Gullkistan

Frjálslyndi flokkurinn býður nú fram í Reykjavík í fyrsta sinn einn og óháður. Stefna flokksins snýst um að tryggja velferð og frelsi einstaklingsins. Flokkurinn hefur lengi barist gegn óréttlæti og spillingu í þjóðfélaginu. Frjálslyndi flokkurinn er ekki nefndur til sögunnar í Rannsóknarskýrslu Alþingis, hvorki af styrkjasukki né í því að stunda fyrirgreiðslupólitík. Frjálslyndi flokkurinn getur því þjónað umbjóðendum sínum, almenningi, af heilum hug.

Í mars hélt Frjálslyndi flokkurinn Landsfund. Þar var kosin ný forusta fyrir flokkinn, án nokkura átaka þannig að fjölmiðlar höfðu minnst lítinn áhuga á Landsfundi flokksins. Margir nýir gengu til liðs við flokkinn og meðal annars all margir sem starfað hafa meðal ýmissa grasrótarsamtaka allt frá hruni. Þessir einstaklingar hafa barist fyrir siðbót og réttlæti í þjóðfélaginu og verið í návígi við afleiðingar hrunsins og þekkja því kjör almennings vel.

Nálægð Frjálslynda flokksins við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar gefur honum forskot á að skilja mikilvægi þess að afla þjóðinni og framleiða vörur sem nota má til að afla sér þess sem upp á vantar af gæðum landsins. Þessi skilningur átti undir högg að sækja á meðan menn töldu fjármuni verða til í bankakerfinu. Enn skortir skilning á því að gullkista þjóðarinnar er í hafinu og öll þekking og tól eru til staðar til að afla þjóðarbúinu aukinna tekna. Þetta verður Frjálslyndi flokkurinn að hamra á því í dag virðist sjávarútvegurinn vera eina raunhæfa leiðin til aukinna tekna. Sú leið að auka skuldsetningu þjóðarinnar ætti öllum viti bornum mönnum að vera ljóst að er fullreynd.

Bankakreppan og aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur ýtt af stað ferli á sölu fyrirtækja og auðlinda landsmanna í hendur erlendra aðila. Frjálslyndi flokkurinn hefur ætíð varað við slíku. Tveir stærstu bankarnir og HS Orka eru nú í eigu útlendinga. Sterk öfl vilja að Ísland gangi í ESB og þar með mun sjávarútvegur og auðlind hafsins hverfa úr eigu okkar.

Þennan bakgrunn verða menn að hafa í huga þegar rætt er um sveitastjórnakosningar. Suðurnesjamenn seldu HS orku. Í Reykjavík er Orkuveita Reykjavíkur. Alþingi hafði marga mánuði til að koma í veg fyrir söluna á HS Orku. Það sýnir okkur að fjórflokkurinn hefur engann áhuga né getu til að koma í veg fyrir að auðlindir Íslendinga lendi í höndum erlendra aðila. Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei gefið neinn afslátt á andstöðu sinni við sölu auðlindanna og mun ekki gera það heldur núna.

Þrátt fyrir kreppu verðum við að framleiða sem mest. Reykjavíkurborg verður að gefa nýjum sprotafyrirtækjum kost á að komast á skrið. Stuðla verður að því að sú hrávara sem auðlindirnar skapa okkur verði með þekkingariðnaði gerðar að verðmætari vöru fyrir land og þjóð.

Velferðina vill Frjálslyndi flokkurinn verja, þegar kemur að sparnaði þá lítum við fyrst til lúxus eins og, bílastyrki, utanlandsferðir, skoðanakannanir eða yfirbyggingar í stjórnsýslunni sem misst getur sig án þess að velferðin skaðist. Þegar allur lúxus hefur verið afnuminn þá er hugsanlegt að skera niður í velferðinni, en ekki fyrr.

Vantrú almennings á stjórnmálum kemur glögglega fram í aðdragenda sveitastjórnakosninganna í Reykjavík. Að grínframboð Jóns Gnarr fái yfirburðakosningu sínir að trú almennings á fjórflokknum er búið. Sú niðurstaða segir miklu meira um núverandi fjórflokk og almenning en Jón Gnarr. Að álasa honum er að hengja bakara fyrir smið. Frjálslyndi flokkurinn vill ráða bót á þessu. Við viljum að 10% kosningabærra manna í Reykjavík geti farið fram á almennar kosningar um einstök mál. Þetta færir völd til almennings og er ekki vanþörf á því, sökum þess að sérhagsmunastjórnmálamenn hafa sniðgengið almenning allt of lengi. Með auknum völdum almennings mun vakna áhugi á stjórnmálum og þannig mun þjóðin sigla landinu í örugga höfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra Helga,

ég er ánægður með ykkar stefnumál í Frjálslynda flokknum, mér finnst þau heilsteypt og trúverðug og ég vona svo sannarlega að þið fáið það fylgi sem þið eigið skilið með ykkar stefnuskrá.  Annars er maður orðinn svo leiður á að geta ekki treyst þeim sem fá umboð frá kjósendum að fara með völd í þessu landi að það er ekki fyndið.  Ég hef stutt Vinstri græna en hef tekið þá ákvörðun að styðja engan af fjórflokkunum í þesum sveitarstjórnarkosningum.  Þeir hafa svo marg sinnis fengið tækifæri en alltaf versnar það samt.  Ég held að það þurfi að hleypa nýju fólki að og fólki sem hugsar fyrst og fremst um það sem er samfélaginu og almenningi fyrir bestu.  Almenningur hefur endalaust þurft að líða fyrir auðvaldssefnu flokkana,  hagsmunatengsl og spillingu.

Hugmyndafræði íslenskra stjórnmála virðist vera komin í svo miklar ógöngur að nýtt fólk með hugsjónir þarf að fá að komast að og reyna að snúa vörn í sókn svo venjulegt fólk geti áfram búið í þessu landi.  Landi sem gæti verið svo gott að búa á og enginn þyrfti að líða hér skort.  Spillingaröflunum sem eru að koma landi og þjóð á vonarvöl á öllum sviðum og á alþjóðavettvangi bara vegna einstakra útvaldra auðmanna verður að koma frá sem fyrst.  

Ég ætla að gefa ykkur mitt atkvæði og ég vona svo sannarlega að ykkur gangi vel í þessum kosningum og í framtíðinni.

Sigurður Þorvaldsson (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 00:08

2 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk fyri og saman munum við gera gott úr vandamálunum sem blasa við okkur.

Helga Þórðardóttir, 29.5.2010 kl. 08:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband