Þitt er valið kæri kjósandi

Jón Gnarr virðist ætla að sigra í kosningunum á laugardaginn. Það er mér ekki á móti skapi að fjórflokkurinn hljóti afhroð, innistæða þeirra er engin vegna slæglegrar frammistöðu fyrir og eftir hrun. Það sem mér sárnar er að sett sé samansemmerki milli mín og fjórflokksins hjá kjósendum. Frjálslyndi flokkurinn var sífelt að vara við skuldunum og benda á aðrar leiðir til tekjuöflunar fyrir þjóðina en sú bankaleið sem valin var. Því miður var ekki hlustað á okkur.

Eftir töluverða endurnýjun í röðum okkar bjóðum við fram í Reykjavík í fyrsta skiptið ein og án samvinnu við önnur stjórnmálaöfl. Í síðustu Alþingiskosningum reyndum við að vera raunsæ og ræddum skuldastöðuna, niðurskurðinn, Icesave og fleira slíkt. Okkur var drekkt í kosningaloforðum fjórflokksins sem forðuðust alla alvarlega umræðu um það sem biði þjóðarinnar. Þess vegna skil ég vel hugsun Jóns Gnarr með framboði sínu, ef fólk keypti slíkt rugl á sínum tíma má sjálfsagt selja því hvað sem er. Gott bros og gleði er sjálfsagt mun betra en innantóm kosningloforð fjórflokksins.

Aftur bjóðum við Frjálslyndir okkur fram og aftur bjóðum við upp á umræðu um þær hættur sem þjóðin stendur frammi fyrir. Við teljum að gagnrýnislaus eftirfylgni við stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins muni valda miklum niðurskurði á velferð, atvinnuleysi, landflótta og sölu auðlinda til einkaaðila. Við teljum að þessi skilningur á orsökum fátæktar í Reykjavík sé nauðsynlegur í borgarráði. Það er til lítils að safna brauðmolum handa hungruðum meðan AGS fær að leika lausum hala og skapar dýpri kreppu í landinu. Nær væri að koma böndum á hugmyndafræði sjóðsins og fylgisveina hans hér á landi.

Þess vegna bíð ég mig fram kæri kjósandi, þitt er valið,  það er ekki víst að annað tækifæri komi fyrir okkur, þig og mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Ég held að þið hafið gert taktísk mistök með því að ráðast á AGS í kosningabaráttunni ykkar. Ekki þar með að AGS málið sem slíkt sé ekki gott mál, en það er bara ekki það sem borgarbúar vilja heyra. Það vita það allir að borgin á ekki beina aðild að þessum samningum og borgarfulltrúar hafa lítið um það að segja hvor AGS er eða fer.

Það hefði verið nær að einblína á þau mál sem eru borgarbúum kær.

Ég hef annars ekki nokkra trú á sigri Besta flokksins, það hefur fjarað verulega undan gríninu eins og Illugi bendir á (http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2010/5/28/jon-gnarr-er-eins-og-jesus/)

Það samt alltaf spurning um sigur, þeir eiga eftir að fá nokkra menn inn ekki spurning en verða langt frá því með meirihluta. Það er auðvitað sigur ef þeir fá meira en 30% atkvæða.

TómasHa, 28.5.2010 kl. 11:54

2 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Sæll Tómas,

ég get verið sammála þér að nokkru leiti að AGS sé ekki gott kosningmál. Aftur á móti eru tvær hliðar á öllum málum. Það getur verið mjög athyglisverð þjóðfélagsleg tilraun að fylgjast með viðbrögðum fjölmiðla og almennings við þessari umræðu. Þar sem viðbrögðin eru engin er augljóst að AGS mun eiga alkostar við okkur.

Helga Þórðardóttir, 28.5.2010 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband