meira af honum.

 Nú þurfum við að hugsa allt upp á nýtt og væri því ekki gráupplagt fyrir Hafró að hugsa út fyrir kassann og skoða nýjar hugmyndir sem fram koma. Getur ekki verið að þeir séu að nota röng viðmið eins og margir af okkar ágætu hagfræðingum hafa gert.  Einhvern veginn finnst mér þetta ekki hafa gengið upp hjá þessum spekingum undanfarið. Það hlýtur að vera betra að veiða upp í fjárlagahallann en að skera niður í mennta og heilbrigðismálum og skattpína íslenskan almenning.


Sorgardagur hjá Borgarahreyfingunni

Mér finnst þessi niðurstaða ákaflega sorgleg. Ég var að vona að fylkingarnar innan Borgarahreyfingarinnar  gætu sæst. Ég veit að í báðum fylkingum er gott fólk sem vill vinna vel fyrir íslenska þjóð og vill sjá breytingar á íslensku samfélagi. Ég kynntist hugsjónunum þar sem ég var með við upphaf Borgarahreyfingarinnar og maður gat ekki annað en hrifist af þeim baráttuhug sem þá ríkti. Ég ákvað þó að halda mig við minn gamla flokk fyrst og fremst vegna hugsjónanna. Ég get með sanni sagt að ég er stolt af þeirri ákvörðun. Ég veit líka hvað það getur verið erfitt að vera í litlum flokki sem hefur stórar hugsjónir því það þarf ekki svo marga einstaklinga til að gera allt vitlaust og svo nýtir fjórflokkurinn sér líka deilurnar og elur á þeim. Ég vil nota tækifærið og óska báðum fylkingunum velfarnaðar í starfi.
mbl.is Klofningur í Borgarahreyfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessir menn standa með okkur Íslendingum

 Mig langar til að vekja athygli ykkar á þessari frábæru grein sem þessir þrír heiðursmenn skrifuðu í hollenskt dagblað. Þetta er grein sem enginn má láta fram hjá sér fara. Mikið væri nú gott að fá þessa höfðingja til að aðstoða ráðamenn okkar við endurreisn Íslands.

 

Hér er greinin sem þeir Gunnar Tómasson, Michael Hudson og Dirk Bezemer skrifuðu í de Volkskrant

Er innheimta hlutverk ESB?

Ísland er prófsteinninn. Um það er ekki deilt að skuldir jukust langt úr hófi fram við „útlánavæðingu" síðustu áratuga. Á nýliðnu Greenspan tímabili var lánsfjármögnuð neyzla og síhækkandi verði fasteigna, hlutabréfa og annarra fjáreigna talin vera jafngildi „verðmætasköpunar". Við erum reynslunni ríkari núna. Verð fasteigna og hlutabréfa er hrunið en skuldirnar standa eftir. Núna, þegar bólan er sprungin, blasa við okkur tvenn viðfangsefni. Hvernig endurreisum við framleiðslukerfið eftir áralanga útlánavæðingu? Og hvernig gerum við upp skuldirnar?

Á því síðarnefnda er mikilvægur evrópskur flötur. Hvernig standa evrópuríki að innbyrðis skuldauppgjöri? Spurningin er sérstaklega mikilvæg fyrir minni ríki sem tóku lán í erlendri mynt og eru núna í miklum vanda. Lánardrottnar þeirra eru ríki sem gáfu bönkum lausan tauminn til að skuldsetja heilar þjóðir á gullöld „útlánavæðingarinnar". Afleiðingin blasir við í erfiðri skuldastöðu Íslands gagnvart Bretlandi og Hollandi, Lettlands gagnvart Svíþjóð, og Ungverjalands gagnvart Austurríki. Og dæmin verða væntanlega fleiri.

Vandinn er sá að stjórnvöld frumkvöðla „útlánavæðingarinnar" virðast fúsari til innheimtustarfa fyrir þá og aðra þegna sína en þátttöku í uppbyggjandi átaki við að leysa úr skuldavanda Evrópu og heimsins alls. Jafnframt reyna þau að fá alþjóðastofnanir til að leggja málstað þeirra lið með hótunum um að stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða innganga í ESB sé í veði. Það er eftirtektarvert að í almennri umræðu í Hollandi og víðar virðist vera litið á slíka fjárkúgun sem sjálfsagðan hlut væntanlega í ljósi þess að 'skuld er skuld'. Skuldarar hafa notið lífsins með okkar peningum og ber því að borga reikninginn, með ströngum aðhaldsaðgerðum ef svo ber undir.

            Þessi skýra og einfalda afstaða horfir fram hjá ýmsum óþægilegum staðreyndum.  Í fyrsta lagi hafa lánastofnanir hagnast vel á óhóflegri skuldsetningu þjóða.  Útreikningar fyrir Lettland sýna að tekjur erlendra banka af vöxtum og fasteignum voru hærri hvert ár frá 1995 til 2008 en sem nam lánum þeirra til Lettlendinga.  Það var því hreint útstreymi á fjármagnsreikningi.  Viðkomandi bankar (aðallega sænskir) hafa nú þegar hirt hagnað sinn en eftirláta Lettlandi áframhaldandi skuldagreiðslur.  Undir forsæti Svíþjóðar hvetur ESB til strangra aðhaldsaðgerða af Lettlands hálfu svo að komist verði hjá greiðslufalli.

Í öðru lagi er orsök vandans að hluta til hegðun banka og erlendra lánardrottna í aðdraganda kreppunnar. Nýlega voru birt skjöl sem sýna að stórir Kaupþingshluthafar stuðluðu að hruni bankans með úttekt á andvirði stórra ótryggðra lána til þeirra sjálfra. Aðgerðir Hollendinga og Breta voru ekki síður skaðlegar. Íslenzk stjórnvöld höfðu níu mánuði til að semja um uppgjör við innstæðueigendur skv. ESB tilskipun 94/19/EC. Það hefði hugsanlega leitt til farsællar lausnar ef hollensk og brezk stjórnvöld hefðu kosið að miðla málum. Í staðinn ákváðu þau að lítt hugsuðu máli að borga eigin ríkisborgurum út innstæður þeirra og sendu reikninginn, ásamt hótunum, til Íslands. Gordon Brown beitti jafnframt hryðjuverkalögum til að frysta reikninga sem féllu undir íslenzka lögsögu. Þar með glataðist að fullu það sem e.t.v. hefði mátt bjarga. Með hliðsjón af slíkri hegðun þvert gegn tilskipunum ESB er það hámark hræsni þegar hollenski utanríkisráðherrann Maxime Verhagen hvatti Ísland 21. júlí sl. að „sýna í verki að það taki ESB tilskipanir alvarlega".

Í þriðja lagi skal varast að láta sem hér sé um venjulega deilu milli lánardrottna og skuldara að ræða.  Fyrir Ísland líkt og Lettland snýst málið um það hvort komist verði hjá algjöru efnahagshruni.  Hagkerfið fer einfaldlega í greiðsluþrot ef innheimta á skuldina að fullu.  Verg landsframleiðsla Íslands 2008 var 12.3 milljarðar evra.  Vegna kreppunnar mun hún e.t.v. verða innan við 8 milljarða í ár, og aðeins að hluta í gjaldeyri.  Hollenskar og brezkar kröfur nema samtals 4 milljörðum evra, eða meira en 50% af VLF.  Samtals er áætlað að erlendar heildarskuldir Íslands nemi um 240% af VLF.  Engin þjóð hefur áður endurgreitt erlenda skuld af þessari stærðargráðu.  Ísland skortir auk þess útflutningsgetu til að afla nauðsynlegs gjaldeyris til að endurgreiða skuldina.  Ísland ætti því ekki annarra kosta völ en að fjármagna afborganir með nýjum lántökum.  Viljum við knýja skuldsettar þjóðir inn á slíka tortímingarbraut?  Viljum við að Ísland, Lettland og aðrar þjóðir nái að rétta sig við, eða kjósum við að leggja þeim augljóslega óbærilega skuldabyrði á herðar? 

Í það minnsta hljótum við að huga skynsamlega að eigin hag.  Íslenzkt hagkerfi í skuldafjötrum mun aldrei geta endurgreitt nema hluta skuldarinnar.  Spurningin er hvort við höldum fast við óraunhæfar kröfur eða stefnum að raunhæfu uppgjöri?  Og hvað með evrópska samhygð sem Verhagen utanríkisráðherra og aðrir hollenskir stjórnmálamenn styðja?  Verður hún sett skör lægra en kröfur lánardrottna?

Það verður ekki komist hjá því að hugsa til Þýzkalands á þriðja áratug síðustu aldar.  Keynes var þá sem hrópandinn í eyðimörkinni og varaði við því að Þýzkaland gæti ekki staðið undir kröfum bandamanna um stríðsskaðabætur.  En Þýzkaland var knúið til að takast þær á herðar og stóð í skilum um hríð með lántökum, enda ekki annarra kosta völ.  Þetta jók einungis greiðslubyrði landsins og rak aðþrengda þjóð í útbreidda arma öfgafullra stjórnmálamanna.  Nítíu árum síðar vitum við lok þeirrar sögu.  Við aðstæður sem kröfðust vizku og framsýni reyndust þjóðir bandamanna ótrúlega skammsýnar.

Við vitum ekki hvert aðþrengdir Íslendinga, Eystrasaltsbúar eða Ungverjar kynnu að snúa á komandi tíð.  Á þessum punkti í samtímasögunni vitum við það eitt að vandinn er okkar allra.  Við tókum öll þátt í því að skuldsetja hagkerfi úr hófi fram, og okkur ber því að vinna úr vandanum saman.  Það hefur ekki gengið vel til þessa.  Vaxandi spennu gætir í samskiptum þjóða og stuðningur við Evrópusambandið fer minnkandi í nýjum og væntanlegum aðildarríkjum.  Hvað mun barnabörnunum finnast um okkur eftir nítíu ár? ***

Höfundar:

Dirk J. Bezemer, lektor, University of Groningen, Hollandi

Michael Hudson, prófessor, University of Missouri, Bandaríkjunum

Gunnar Tómasson, hagfræðingur


Magma Energy-AGS-HS orka,; núna verðum við að segja hingað og ekki lengra!!!

Nú ætla Íslendingar að selja frá sér mjólkurkúnna. Magma Energy með forstjórann Ross í fararbroddi ætlar að eignast orkuna á Suðurnesjum.Þeir ætla að dæla orkunni upp hratt og örugglega, græða helling og vera löngu farnir af landi brott áður en 130 árin verða liðin.

Þegar maður les um Ross hefur hann aðallega keypt fyrirtæki og byggt þau upp. Þegar rétti tíminn er kominn til að selja, selur hann hæstbjóðendum. Það sem kemur honum á fætur á morgnana er vonin um gróða. Hvort hann grillar á kvöldin veit ég ekki. Hann mun því hámarka HS orku og selja fyrirtækið svo. Að hámarka þýðir að skera niður allan kostnað eins og laun. Að hámarka er að hækka verð vörunnar, það dregur að kaupendur, marg endurtekið í S-Ameríku.

Að selja frá sér sína mjólkurkú er ekki skynsamlegt. Þá getum við nefnilega ekki aflað okkur tekna til að endurgreiða skuldir okkar.

Að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neiti okkur um að eiga áfram HS-Orku byggir á því að þá getum við ekki endurgreitt lánin til AGS. Þá verðum við áfram þrælar þeirra og neyðumst til að sitja og standa eins og þeim þóknast. Þar með er afgangurinn af auðlindum okkar líka farinn. Þar með verður búið að einkavæða allt, heilbrigðismál, menntamál, vatn, rafmagn-allt. 

Við verðum að snúa vörn í sókn, ef við stöndum saman þá sigrum við.


Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar segir fyrirvarana engu breyta

Mér brá satt best að segja nokkuð við að hlusta á fullyrðingar Björns Vals Gíslasonar alþingismanns VG í sjónvarpsfréttum kvöldsins. Hann gefur í skyn að fyrirvararnir séu bara eitthvað sjónarspil sem engu breyta. Ég veit ekki hverju maður á að trúa lengur. Ég veit að reyndar hefur Björn Valur verið á sjó undanfarnar vikur  svo hann er kannski eitthvað úti að sigla ennþá. Hann er hins vegar ekki bara óbreyttur þingmaður þar sem hann er varaformaður fjárlagnefndar. Er hann að tala í nafni stjórnarinnar? Ég er eins og margir Íslendingar alveg orðin uppgefin á þessu blessaða Icesavemáli en ég geri mér jafnframt grein fyrir alvöru þess. Ég var svo sannarlega að vona að þessir fyrirvarar væru einhver lausn og væru jafnframt alveg öruggir. Ég vil ekki gefast upp og þess vegna krefst ég þess að þingmenn klári málið. Klári það, þannig að það sé ekki neinum vafa undirorpið að Icesaveskuldirnar  setji okkur ekki  á hausinn og að fyrirvararnir haldi.
mbl.is Munum tala eins lengi og þarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakobína ver málstað almennings á Íslandi í norskum miðli

Það er gott til þess að vita að það eru ekki allir Íslendingar sem láta sér nægja að þusa í kaffiboðum og í bloggheimum. Það eru æ fleiri farnir að skilja að það þýðir ekki að treysta á að íslensk stjórnvöld standi með hagsmunum almennings. Jakobína Ingunn Ólafsdóttir bloggvinkona mín er ein af þeim sem hefur látið í sér heyra víða og nú síðast í viðtali við ABC Nyheter. Þar gagnrýnir hún Kristínu Halvorsen ráðherra fyrir ódrengilega framkomu við Íslendinga. Takið eftir athugasemdum Normanna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband