Stjórnmál á nýju ári
29.12.2012 | 21:02
Kjarkur og áræðni er það sem við þurfum á nýju ári. Við þurfum heiðarleika og kjark til að horfast í augu við gallað kerfi sem ekki er að vinna fyrir almannahag. Við þurfum kjark og áræðni til þess að þora fara gegn sérhagsmunaöflunum sem grafið hafa um sig á Íslandi . Þetta gerum við ekki með því að flykkja okkur um einhvern leiðtoga heldur með því að standa saman og skynja okkar eigin mátt. Þau öfl sem við erum að takast á við eru mjög öflug. Í dag fer mikil orka í að halda okkur aðskildum sem kæmi að meiri notum ef við stæðum saman.
Ég hef lengi undrast hvað við eyðum mikilli orku í að tala um aukaatriði og skilgreina allt niður í frumeindir. Mörg okkar erum líka svo upptekin af því að þessi eða hinn sé ómögulegur vegna þess sem hann einhvern tímann sagði eða gerði. Það eru líka allt of margir uppteknir af fortíðinni í stað þess að horfa til framtíðar. Við verðum að koma okkur upp úr þessum hjólförum og sjá tækifærin sem bíða okkar.
Ég starfa með stjórnmálasamtökunum Dögun en það er samvinnumiðað umbótaafl . Við sem störfum í Dögun komum úr ýmsum áttum en höfum ákveðið að horfa ekki til aukaatriða heldur sameinast um þau meginatriði sem þarf að leiðrétta í okkar samfélagi. Þessi atriði eru lánamál heimilanna ,stjórnarskráin og uppstokkun á stjórn fiskveiða. Við höfum engan leiðtoga heldur höfum við lagt mikla vinnu í að skapa umgjörð fyrir félagsmenn til að taka þátt og láta rödd sína heyrast. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að við séum fullkomin en við erum að reyna okkar besta í því að feta nýjar slóðir. Það eru margir sem hafa tekið þátt í alls kyns umbótastarfi síðustu árin og vil ég hvetja allt þetta góða fólk til að standa saman og finna farveg fyrir hugsjónir sínar.
Við horfum gjarnan yfir farinn veg um áramót en við megum ekki gleyma að hugsa til framtíðar og hugleiða hvert við ætlum okkur að stefna. Ég hef tekið þátt í ýmsum umbótahópum og vil ég við þetta tækifæri þakka öllum sem ég hef starfað með fyrir samstarfið. Þessi reynsla mín með öllu þessu góða fólki á liðnum árum hefur kennt mér margt og auðgað líf mitt og fyrir það er ég þakklát. Við vitum að sameinuð stöndum við og sundruð föllum við. Margir hafa hugrekki til að gera eitthvað en höfum við hugrekki til að standa saman? Ég hlakka til að takast á við ný tækifæri á nýju ári og hef mikla trú á því að ég eigi eftir að starfa með kjörkuðu og áræðnu fólki sem vill sjá umbætur á íslensku samfélagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Standa saman um hvað ?????????????????????
Guðrún María Óskarsdóttir., 30.12.2012 kl. 01:58
Þú nefnir lánamál heimilanna, Helga, sem er auðvitað góðra gjalda vert og þá hlýt ég að álykta að þið viljið afnema verðtrygginguna, sem er alger nauðsyn. Einnig kvótakerfið en þið ættuð líka að skoða lífeyrissjóðasukkið og allt það óréttlæti sem þar þrífst. Það nefna fáir, hvernig sem á því stendur.
Gangi ykkur vel.
Þórir Kjartansson, 30.12.2012 kl. 10:22
FLottur pistill Helga, sammála, við þurfum að sýna kjart og framsýni til að hafna gömlu afturhaldsöflunum og horfa fram á veginn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2012 kl. 11:53
Sæll Þórir takk fyrir innlitið,
þú getur séð stefnu okkar á http://www.xdogun.is/
og við ætlum að taka fyrir öll þau mál sem þú nefnir og að sjálfsögðu að afnema verðtrygginguna.
Helga Þórðardóttir, 30.12.2012 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.