Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Austurvöllur kl.15 í dag

Mætum á Austurvöll í dag til að mótmæla þessu Icesave rugli. Krefjumst svara og sýnum að okkur er ekki sama. Látum ekki þingmenn setja okkur í skuldafangelsi til fjölda ára. Svona aðeins til skýringar á því hvað þetta eru hrikalegir vextir sem við erum að taka á okkur. Þá samsvara vextirnir byggingu fjörtíu grunnskóla árlega en það kostar um það bil einn milljarð að byggja grunnskóla. Þá er ég bara að tala um vextina og hvað þá með lánið sjálft. Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp.

Ofurtrú á vinstri menn.

Ég hef verið í sambandi við all nokkra í dag. Það er greinilegt að hluti þjóðarinnar álítur Steingrím og Jóhönnu vera að gera góða hluti með þessari svokölluðu lausn Icesave deilunnar. Mér finnst það aðallega vera eldri einstaklingar sem hafa beðið alla ævi eftir vinstri stjórn á Íslandi. Þessir einstaklingar trúa engu illu á vinstri stjórnina, þau hljóta að vera að gera gott. Annað sem einkennir fyrrnefnda einstaklinga er að þau skilja alls ekki tölurnar. Skilja ekki hvað það er að bæta rekstri eins Landspítala ofaná fjárlögin si svona. Merkilegt, þeim finnst jafnvel að það sé okkar að borga skuldir óreiðumanna og við höfum bara sloppið vel.
mbl.is Erfitt að skrifa undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Steingrímur taglhnýtingur Jóhönnu

Þetta er brjálæði! Þurfum virkilega  við að greiða 37 milljarða í vexti á ári?  Ég set stórt spurningamerki við það að við greiðum þessar skuldir og í öðru lagi finnst mér þetta alveg ótrúlegir vextir. Ég er nýbúin að kynna mér vexti í Svíþjóð og þeir eru mun lægri en þetta. Af hverju taka Bretar ekki bara eignirnar upp í skuldina og sækja svo sjálfir þessa peninga til þeirra sem stofnuðu til þessara skulda. Við getum boðist til að hjálpa þeim við leitina að ábyrgðarmönnunum.  Ætla VG virkilega að koma okkur í þessa skuldasúpu. Ég vil bara ekki trúa því þar sem þeir þurfa ekki að selja okkur fyrir inngöngu í ESB eins og  Samfylgingin virðist vilja gera.
mbl.is Hækkar um 37 milljarða árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðhækkanir fyrir hvern?

Það er eitt sem ég skil ekki við síðustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hún fær 2. milljarða nettó í sinn vasa en við sem skuldum þurfum að greiða 8.milljarða. Hver græðir á þessu eiginlega. Eru það lánastofnanir eða er þetta eingöngu gert til að þóknast AGS eins og Lilja Mósesdóttir var að gefa í skyn. Getur einhver gefið mér skýringu á þessu.

Á puttanum í boði Vinstri Grænna

Það er fullyrt að síðustu aðgerðir Ríkisstjórnarinnar muni auka tekjur ríkisins um liðlega 2 milljarða-nettó. Verðtryggð lán steinsteypueigenda munu hækka um 8 milljarða. Skjaldborg hvað-jóla hvað. Er þetta lið ekki með öllum mjalla. Hækka bensínið rétt fyrir sumarfrí svo að íslenskur ferðaiðnaður fái sem fæsta kúnna í sumar. Hafa Vinstri græn hugsað sér að allir ferðist um landið okkar á puttanum í sumar?

Ég tel forgangsatriði að við fáum einhverja aðila úti í heimi til að lýsa því yfir að íslenskur almenningur sé í útrýmingarhættu. Ef til vill munu Vinstri græn þá fara að meðhöndla okkur jafn vel og hvalina.


Einkavæðingin og afleiðingar hennar

Var að horfa á frábæra heimildarmynd um einkavæðingu og afleiðingar hennar. Þetta er þýsk heimildarmynd eftir Florian Opitz. Í myndinni er sérstaklega litið til einkavæðingar á grunnþjónustu eins og rafveitu,vatnsveitu og heilsugæslu. Einkavæðingunni var hrundið í framkvæmd að undirlagi alþjóðlegra fjármálastofnana í Washington og Genf eins og Aljóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Afleiðingarnar voru vægast sagt hörmulegar. Myndin á fullt erindi til okkar Íslendinga á þessum erfiðu tímum og vekur upp margar spurningar. Hvað er gróði og hvers vegna erum við mannskepnan svona gráðug? Hvernig samfélag viljum við búa börnum okkar? Núna höfum við tækifæri til að stokka upp og endurskipuleggja þjóðfélagið upp á nýtt. Við þurfum að vera á varðbergi fyrir óprúttnum glæframönnum svo við getum búið til þjóðfélag sem byggir á réttlæti og jöfnuði.

Mætum á Austurvöll

Núna er mjög mikilvægt að við veitum stjórnvöldum aðhald. Ríkisstjórnin er ekki að veita heimilunum þá von sem þau svo sárlega þurfa á að halda. Það á bara að bíða þangað til allt er komið í þrot. Þetta er stórhættulegt og margir gefast upp og flýja land. Það er háskalegur leikur að gera ekki neitt fyrir heimilin í landinu því eftir því sem fleiri flýja land verða færri til að borga skatta og skyldur. Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir samstöðufundi á Austurvelli kl 15 laugardaginn 23.maí.  Þetta er frábært framtak og vonandi verður góð mæting. Setjum fram nýjar kröfur. Skiptum áhættu eðlilega milli þeirra sem tóku lán og þeirra sem veittu þau og burt með verðtrygginguna.

Notalegir dagar á Norðfirði

Eyddi helginni í góðu yfirlæti hjá eiginmanninum á Norðfirði eða í Neskaupsstað. Það var ekkert netsamband á dvalarstað okkar hjóna. Fyrst var ég svolítið pirruð yfir þessu en svo gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði hreinlega gott af nokkurra daga netfríi eftir annríki undanfarinna mánaða. Ég las m.a. frábæra bók,Glerkastalann eftir Jeannette Walls, get svo sannarlega mælt með henni. Auðvitað var fylgst með Eurovision og þvílík spenna og gleði þegar úrslitin voru ráðin. Frábær frammistaða hjá Jóhönnu og okkar fólki. Ekki var síðra að lenda í henni Reykjavík í dag. Fegurðin og veðurblíðan sem tók á móti mér var ótrúleg. Þvílík breyting á nokkrum dögum, gróðurinn hefur hreinlega sprungið út. Allir eitthvað svo glaðir og bjartsýnir. Vonandi er þetta góðs viti.

Ég vil sjá visku og framtíðarsýn hjá stjórnmálamönnum

Hver er framtíðarsýn Ríkisstjórnarinnar. Ég á satt að segja mjög erfitt með að koma auga á hana. Flestar aðgerðir miðast við að taka á vandanum þegar barnið er dottið ofan í brunnin en ekki reynt að koma í veg fyrir hann. Væri ekki nær að koma í veg fyrir fjölda gjaldþrot heimila  með almennum aðgerðum en að vera stöðugt að lappa upp á ónýtt kerfi. Það er staðreynd að í okkar þjóðfélagi hefur réttur lánveitenda verið alger og það er hægt að elta skuldara út yfir gröf og dauða. Þessu verðum við almenningur að breyta með því að standa saman og láta í okkur heyra. Stjórnmálamenn sýnið visku og  vinnið þvert á flokka að lausnum fyrir íslenska þjóð. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.

Opinn borgarafundur

Mánudaginn 11.maí verður opinn borgarafundur haldinn í Borgartúni 3 kl 20. Yfirskrift fundarins er skuldir heimilanna og aðgerðir. Frummælendur verða Marinó G.Njálsson frá Hagsmunasamtökum og Sveinn Aðalsteinsson. Marinó mun kynna hinar ýmsu aðgerðir sem Ríkisstjórnin hefur boðað í þágu heimilanna. Sveinn mun tala um skuldir og stöðu þjóðarbúsins og heimilanna. Mætum, fræðumst, verum viðmælendur og tökum virkan þátt í þjóðmálaumræðunni. Vonandi sé ég ykkur sem flest á fundinum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband