Umræðu um málefni-takk
9.3.2014 | 18:43
Nú fara í hönd sveitarstjórnarkosningar og hafa kjósendur aðeins fengið smjörþefinn af því sem koma skal. Það má segja að Stöð tvö hafi hafið kosningabaráttuna með þættinum Stóru málin en þar var undirtitillinn , Hver verður besti borgarstjórinn. Mikael Torfason bauð í dag Degi oddvita Samfylkingarinnar til sín í þáttinn Mín skoðun. Ég fagna þessari umfjöllun Stöðvar tvö en er jafnframt svolítið uggandi yfir hversu plássfrek umræðan er um hver verði næsti borgarstjóri. Eðlilega er Dagur mjög ánægður með það að helmingur kjósenda í Reykjavík vilji hann sem borgarstjóra. Um leið reynir Björn Blöndal að sannfæra kjósendur um að hann sé aldeilis til í að setjast í þennan stól. Hver er munurinn á Samfylkingunni og Bjartri framtíð? Ég vona að þessi kosningabarátta fari ekki að snúast upp í einhverja störukeppni um það hver verði besti borgarstjórinn .
Það var hressandi að heyra skoðanir borgarbúa í þætti Mikaels Mín skoðun í dag. Það var greinilegt að mörg mál brenna á borgarbúum. Vonandi fá borgarbúar fleiri tækifæri til að koma óskum sínum á framfæri og að þessi kosningabarátta snúist fyrst og fremst um málefni. Ég vil hvetja fjölmiðla til að gera skoðanakönnun á því hvaða málefni borgarbúar setja í forgang. Mér er þetta sérlega hugleikið þar sem ég hef ákveðið að bjóða mig fram til þjónustu fyrir borgarbúa en ég er ein af mörgum sem skipa sæti á framboðslista Dögunar. Það er ósk mín og von að þessi kosningaumræða verði málefnaleg og heiðarleg.
Meira um forsendubrest
20.11.2013 | 21:21
Það má ekki afnema verðtrygginguna því hún framleiðir svo mikla peninga sem gerir bönkunum kleift að framleiða ennþá meiri peninga. Sú skuldsetning sem skapast við þetta veldur aukinni verðbólgu því peningar eru búnir til sem skuld. Þetta gagnast bönkunum og fjármagnseigendum.
Að halda stýrivöxtum háum eykur ávöxtun bankanna og eykur allan kostnað í þjóðfélaginu þannig að verðbólgan eykst og þess vegna kunna bankarnir vel við háa stýrivexti. Þess vegna verða þeir sennilega áfram háir.
Bankarnir og Seðlabankinn mega ekki heyra minnst á leiðréttingasjóð því þá fær Seðlabankinn vald til að búa til peninga sem bankarnir vilja halda fyrir sig. Okkur er ógnað með því að þá munu matsfyrirtækin senda okkur í ruslflokk. Matsfyrirtækin eru jú vinir fjármálafyrirtækjanna og það má alls ekkert gera sem að skerðir völd bankanna.
Að leiðrétta forsendubrestinn með fjármunum vogunarsjóða kemur ekki til greina því þeir eiga bankana og bankarnir virðast alltaf fá sitt .
Fjármálastofnanir ráða yfir gríðarlegum fjármunum og geta því ráðið til sín áróðursmeistara sem segja okkur almenningi að það fari allt í vitleysu ef við ætlum að breyta einhverju af þessum atriðum. Öll brögð eru notuð og þeir eru meistarar í því að etja okkur saman með alls kyns hræðsluáróðri.
Hvenær ætlum við að fara að skilja völd bankanna og fjármálakerfisins. Við þurfum að fara snúa okkur að bönkunum til að fara að breyta einhverju í þessu þjóðfélagi og hætta að rífast innbyrðis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að þora
19.4.2013 | 23:29
Ég trúi ekki öðru en að fólk þori að hugsa upp á nýtt og þori kjósa eitthvað annað en það sama gamla í þessum kosningum. Mig langar allavega að trúa því að nú sé fólk nógu kjarkað til að breyta. Eftir að hafa fylgst með kosningaumfjöllun síðustu vikna þá hef ég oft spurt sjálfa mig að þessari spurningu. Hvernig væri umræðan ef ekki væru allir þessir nýju flokkar? Ykkur finnst þetta kannski skrítin spurning en sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Gömlu flokkarnir fastir í frösum og segja okkur sem mest í einhverjum orðaflaumi sem við skiljum sem minnst lítið í og svo kæmi Björt framtíð inn á milli og segði okkur að flokkarnir ættu ekki að vera með svona mikið vesen og við ættum að tala meira saman. Mér finnst líka merkilegt að fylgjast með því hvað fjölmiðlafólk er svolítið óöruggt með þessa nýju stöðu. Það er vant því að tala við þessa hefðbundnu stjórnmálaflokka og öll umræðan á að snúast í kringum þá. Vissulega er viðleitni í að leyfa okkur að vera með en á einhvern hátt skynja ég að viðhorfið er annað.
Ég er frambjóðandi Dögunar í Reykjavík og er ákaflega stolt af því að vera þátttakandi í þessari gerjun sem á sér stað íslenskri pólitík. Dögun er nýtt stjórnmálaafl sem vill og þorir að gera breytingar á íslensku samfélagi. Þú kjósandi góður þarft fyrst og fremst að kjósa með hjartanu og kynna þér stefnumál nýju flokkanna og ég vil hvetja þig til að kynna þér stefnumál Dögunar á xt.is. Saman erum við sterk og saman getum við byggt þjófélag sem byggir á sanngirni og réttlæti. Látum ekki hræða okkur til hlýðni með því að reka okkur í gömlu réttirnar því nú er lag til að prófa eitthvað nýtt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Getum við treyst
29.3.2013 | 20:03
Margir kjósendur eru sárir og svekktir með þá flokka sem þeir kusu í síðustu Alþingiskosningum. Fólki var lofað mörgu fögru eins og skjaldborg um heimilin, nýrri stjórnarskrá og já auðvitað átti að koma á betra og sanngjarnara þjóðfélagi. Draumurinn um nýja Ísland fauk út um gluggann á síðustu dögum þingsins. Hvað er nú til ráða hverjum geta kjósendur treyst til að halda áfram með kyndilinn fyrir nýju Íslandi. Stjórnarandstaðan lofar bót og betrun og stjórnarliðar tala um hvað þeir hafa þurft að moka mikinn skít eftir fyrri stjórnir. Getum við treyst nýjum og fallegum kosningaloforðum frá þessum flokkum? Hér verður hver og einn að svara fyrir sig en ég get sagt fyrir sjálfa mig að það get ég ekki lengur. Ef menn sýna ekki í verki það sem þeir segjast ætla að gera þá er ekkert að marka þetta fólk. Við sem erum uppalendur vitum hvað það er mikilvægt að vera góð fyrirmynd og standa við gefin loforð.
Ég er í framboði fyrir Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði og ég býð fram krafta mína til að búa til betra og sanngjarnara samfélag. Við í Dögun setjum heimilin í forgang ,við viljum gagngera endurskoðun á stjórn fiskveiða og við viljum lýðræðisumbætur með því að fólkið fái sína eigin stjórnarskrá. Ég gæti endalaust talið upp það sem við viljum gera en hvernig eiga kjósendur að trúa mér eða öðrum félögum mínum í Dögun. Sjálfsagt munu margir halda því fram að þetta sé allt sama tóbakið og þetta lið vill bara komast að kjötkötlunum. Auðvitað er erfitt að svara svona röksemdafærslu þar sem við höfum ekki fengið tækifæri til að sanna okkur. Frambjóðendur Dögunar eru flest venjulegt fólk sem deilir kjörum með almenningi og mörg okkar höfum verið fastagestir á Austurvelli til að reyna að ná eyrum kjörinna fulltrúa okkar. Núna viljum við ná eyrum ykkar kjósendur góðir. Það hefur verið erfitt að fá þingmenn og aðra ráðamenn til að hlusta á okkur. Við höfum beitt ýmsum aðferðum eins og að berja potta og bumbur, haldið borgarafundi, safnað undirskriftum og margt fleira. Þetta höfum við gert með misjöfnum árangri. Vonandi tekst okkur betur að ná eyrum ykkar.Við eigum kannski ekki greiðan aðgang að fjölmiðlum landsins því við tilheyrum engri valdaklíku og það munu engin sérhagmunaöfl græða neitt á því að kjósa okkur. Við trúum því að það sé komið að okkur sjálfum þ.e. fólkinu í landinu að snúa við blaðinu og breyta. Það er orðið fullreynt með fjórflokkinn, gamla valdastéttin er ófær um að hugsa um hag almennings. Við erum ekki í framboði til að koma einhverjum flokki til valda heldur til að hafa áhrif á þjóðfélagið okkar og þjóna fólkinu í landinu. Þið kjósendur góðir getið hjálpað okkur við það með því að kynna ykkur stefnumál okkar og vonandi komið þið í þessa vegferð með okkur. Saman getum við ef við stöndum saman.
Frambjóðandi
24.3.2013 | 15:50
Við erum mörg sem höfum unnið að þessu framboði í langan tíma. Dögun átti eins árs afmæli 18.mars síðastliðinn en það var ekki upphafið því vinna að mótun framboðsins á sér rætur allt frá haustinu 2011. Hugmyndin var að reyna að sameina krafta margra hópa og finna það sem gæti sameinað okkur . Við vildum gera hlutina alveg frá grunni og byrjuðum því að búa til mjög lýðræðisleg lög sem settu okkur ákveðinn vinnuramma. Við lögðum gríðarlega mikla vinnu í að búa til kjarnastefnu flokksins en það eru þau stefnumál sem sameina okkur og við leggjum mesta áherslu á að koma í framkvæmd.
Síðastliðið ár höfum við reynt að láta í okkur heyra og unnið enn frekar að stefnumálum okkar. Félagsmenn Dögunar hafa komið að því að móta stefnu okkar í málefnahópum. Við höfum leitað lausna víða og auðvitað erum við ekki að finna upp hjólið. Það sem hefur einkennt þessa stefnumótunarvinnu er að við höfum leitað lausna með hagsmuni almennings í fyrirrúmi og við þorum að fara óhefðbundnar leiðir. Við ætlum okkur að ögra sérhagsmunaöflunum. Auðvitað munu þeir sem valdið hafa reyna að gera allt til að láta rödd okkar ekki heyrast og gera okkur ótrúverðug. Ég hlakka til að vinna með öllu því góða fólki sem er með mér í Dögun. Á framboðslistum okkar er ekki endilega fína og fræga fólkið heldur margt hugsjónafólk sem hefur staðið í eldlínunni undanfarin ár og barist fyrir réttlátara þjóðfélagi. Ég er stolt af því að fá tækifæri til að vinna með þessum eldhugum. Mikilvægasta verkefnið framundan er þó að koma að gagni fyrir land og þjóð.
Landsfundur Dögunar..VIÐ
16.3.2013 | 01:09
Landsfundur Dögunar hófst í dag. Stjórnmálasamtökin Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði voru stofnuð fyrir ári síðan. Reyndar var meðgangan öllu lengri. Í dag var upplifunin sú að hér væri á ferðinni eitthvað ekta. Hvað rekur allan þennan hóp af fólki á föstudagseftirmiðdegi, eftir að hafa greitt í stöðumæla samviskusamlega, til að sitja á fundi og ræða lausnir sem eiga fyrst og fremst að gagnast þjóðinni. Þetta og margt fleira gefur okkur von um að eitthvað jákvætt sé að gerast. Dögun er afl sem vill virkilega breyta.
Við í Dögun viljum margt og um það má lesa á heimasíðu okkar en án stuðnings almennings erum við áhrifalaus. Þess vegna þurfum við ykkar stuðning svo að við verðum virkilega VIÐ. Ef við stöndum saman sem VIÐ þá er allt mögulegt, jafnvel nýtt Ísland.
Núna um helgina munum við taka ákvarðanir um mörg af stefnumálum Dögunar. Þess vegna er mikilvægt að almenningur kynni sér niðurstöðu Landsfundar og kanni hvort hann geti ekki samsamað sig stefnu okkar.
Innan Dögunar eru bæði gamlar og nýjar hetjur. Einstaklingar sem hafa barist ártugum saman fyrir réttlæti og eru alsettir skrámum eftir baráttu áranna. Þeir búa að reynslu, þolgæði og viðsýni. Samtímis eru yngri hetjur með eldmóðinn og óþolinmæðina. Síðan höfum við hóp sem er svona mitt á milli. Við erum hópur sem vill bjóða sig fram í einlægni og gefa þjóðinni kost á að kjósa eitthvað annað en hefðbundna spillingu og svik fjóflokksins. Það má segja að fjórflokkurinn hafi átt að sinna sínu hlutverki fyrir væntingar almennings en hann brást. Við í Dögun erum reiðubúin að taka að okkur hutverkið. Við erum að bjóða okkur fram til að berjast fyrir réttlæti. Stöndum saman, öðruvísi er það ekki hægt, þ.e.a.s. ef við viljum breytingar okkur öllum til hagsbótar.
Stjórnmál á nýju ári
29.12.2012 | 21:02
Kjarkur og áræðni er það sem við þurfum á nýju ári. Við þurfum heiðarleika og kjark til að horfast í augu við gallað kerfi sem ekki er að vinna fyrir almannahag. Við þurfum kjark og áræðni til þess að þora fara gegn sérhagsmunaöflunum sem grafið hafa um sig á Íslandi . Þetta gerum við ekki með því að flykkja okkur um einhvern leiðtoga heldur með því að standa saman og skynja okkar eigin mátt. Þau öfl sem við erum að takast á við eru mjög öflug. Í dag fer mikil orka í að halda okkur aðskildum sem kæmi að meiri notum ef við stæðum saman.
Ég hef lengi undrast hvað við eyðum mikilli orku í að tala um aukaatriði og skilgreina allt niður í frumeindir. Mörg okkar erum líka svo upptekin af því að þessi eða hinn sé ómögulegur vegna þess sem hann einhvern tímann sagði eða gerði. Það eru líka allt of margir uppteknir af fortíðinni í stað þess að horfa til framtíðar. Við verðum að koma okkur upp úr þessum hjólförum og sjá tækifærin sem bíða okkar.
Ég starfa með stjórnmálasamtökunum Dögun en það er samvinnumiðað umbótaafl . Við sem störfum í Dögun komum úr ýmsum áttum en höfum ákveðið að horfa ekki til aukaatriða heldur sameinast um þau meginatriði sem þarf að leiðrétta í okkar samfélagi. Þessi atriði eru lánamál heimilanna ,stjórnarskráin og uppstokkun á stjórn fiskveiða. Við höfum engan leiðtoga heldur höfum við lagt mikla vinnu í að skapa umgjörð fyrir félagsmenn til að taka þátt og láta rödd sína heyrast. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að við séum fullkomin en við erum að reyna okkar besta í því að feta nýjar slóðir. Það eru margir sem hafa tekið þátt í alls kyns umbótastarfi síðustu árin og vil ég hvetja allt þetta góða fólk til að standa saman og finna farveg fyrir hugsjónir sínar.
Við horfum gjarnan yfir farinn veg um áramót en við megum ekki gleyma að hugsa til framtíðar og hugleiða hvert við ætlum okkur að stefna. Ég hef tekið þátt í ýmsum umbótahópum og vil ég við þetta tækifæri þakka öllum sem ég hef starfað með fyrir samstarfið. Þessi reynsla mín með öllu þessu góða fólki á liðnum árum hefur kennt mér margt og auðgað líf mitt og fyrir það er ég þakklát. Við vitum að sameinuð stöndum við og sundruð föllum við. Margir hafa hugrekki til að gera eitthvað en höfum við hugrekki til að standa saman? Ég hlakka til að takast á við ný tækifæri á nýju ári og hef mikla trú á því að ég eigi eftir að starfa með kjörkuðu og áræðnu fólki sem vill sjá umbætur á íslensku samfélagi.
Frétt
10.11.2012 | 00:31
Mig langar til að vekja athygli á frétt sem ég las í Fréttablaðinu í gær á bls.16 en þar segir eftirfarandi:
ESA rannsakar lán til VBS
Eftirlitsstofnun EFTA(ESA)ákvað fyrir ári síðan að hefja formlega rannsókn á lánveitingum íslenska ríkisins til fjárfestinabankanna VBS, Sögu og Aska Capital.Bankarnir fengu samtals 52 milljarða króna lánaða frá ríkinu í mars 2009. Saga og VBS fengu samtals 46milljarða króna lánaða. Lánin voru til sjö ára með 2%vöxtum. markaðsvextir á þeim tíma voru 12%. Báðir bankarnir tekjufærðu vaxtaáhrif lánsins afturvirkt í ársreikningum sínum fyrir árið 2008. Við það varð eigarfjárstaða bankanna jákvæð og þeir keyptu sér aukinn líftíma.
Leiði skoðun ESA í ljós að ríkisaðstoðin sem bönkunum þremur var veitt brjóti í bága við ákvæði EES samninginn verður óskað eftir því að íslensk stjórnvöld krefji viðtakendurna um endurgreiðslu hennar. Þeir eru allir gjaldþrota.
Svo mörg voru þau orð.
Ég spyr mig.Hvers vegna erum við ekki að ræða þetta. Er alveg sjálfsagt að setja 52 milljarða af skatttekjum okkar í fjármálafyrirtæki?
Ég spyr bara vegna þess að mér finnst þetta ekki vera rætt í feitletruðum fyrirsögnum fjölmiðlanna.
Þurfum við ekki að fara að forgangsraða í hvað skatttekjur okkar fara í
Konur og stjórnmál
8.11.2012 | 23:10
Svarið er ekki einhlítt en það fyrsta sem kemur upp í hugann er vantraust á vinnustaðnum, stöðugar deilur, stöðug gagnrýni, ömurlegur vinnutími, samkeppni og hanaslagur. Ég gæti örugglega talið upp miklu fleiri atriði en læt hér staðar numið.
Eigum við konur þá bara að gefast upp og segja að þetta sé ekkert fyrir okkur og pólitíkin sé bara mannskemmandi.
Eftir nokkra íhugun segi ég Nei. Við megum ekki gefast upp því það er okkar hlutverk að breyta áherslunum og koma á samvinnu og finna lausnir.
Vöknum til vitundar
4.10.2012 | 20:51
Ég á mér draum um að Íslendingar vakni upp af doðanum sem einkennt hefur landann undanfarið og fari að ræða um innihald nýrrar stjórnarskrár. Stjórnarskráin er einstakt tæki til að móta þjóðfélagið til betri vegar. Við fáum tækifæri til að segja hvað við viljum hafa eða ekki hafa í nýrri stjórnarskrá. Það eru margir út í hinum stóra heima sem horfa til okkar með öfund. Nýtum þetta tækifæri og förum að ræða um það hvað við viljum hafa í nýrri stjórnarskrá. Fræðumst um það hvað stjórnarskrá er og hvers vegna það er svo mikilvægt að almenningur hafi aðkomu að gerð stjórnarskrár. Gleymum því þó ekki að við getum ekki búið til okkar einka stjórnarskrá. Við verðum að gera málamiðlanir og finna út hvað er það mikilvægasta. Stjórnlagaráð lagði grunn að þeirri stjórnarskrá sem við eigum að fá að kjósa um þann 20.október. Eftir að hafa tekið tillit til skoðana 1000 manna þjóðfundar og valið það besta úr öðrum stjórnarskrám þá komst ráðið að þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir að landsmenn fái að kjósa um. Mér finnst ein af grundvallar spurningunum sem við þurfum að spyrja okkur vera hvort að þessi stjórnarskrá er betri en sú gamla? Ég get bara svarað fyrir mig og er alveg sannfærð um að þau drög að stjórnsarskrá sem verða lögð fyrir þjóðina eru betri. Ég vona að við getum farið að ræða um innihald nýju stjórnarskrárinnar og hvað það er sem okkur finnst vera betra eða verra. Stjórnarskráin er ekkert einkamál stjórnmálamanna heldur er hún sáttmáli um það hvernig þjóðfélag við viljum skapa. Látum þetta tækifæri ekki fram hjá okkur fara og ræðum saman um hvers konar þjóðfélag við viljum. Notum tímann vel fram að kosningunum 20. október.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)