Góður fundur
13.8.2009 | 22:28
Austurvöllur-Fimmtudag-13 ágúst!!
11.8.2009 | 22:31
Það er boðað til mótmæla við Austurvöll á fimmtudaginn. Margir aðilar og hópar sameinast um þessi mótmæli. Um er að ræða einstaklinga og félög sem eru andsnúin ríkisábyrgð á IceSave samningnum. Ég hvet sem flesta að mæta.
IceSave málið er mjög sérstakt mál, að minnsta kosti hér innanlands. Ferill ríkisábyrgðarinnar ber þess merki að hún hefði átt að samþykkjast á Alþingi í einum hvelli. Reyndar varð hvellur en ekki sá sem forkólfar Ríkisstjórnarinnar höfðu vonast eftir. Hugmynd þeirra var að koma þessu máli frá til að geta snúið sér að öðrum mikilvægari þjóðþrifamálum. Jóhanna vildi rós í hnappagatið áður en hún heimsækir vina sína í Brussel. Steingrímur ætlaði sér að stýra fjármálum ríkisins í einhvers konar Hróa Hattar stíl. Til allrar hamingju, fyrir okkur Íslendinga, þá gerðist einhver svo ósvífinn að spyrja hvort við hefðum efni á þessum IceSave greiðslum. Um það snúast þessi mótmæli, hvort Ísland fari á hausinn í náinni framtíð. Þetta er kjarnaatriðið.
Bretar eiga sér langa sögu í slíkum milliríkjasamskiptum sem við upplifum núna. Við getum rifjað upp Ópíum stríðin við Kínverja á þar síðustu öld, þá var fyrst reynt að semja en síðan var herinn sendur. Bretar hafa haft betur eins og vænta má, reyndar er smá skuggi á sigurgöngu nýlenduveldis þeirra. Í þrígang hafa þeir þurft að hverfa af vettvangi með herveldi sitt. Þá héngju nokkrir þorskhausar á spýtunni. Í raun er sigur okkar Íslendinga í þorskastríðunum mjög merkilegur.
Af þessum sökum eru margir erlendir aðilar sem fylgjast grannt með þessum slag. Við munum skapa visst fordæmi með lyktum þessa máls. Þess vegna er ábyrgð okkar mikil. Ég tel að að öllum erlendum aðilum sem kynna sér málið sé ljóst að við eigum ekki að borga. Þetta er fyrst og síðast kúgun af hálfu Bretanna og þannig er litið á málið, séð að utan.
Því vekur það furðu að "hið mikla samviskubit" virðist vera innlend framleiðsla okkar Íslendinga. Þegar ráðist er á þjóð þá eru venjuleg viðbrögð þegnanna að standa saman gegn innrásinni. Bretum hefur tekist að kljúfa fylkingu okkar því þeir vita að sundraðir föllum vér. Auk þess þyrstir þá í hefnd vegna Þorskastríðanna. Nú skiptir öllu máli að við stöndum saman því þá sigrum við.
Mætum öll á Austurvöll.
Síðan hvenær hefur maður orðið ríkur á því að taka lán
7.8.2009 | 22:46
Takk fyrir góða skemmtun á unglingalandsmóti
3.8.2009 | 01:33
Skemmtilegu Unglingalandsmóti var að ljúka á Sauðárkróki . Ég byrjaði daginn á því að mæta í sundlaugina og vera tímavörður í sundkeppninni. Það var mjög gaman að fylgjast með gleðinni og keppnisandanum sem ríkti hjá sundköppunum.
Að keppni lokinni fór ég í frábæra gönguferð um gamla bæinn með leiðsögn. Það kom glöggt fram að það er stórmerkileg saga í hverju koti hér á Króknum. Til að mynda var fyrsti holskurður á Íslandi framkvæmdur á Sauðárkróki.
Við Sigurjón bróðir fórum með krakkana á lokaskemmtunina í kvöld. Hljómsveitin Von hélt uppi fjörinu í stóra tjaldinu. Þetta er frábær hljómsveit og gleðin skein og hverju andliti bæði hjá yngri kynslóðinni og þeim eldri. Síðan fóru fram mótsslit á íþróttaleikvanginum þar sem herlegheitunum lauk með glæsilegri flugeldasýningu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skín við sólu Skagafjörður
30.7.2009 | 00:03
Ég er komin á Sauðárkrók og ætla að hafa það huggulegt hér í nokkra daga hjá honum Sigurjóni bróður. Ég hlakka til Unglingalandsmótsins sem verður haldið hér á Króknum um Verslunarmannahelgina. Það verður gott að gleyma vandamálum þjóðarinnar um stund og fylgjast með ungum Íslendingum spreyta sig í hinum ýmsu íþróttagreinum. Byrjaði reyndar á því að fara á fótboltaleik í kvöld. Liðin sem kepptu voru Hamar og Tindastóll og okkur til mikillar ánægju sigraði Tindastóll með einu marki.
Það mun reyndar mæða nokkuð á Sigurjóni bróður þessa helgi þar sem hann er formaður Ungmennasambands Skagafjarðar. Kannski get ég orðið að einhverju gagni enda erum við nokkuð mörg á heimilinu eða níu manns ásamt hundi og hamstri.
Góð ræða
26.7.2009 | 21:57
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir flutti þessa ræðu á Austurvelli í gær. Ég fékk leyfi hjá henni til að birta hana hér á blogginu. Ég hef hitt marga sem fannst ræðan mjög góð og vil því deila henni með ykkur.
Innganga í ESB er mjög umdeild á Íslandi. Samfélagsgerð ESB á sér ekki forvera í heimssögunni. ESB hefur þróast og tekið breytingum í áratugi. Ríki sem gengu í ESB fyrir tuttugu árum síðan gengu í efnahagsbandalag en hafa nú verið innlimuð í sambandsríki. Minni ríki hafa haft lítil áhrif á þróun ESB og þurfa að taka við breytingum sem oft eru innleiddar á forsendum voldugri þjóðríkja.
Það er óljóst hvers konar bandalag ESB mun verða eftir tuttugu ár. Það segir sagan okkur.
Bankahrunið á Íslandi afhjúpaði alvarlegan ágalla á formgerð, hugmyndafræði og regluverki Evrópusambandsins.
Tilskipanir sambandsins eru mótaðar af þjóðum sem fara með flest atkvæði í sambandinu og hafa þar mest völd. Það má spyrja þeirrar spurningar hvort voldugar þjóðir hafi skilning á sérstöðu minni ríkja, aðstæðum og getu þeirra í samfélagi við stærri ríki.
Tilskipun ESB, sem heimilar ekki ríkisábyrgð á tryggingarsjóði innistæðna, var mótuð af valdhöfum ESB. Umhverfi fjármálastarfsemi í Evrópu var mótað af valdhöfum ESB.
Það er á ábyrgð yfirvalda á hverjum tíma að móta löggjöf sem elur af sér kerfi sem gengur upp. Gengur upp fyrir alla sem hlut eiga að máli.
Við bankahrunið á Íslandi í haust kom í ljós að ESB hafði skapað regluverk og viðskiptaumhverfi sem gekk ekki upp fyrir smáþjóð eins og Ísland. Það þýðir ekki að segja að íslenskir útrásarvíkingar hafi verið gráðugir. Víst voru þeir gráðugir en græðgin er einn af þeim þáttum sem ábyrgir valdhafar gera ráð fyrir við hönnun kerfa og mótun viðskiptaumhverfis.
Það er á ábyrgð löggjafans og valdhafanna að móta regluverk sem tryggir það að refsing sé þeirra sem sekir eru, að tapið sé þeirra sem tóku áhættu og að ábyrgðin sé þeirra sem valdið hafa.
Hvernig brugðust þá Evrópusambandsþjóðirnar við bankahruninu á Íslandi? Settust þær niður eins og siðuðum þjóðum sæmir og reyndu að finna lausn á vandanum? Vandanum sem alfarið má skrifa á vanburði þeirra sjálfra við mótun reglna, mótun umhverfis og valkosta. Reyndu þær að takmarka skaðann fyrir alla hlutaðeigandi og vernda hina saklausu?
Nei.
Nei, þessar þjóðir sem sjálfar hafa ekki farið varhluta af græðginni hafa í krafti stærðar sinnar og valda kosið að vernda gallað regluverk fremur en að viðurkenna að regluverkið gengur ekki upp í litlu hagkerfi.
Hagkerfi lítilla þjóða eru viðkvæm. Lítill gjaldmiðill er viðkvæmur. Þegar erlendir áhættufjárfestar og íslenskir bankamenn veðja gegn krónunni nægir það til þess að rústa hagkerfinu. Íslenskir fjárglæframenn voru ekki einir í þessum leik. Leikurinn var háður því að einhver vildi leika við þá og með þeim. Ísland varð í boði íslenskra og erlendra fjármálakerfa að spilavíti alheimsins. Fjármálafyrirtækin voru skráð á Íslandi en leikurinn fór að mestum hluta fram erlendis.
Íslenskur almenningur stendur berskjaldaður frammi fyrir erlendum valdastofnunum sem hafa tekið sig saman um að sjá til þess að íslenskur almenningur sem ekki veðjaði gegn krónunni, sem ekki stofnaði banka erlendis, sem ekki hafði völd til þess að hafa áhrif á þróun bankakerfisins, sem ekki áttu neina aðild að viðskiptunum, já þessar valdastofnanir ætla að sjá til þess að það verði þeir beri tapið.
Við höfum alþjóðagjaldeyrissjóðinn inni á stofugólfi hjá okkur.
Fyrir ári síðan var okkur sagt að íslenska ríkið skuldaði ekki neitt. Í dag er okkur sagt að ríkið skuldi þúsundir milljarða. Hvers vegna þarf íslenska ríkið að skuldsetja almenning. Jú samkvæmt alþjóðagjaldeyrissjóðnum verðum við að gera það til að styrkja krónuna. Til að tryggja það að þeir sem tóku áhættu þurfi ekki sjálfir að bera tapið.
Og hver eru skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:
Háir stýrivextir sem eru að drepa atvinnulífið en tryggja bönkum góðar tekjur, bönkum sem síðan á að færa í hendur erlendra lánadrottna og áhættufjárfesta.
Niðurskurður í velferðarkerfi sem mun verða það róttækur að hann mun hafa í för með sér skertar lífslíkur, aukna vanheilsu og minni tækifæri til menntunar.
Mismunun og ójöfnuður í samfélaginu mun aukast ef við höldum áfram á þessari braut.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nefnilega sagt ríkisstjórninni að hún verði að taka svona mikil lán, safna meiri skuldum en ríkið getur nokkru sinni borgað og setur síðan ríkistjórninni skilyrði sem tryggja það að kreppan hér á landi dýpkar og geta til þess að standa við skuldbindingarnar rýrnar.
Takið eftir að engin af tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér að auka styrk íslensku þjóðarinnar. Þvert á móti ganga þessi skilyrði út á að veikja þrótt þjóðarinnar og draga úr varnarmætti hennar og gera hana háða erlendri stóriðju og fjármálastofnunum.
Gordon Brown sagði nefnilega að hann væri í góðum tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og "aðrar stofnanir." Það er varla umdeilanlegt lengur að mótuð hefur verið sameiginleg "strategía" meðal helstu valdastofnanna heims.
Þessar stofnanir eru ríkisstjórn Bretlands, ríkisstjórn Hollands, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Því miður hefur hin svo kallaða vinstri-ríkisstjórn fallist á að fylgja þeirri stefnu sem henni hefur verið sett fyrir. Stefnu sem miðar að því að kollsteypa fjölskyldum og fyrirtækjum sem þjóna þjóðarhag en tryggja sem best hag áhættufjárfesta og aðgang alþjóðafyrirtækja að auðlindum Íslendinga.
Þegar litið er til samskipta íslendinga við aðrar þjóðir fer varla fram hjá neinum að staðan er erfið og vandamálin fjölþætt. Stærstu mistök ríkisstjórnarinnar er að mínu mati að draga aðildarumsókn að ESB inn í þetta öngþveiti sem hér ríkir í ríkisfjármálum, efnahagsstjórn og síðast en ekki síst pólitík.
Þegar innihald Icesave-samningsins er skoðað er ljóst að Íslendingar geta ekki, í því umhverfi sem alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skapað hér á landi, staðið við skuldbindingar samningsins. Það er algjörlega dagsljóst í mínum huga að þetta skilja Bretar og þetta skilja Hollendingar.
Því spyr ég hvers vegna hafa þessir aðilar lagt fram samning sem þeir vita að Íslendingar geta ekki staðið undir.
Ég spyr einnig hvers vegna hefur ríkisstjórnin ástundað blekkingarleik í marga mánuði til þess að leyna innihaldi samningsins og gögnum hans.
Öll pólitísk umræða hefur beinst að ESB og Icesave. Ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á því. Icesave-samningurinn er þeirra barn og aðildarumsókn að ESB er þeirra barn.
En ég spyr hvar er uppbyggingin.
Hvar er skjaldborg heimilanna?
Hvar eru viðbrögð við vaxandi atvinnuleysi.
Hvar eru aðgerðir til þess að auka tekjur þjóðarbúsins.
Hvar eru aðgerðir sem miða að verðmætasköpun og aukinni fullvinnslu?
Hvar eru aðgerðir sem miða að því að afla markaða fyrir íslenska framleiðslu?
Hvar er hið aukna lýðræði?
Hvar er aukið gagnMsæi?
Hvers vegna eru skilanefndirnar enn skipaðar mönnum sem tengjast hruninu?
Hvers vegna eru sekir stjórnendur enn að störfum í bönkunum?
Hvernig ætlar Jóhanna að verja skjaldborg heimilanna þegar bankarnir eru komnir í eigu erlendra lánadrottna?
Já þær eru margar spurningarnar
Ríkisfjármálin hafa verið lögð til hliðar. Athyglinni dreift frá risavöxnum vandamálum sem blasa við fjölskyldum og fyrirtækjum og milljarðar settir í aðildarumsókn um ESB.
Ég legg til að ríkisstjórnin sendi alþjóðagjaldeyrissjóðinn heim, dragi til baka umsókn um aðild að ESB og fari að byggja upp innviði samfélagsins, veiða fisk og fullvinna hann, nota orkuna í þágu atvinnulífsins og fari að greiða niður skuldir í stað þess að safna þeim.
Fundur á Austurvelli á morgun kl. 15:00
24.7.2009 | 22:23
Á morgun laugardaginn 25. júlí verður útifundur haldinn á Austurvelli. Útifundur fyrir sjálfstæði Íslands, gegn IceSave og gegn ESB. Rauður vettvangur stendur fyrir þessum fundi. Vinkona mín og félagi úr Frjálslynda flokknum, Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, mun halda ræðu en ég veit ekki hverjir fleiri munu tala á fundinum en vonandi verður þetta fræðandi og upplýsandi fundur.
Það er sérstaklega mikilvægt að sem flestir mæti. Ástæðan er sú að það er mikilvægt fyrir einstaklingana að kynna sér þessi mál vel. Getum við borgað IceSave. Hverjar verða afleiðingarnar fyrir íslenska þjóð ef við verðum knésett vegna skulda. Munum við þá samþykkja ESB í nauðvörn. Hverjir eru möguleikar okkar, eru okkur allar bjargir bannaðar? Flestar þjóðir ganga inn í ESB þegar kreppir að. Þjóðir eru mjög leiðitamar í kreppu og verður kreppan því notuð sem hagsstjórnartæki. Verða þetta örlög okkar?
Hvað er svona mikið leyndó
22.7.2009 | 00:05
Vinnubrögð Alþingis
21.7.2009 | 21:38
Flug til Brussel
20.7.2009 | 23:40
Flogið beint til Brussel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |